Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 1 . mál.


Sþ.

278. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1990.


    Afgreiðsla fjárlaga í fjárveitinganefnd hefur að þessu sinni verið með hefðbundnum hætti. Frumvarp til fjárlaga var lagt fram í upphafi þings. Fjárveitinganefnd hafði hins vegar hafið störf sín nokkru fyrr auk þess sem hún hafði unnið að ýmsum viðfangsefnum yfir sumarið á meðan Alþingi sat ekki að störfum. Nefndin byrjaði fundahöld sín 2. okt. og átti þá viðræður við sveitarstjórnir. Eins og jafnan áður gengu fulltrúar fjölmargra sveitarstjórna víðs vegar af landinu á fund fjárveitinganefndar og afhentu nefndinni erindi sín.
    Að loknum fundunum með sveitarstjórnum hófst fjárveitinganefnd handa við yfirferð fjárlagafrumvarpsins og eftir þá yfirferð kallaði nefndin fyrir sig ráðuneyti og stofnanir. Öll var þessi vinna hefðbundin en þó þannig að umfang þessara viðtala og erinda sem nefndinni berast aukast stöðugt ár frá ári. Mikill tími nefndarinnar og nefndarmanna fer í að sinna þessum viðtölum og til þess að ráða við það á tilsettum tíma hefur nefndin nú eins og áður skipt sér í undirhópa bæði er varðar viðtöl við aðila og eins við vinnu að tillögugerð um skiptingu fjárveitinga til stofnkostnaðar. Sá tími, sem fer í viðtöl við einstaklinga, félagasamtök og forráðamenn stofnana ríkisins, verður sífellt lengri og gerir það að verkum að alltaf gengur stöðugt á þann tíma sem fjárveitinganefnd hefur afgangs til að undirbúa tillögur sínar eftir að viðræðum lýkur.
    Yfirferð fjárveitinganefndar yfir frumvarpið og viðtöl við þá fjölmörgu aðila, sem ýmist komu að eigin frumkvæði á fundi nefndarinnar eða nefndin kallaði fyrir sig, lauk ekki fyrr en 1. des. sl. og hafði nefndin því ekki nema örfáa daga til þess að snúa sér að hinum meginþættinum í starfinu, þ.e. undirbúningi að tillögugerð. Hafði nefndin þá tekið við erindum frá alls um 530 aðilum og var rætt við þá allflesta, suma oftar en einu sinni. Í hverju erindi eru oft fleiri viðfangsefni þannig að í þessum 530 erindum var sótt um afgreiðslu á alls 1403 viðfangsefnum og samanlögð fjárhæð beiðna um fjárveitingar umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi nam 10 milljörðum 293 milljónum króna.
    Auk þess mikla starfs, sem öll þessi vinna krafðist af nefndarmönnum, komu svo fjáraukalögin fyrir árið 1989 og athugasemdir yfirskoðunarmanna og ríkisendurskoðenda við ríkisreikning fyrir árið 1988, en fjárveitinganefnd hefur varið allnokkrum tíma í að athuga þetta hvort tveggja og hefur búið sig undir að geta einnig afgreitt frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1989 nú fyrir jólin samhliða fjárlagaafgreiðslunni fyrir árið 1990, en frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1988 er enn ekki komið fram á Alþingi. Hefur því vinnuálagið á fjárveitinganefnd verið meira nú en nokkru sinni áður og hefur það m.a. orðið til þess að fjárveitinganefndarmenn hafa meira og minna slitnað úr tengslum við önnur störf sem fram fara á Alþingi og orðið að vera fjarverandi fundi og umræður í deildum og sameinuðu þingi. Er þetta vitaskuld mjög bagalegt bæði fyrir nefndarmenn og fyrir þingstörf og gefur auga leið að hér verða menn að rata nýjar leiðir í vinnubrögðum svo að þeir þingmenn, sem í fjárveitinganefnd sitja, geti tekið eðlilegan þátt í öðrum störfum þingsins. Vinnuálagið hefur auk þess verið feikilegt og enginn vafi er á því að fjárveitinganefndarmenn hefðu lent í miklum erfiðleikum ef nefndin hefði ekki haft sér til aðstoðar mjög gott starfsfólk frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Ríkisendurskoðun og frá Alþingi. Fjárveitinganefnd Alþingis færir þessu fólki sérstakar þakkir fyrir góð störf og er það álit nefndarinnar að samvinnan við Ríkisendurskoðun og Fjárlaga- og hagsýslustofnun sé nefndinni ómetanleg og að nauðsynlegt sé að varðhalda og treysta slíkt samstarf.
