Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 71 . mál.


Sþ.

71. Tillaga til þingsályktunar



um athugun á varðveislu ljósvakaefnis.

Flm.: Birgir Ísl. Gunnarsson, Friðjón Þórðarson, Friðrik Sophusson,


Pálmi Jónsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fram fara athugun á því hvernig best verði staðið að skipulegri varðveislu ljósvakaefnis sem hafi menningarsögulegt gildi eða geti verið mikilvægt fyrir rannsóknir næstu kynslóða á sögu lands og þjóðar.

Greinargerð.


    Heimildir um íslenska sögu fyrri alda er ekki síst að finna í alls kyns prentuðu eða skrifuðu máli. Sendibréf, minnisblöð, dagbækur og fleira þess háttar hafa verið ómetanlegar heimildir við skrásetningu sögu þjóðarinnar eða einstakra persóna. Þótt nú sé mikið gefið út af alls kyns prentuðu máli hafa samt ýmsir áhyggjur af því að það geti verið nokkuð gloppótt sem heimild til sagnaritunar fyrir þær kynslóðir sem á eftir koma.
    Það færist stöðugt í vöxt að minnisblöð, orðsendingar og annað efni af ýmsu tagi sé sent með tölvum á milli manna og hverfi síðan. Mjög mikið efni er flutt á öldum ljósvakans í sjónvarpi eða útvarpi og mest af því hverfur og gleymist. Gífurlegar heimildir liggja í margs konar útvarps- og sjónvarpsefni og engin trygging er fyrir því að slíkt efni sé varðveitt. Þar ræður mestu um hvort innan einstakra stofnana sé áhugi á slíkri heimildasöfnun. Gefur auga leið að það er tilviljunum háð. Engar reglur eru til um hvað beri að geyma né hver eigi að varðveita það. Ríkisútvarpið á allgott safn af ljósvakaefni, en þó er ljóst að margs konar efni hefur glatast, m.a. margt áhugavert sjónvarpsefni. Flutningsmönnum er ekki kunnugt um hvernig geymslu er háttað hjá öðrum ljósvakamiðlum.
    Þingsályktunartillaga þessi er flutt til að það verði kannað með skipulegum hætti hvernig varðveislu ljósvakaefnis verði best hagað. Er ljóst að það má ekki lengur vera tilviljunum háð hvað af slíku efni sé varðveitt, hver varðveiti og hvernig háttað sé aðgangi að slíku efni. Á að leggja varðveisluskyldu á einstakar stofnanir? Á að koma upp sérstöku ljósvakasafni, t.d. í tengslum við væntanlega þjóðarbókhlöðu eða þjóðskjalasafn? Hver á að meta hvað beri að varðveita og hvað fari í glatkistuna? Er þörf sérstakrar lagasetningar í þessu sambandi? Þetta eru dæmi um spurningar sem leita þarf svara við og er sá tilgangur þessarar þingsályktunartillögu að mál þetta verði athugað og tillögur samdar í kjölfar slíkrar athugunar.