Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 201 . mál.


Sþ.

233. Tillaga til þingsályktunar



um samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972.

Flm.: Eyjólfur Konráð Jónsson, Kristín Einarsdóttir,


Ragnhildur Helgadóttir.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að undirbúa nú þegar í samráði við utanríkismálanefnd beinar samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972.

Greinargerð.


    Fríverslunarsamningur Íslands og Evrópubandalagsins var undirritaður 22. júlí 1972 og tók gildi 1. apríl 1973, nema bókun nr. 6 um sjávarafurðir sem ekki öðlaðist gildi fyrr en 1. júlí 1976, að afloknum fiskveiðideilum. Bókun 6 var Íslendingum mjög mikilvæg frá upphafi og er enn þýðingarmikil. En við stækkun Evrópubandalagsins, einkum eftir inngöngu Spánverja, Portúgala og Grikkja, fer hins vegar mestallur saltfiskútflutningur Íslendinga til EB-ríkja en saltfiskur fellur ekki undir bókun 6 og nýtur því ekki tollfrelsis innan bandalagsins nema að hluta. Heildartollgreiðslur til bandalagsríkjanna eru nú hærri hlutfallslega en þær voru áður en bandalagið stækkaði og fleiri ríki fengu aðild að því.
    Í samskiptum okkar við Evrópubandalagið hlýtur að teljast eðlilegt að meginútflutningsvara okkar, fiskur og fiskafurðir, njóti svipaðra viðskiptakjara á mörkuðum bandalagsins og það nýtur við innflutning iðnaðarvara til Íslands. Í þessu sambandi þarf að athuga hvort Íslendingar geti fellt niður tolla á vörur frá Evrópubandalaginu í enn ríkara mæli en orðið er með það að markmiði að tollfrjáls viðskipti verði milli Íslands og bandalagsins.
    Flutningsmenn telja enga ástæðu til að ætla annað en að ráðamenn Evrópubandalagsins muni vera fúsir til að taka tillit til breyttra aðstæðna og því sjálfgefið að hefja beri viðræður við þá um málið nú þegar.