    Þá er einnig ljóst að þegar vinnuálag er orðið svo mikið þurfa öll störf að ganga mjög greitt og liðlega fyrir sig í fjárveitinganefnd og slíkt verklag verður ekki gerlegt nema gott samstarf takist milli meiri hl. og minni hl. í nefndinni. Slíkt samstarf hefur tekist og þótt vissulega séu skiptar skoðanir í nefndinni milli meiri hl. og minni hl. um einstök viðfangsefni og heildarstefnumótun hefur minni hl. nefndarinnar lagt sig fram um að greiða vel fyrir öllum störfum nefndarinnar og hefur auðveldað það á alla lund að störf hennar gætu gengið vel fyrir sig og lagt ýmislegt gott til mála.
    Eftir þá reynslu, sem fengist hefur af starfi fjárveitinganefndar nú og þá ekki síst eftir að við starfsemi hennar bætist, á sama tíma og verið er að afgreiða fjárlög fyrir komandi ár, að takast á við ríkisreikninga liðins árs, er óhjákvæmilegt með öllu að menn hugi að breytingum á starfsemi nefndarinnar. Tími er nú til þess kominn að sú breyting verði gerð á lögum um þingsköp Alþingis að fjárveitinganefnd verði gerð að heils árs nefnd, eins og á við um utanríkismálanefnd, þannig að nefndin geti starfað með formlegum hætti á milli þinga.
    Þá ber einnig að geta þess að á þeim tímum, þegar fjölmiðlar virðast eiga stöðugt greiðari aðgang að upplýsingum sem fjalla á um sem trúnaðarmál, hafa trúnaðarmál verið sérstaklega vel varðveitt í fjárveitinganefnd, enda byggist samstarfið í nefndinni á því að fullur trúnaður ríki innan hennar. Jafnhliða því sem fjárveitinganefnd yrði gerð að heils árs nefnd þyrfti að kveðja nefndina fyrr til starfa á haustin og veita þá nefndinni aðgang að ýmsum atriðum varðandi undirbúning stjórnvalda að fjárlagatillögum, þannig að þegar fjárlög væru lögð fram á Alþingi væri fjárveitinganefnd lengra komin í vinnu sinni við skoðun meginatriða fjárlagatillagna ríkisstjórnar en getur gerst með því fyrirkomulagi sem ríkt hefur til þessa. Forsenda fyrir slíkum breytingum er auðvitað sú að fjárveitinganefnd fái upplýsingar í trúnaði á meðan frumvarp til fjárlaga er á vinnslustigi og varðveiti þann trúnað.
    En það er ekki aðeins að nýmælið um framlagningu frumvarps til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár auki á vinnu fjárveitinganefndar heldur auðveldar það nefndinni einnig vinnu hennar við sjálfa fjárlagagerðina, en gerir líka meiri kröfur til fjárveitinganefndar um vönduð vinnubrögð og meira vinnuframlag. Höfuðatriði varðandi gæði fjárlagaáætlunar er auðvitað hvort grunnur áætlunargerðarinnar er rétt lagður. Grunnur frumvarps til fjárlaga kemur auðvitað hvergi betur fram en í þeim upplýsingum sem fást úr nýjasta ríkisreikningi og fjáraukalögum yfirstandandi árs um rekstrarumfang stofnana og kostnað viðfangsefna. Á slíkum upplýsingum eiga menn að byggja áætlun fjárlaga um útgjöld ríkisins og stofnana þess á næsta ári. Eins og verið hefur um margra ára skeið, eða næstum því frá upphafi fjárlagagerðar á Íslandi, hafa slíkar upplýsingar ekki verið tiltækar a.m.k. ekki fyrir Alþingi. Með þeirri breytingu, sem hæstvirtur núverandi fjármálaráðherra hefur gert með því að leggja fram fyrir Alþingi í upphafi þings, bæði ríkisreikning sl. árs og frumvarp til fjáraukalaga líðandi árs, hefur orðið gerbreyting hér á. Nú getur fjárveitinganefnd Alþingis haft til hliðsjónar um fjárlög næsta árs nýjustu upplýsingar úr ríkisbókhaldi og ríkisreikningi um rekstrarumfang stofnana og getur þá nefndin áætlað með hliðsjón af þeim upplýsingum hversu vel og sterklega grunnurinn sé lagður í fjárlagafrumvarpi eða hvort eitthvað bresti þar á.
    Við þessa yfirferð fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1990, sem nú hefur átt sér stað, hefur fjárveitinganefnd eftir föngum reynt að viðhafa slík vinnubrögð. Áður en til afgreiðslunnar var gengið í nefndinni hafði hún þannig farið vandlega yfir bæði ríkisreikninginn fyrir 1988, svo og athugasemdir Ríkisendurskoðunar og skoðunarmanna ríkisreiknings þar við og frumvarp til fjáraukalaga fyrir 1989. Út frá upplýsingum, sem þar koma fram, reyndi nefndin svo í samvinnu við Fjárlaga- og hagsýslustofnun og Ríkisendurskoðun að gera þær leiðréttingar á fjárlagafrumvarpi miðað við óbreyttan rekstur sem nefndin taldi að gera þyrfti með hliðsjón af upplýsingum úr fjáraukalagafrumvarpi og ríkisreikningi. Ekki verður neitt um það fullyrt hvernig nefndinni hefur tekist þetta ætlunarverk sitt, en þetta var hennar stefna og sannleikurinn er sá að þótt nefndin geri nú tillögur um allverulegar hækkanir frá frumvarpinu er meginhlutinn af þeim hækkunum til kominn vegna leiðréttinga á launaliðum, verðuppfærslum og öðrum rekstrargjöldum sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur staðfest að séu réttmætar leiðréttingar á grundvelli nýjustu upplýsinga sem fyrir liggja úr ríkisreikningi og yfirferð nefndinnar yfir fjáraukalagafrumvarpið fyrir 1989.
    Ef litið er á heildartillögur nefndarinnar um viðbótarútgjöld sem nema nú fyrir 2. umr. 1 milljarði 182 millj. 262 þús. kr. eru tillögur hennar um hækkun rekstrarliða þar af um 570 millj. 205 þús. kr. og er sú fjárhæð svo til öll vegna lagfæringa á áætlunum frumvarpins um útgjöld vegna launa miðað við óbreyttan rekstur sökum rangrar verðuppfærslu í frumvarpinu eða vanáætlana um önnur rekstrarútgjöld. Nefndin gerir síðan tillögu um lækkun sértekna upp á 259 millj. og 716 þús. kr. og er það sama um þessar tillögur að segja og hinar fyrri að svo til öll þessi fjárhæð er vegna leiðréttinga og lækkunar sértekna sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu. Tillögur nefndarinnar um hækkun viðhalds eru um 8 millj. kr. og þar að auki gerir nefndin tillögur um hækkun stofnkostnaðar um 342 millj. 341 þús. kr. frá frumvarpi. Þessar hækkunartillögur eiga allflestar uppruna sinn hjá fjárveitinganefnd og eru fyrst og fremst vegna stofnkostnaðar í hafnamálum, sjúkrahúsa- og heilbrigðismálum og varðandi framhaldsskóla og eru þær tillögur skýrðar nákvæmlega, eins og raunar allar aðrar tillögur fjárveitinganefndar, í athugasemdum þeim er fylgja nefndaráliti þessu.
    Þá hefur fjárveitinganefnd fengið í hendur sundurliðaðar tillögur menntamálaráðuneytisins um sparnað í samræmi við fyrirætlanir frumvarpsins. Í frumvarpinu var áformað sérstakt sparnaðarátak af hálfu menntamálaráðuneytisins að fjárhæð 200 m.kr. og var sú fjárhæð tilgreind á einum fjárlagalið án sundurliðunar á viðfangsefni. Fjárveitinganefnd fékk sundurliðaðar tillögur ráðuneytisins um niðurfærslu gjalda og námu þær tillögur samanlagt um 169 m.kr. eða nokkru lægri fjárhæð en áform voru um í frumvarpinu. Nefndin lagði sitt mat á tillögurnar og samþykkti allflestar þeirra, þ.e. allar aðrar en þær sem lutu að viðfangsefnum sem nefndin var búin að fjalla um og taka afstöðu til áður en tillögur ráðuneytisins bárust. Tillögurnar, sem nefndin afgreiddi af lista menntamálaráðuneytisins, námu u.þ.b. 120 m.kr. samanlagt og dreifast á hin ýmsu viðfangsefni skóla- og menntamála. Að hve miklu marki þessar niðurskurðartillögur ná tilætluðum árangri fer að sjálfsögðu eftir því hvaða ákvarðanir um breytingar á rekstrarumfangi og meðferð einstakra viðfangsefna búa að baki tillagnanna og mun þar reyna á framkvæmd menntamálaráðuneytisins. Eitt atriði í tillögum menntamálaráðuneytisins varðaði lækkun á rekstrarkostnaði Þjóðleikhússins. Það erindi hefur ekki hlotið afgreiðslu í fjárveitinganefnd heldur bíður umfjöllunar um Þjóðleikhúsið sem fara mun fram á milli annarrar og þriðju umræðu fjárlaga eins og vanalegt er.
    Frá og með næstkomandi áramótum taka gildi ný lög er breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ýmis viðfangsefni, sem áður voru sameiginleg ríki og sveitarfélögum, flytjast um þau áramót algerlega yfir til sveitarfélaganna. Má þar nefna framkvæmdir á sviði grunnskólabygginga þar með talin íþróttahús, framkvæmdir á sviði dagvistunar og framkvæmdir á sviði íþróttamála á vegum sveitarfélaga. Einnig fellur niður sérstakur fjárstuðningur ríkisins við vatnsveitur á vegum sveitarfélaga og við félagsheimili. Í staðinn tekur ríkið við nokkrum rekstrarviðfangsefnum af sveitarfélögum og má þar nefna rekstur heilsugæslustöðva og rekstur fræðsluskrifstofa. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1990 er að sjálfsögðu reist á þessum forsendum um breytta verkhætti.
    Þær breytingar hafa orðið á frumvarpinu frá fyrstu gerð þess hvað þessi viðfangsefni varðar að áætluð útgjöld ríkissjóðs vegna rekstrar fræðsluskrifstofa og heilsugæslustöðva eru í frumvarpinu óskipt á sérstökum safnliðum, en fjárveitinganefnd hefur nú fengið upplýsingar um sundurliðaðan kostnað vegna þessara verkefna og gerir því tillögu um að kostnaður þessi verði sundurliðaður hvað fræðsluskrifstofurnar varðar á hverja einstaka fræðsluskrifstofu og reksturinn sundurliðaður í launagreiðslur og önnur rekstrargjöld og eins hvað varðar heilsugæslustöðvarnar og rekstur þeirra. Eru þessar sundurliðanir í tillögum fjárveitinganefndar.
    Verkaskiptalögin gera auk þess ráð fyrir að skuldir ríkisins vegna sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga við grunnskóla, dagvistunarstofnanir og vegna félagsheimila og íþróttamála verði gerðar upp og vangreiddur hluti ríkissjóðs greiddur á fjórum árum. Í fjárlagafrumvarpinu, eins og frá því var gengið, var ekki gerð tillaga um sérstaka fjárveitingu vegna þessa uppgjörs og er ástæðan m.a. sú, eins og fram kom í greinargerð fjárlagafrumvarpsins, að í ljós kom að kostnaður ríkissjóðs vegna yfirtöku þeirra verkefna frá sveitarfélögum, sem gert var ráð fyrir að ríkissjóður yfirtæki, var vanáætlaður og reyndist við nánari athugun vera nokkrum hundruðum milljóna króna hærri fjárhæð en ráð hafði verið fyrir gert. Koma þar einkum til útgjöld vegna rekstrar heilsugæslustöðva sem reyndust vanáætluð og þá ekki síst vegna rekstrar heilsugæslustöðva í Reykjavík.
    Fjárveitinganefnd Alþingis hefur farið mjög vandlega yfir áætlanir menntamálaráðuneytisins um stöðu framkvæmda sem áður voru sameiginlegar með sveitarfélögum miðað við næstkomandi áramót. Sjálfsagt eru einhver atriði þar sem sveitarfélögin mun greina á við ríkisvaldið um fjárhæðir þó að nokkuð ljóst sé um heildarfjárhæðir vangreiddra framlaga ríkisins vegna þessara framkvæmda, en þær munu nema á bilinu 1200–1400 millj. kr. Nefndin hefur hins vegar enn ekki gert tillögu um hvernig að þessum uppgjörsmálum skuli staðið við afgreiðslu fjárlaga, en mun gera tillögu um það fyrir 3. umr. Hefur það nokkuð tafið störf nefndarinnar við þessa vinnu að reglugerðir lágu lengi vel ekki fyrir og liggja raunar ekki fyrir enn að því er varðar reglugerð um uppgjörið við sveitarfélögin vegna framkvæmda á sviði skólamála, dagvistunar og íþróttamála. Þá hefur fjárveitinganefnd ekki heldur getað við þessa umræðu gert tillögur um hvernig staðið skuli að skiptingu fjárframlags á fjárlögum til íþróttamála samkvæmt hinum breyttu verkaskiptingalögum. Falla nú niður greiðslur úr ríkissjóði til íþróttaframkvæmda á vegum sveitarfélaga, en halda hins vegar áfram hvað varðar greiðslur úr ríkissjóði til íþróttaframkvæmda á vegum frjálsra félagasamtaka. Það var fyrst nú fyrir örfáum dögum sem nefndin fékk í hendur reglugerð hvað þennan nýja íþróttasjóð varðar og hún hefur ekki haft ráðrúm til þess fyrir þessa umræðu að ganga frá tillögum sínum þar um.
    Auk þessara mála, sem bíða munu afgreiðslu 3. umr., eru svo nokkur önnur mál sem einnig bíða endanlegra tillagna fjárveitinganefndar. Þar má nefna Háskóla á Akureyri, meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur og launagreiðslur vegna flugmálastjórnar en öll þessi mál eru í sérstakri athugun. Þá bíður 3. umr. afgreiðsla á samkomulagi menntamálaráðherra og Háskóla Íslands er varðar ráðstöfun happdrættisfjár. Þetta eru mál sem æskilegt væri að afgreiða við 2. umr., en ekki vannst til þess tími og er ekki óvanalegt að nokkur slík mál bíði 3. umr. Að auki bíða svo að sjálfsögðu 3. umr. þau mál sem þá eru venjulega afgreidd, en það eru allar B-hluta stofnanirnar, svo og heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga og auk þess endurskoðuð tekjuspá. Meðal stórra viðfangsefna, sem þá verða gerðar tillögur um, má nefna Þjóðleikhúsið bæði endurbyggingu og rekstur, Lánasjóð íslenskra námsmanna, lífeyris- og sjúkratryggingar, niðurgreiðslur á vöruverði og útflutningsuppbætur, jarðræktar- og búfjárræktarlög, svo og málefni Rafmagnsveitna ríkisins, Pósts og síma og Ríkisútvarpsins svo nokkur mál séu nefnd. Þá tengist endurskoðaðri tekjuspá ákvörðun um framlag til vegagerðar og svo tengjast að sjálfsögðu lokaafgreiðslu fjárlaga þau áform ríkisstjórnarinnar um tekjuöflun sem breyst hafa frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram og gerð hefur verið grein fyrir hér á Alþingi.
    Það er því ljóst að enn eru eftir mörg og stór viðfangsefni fjárlagagerðar sem jafnan bíða 3. umr. og auk þeirra þrjú eða fjögur úrlausnarefni sem æskilegt hefði verið að hægt væri að afgreiða við 2. umr., en verða að bíða og er það ekkert óvanalegt. Hins vegar er gerð tillaga um að afgreiða nú við 2. umr. flest hin stærstu viðfangsefni fjárlagagerðarinnar, en þar átt við rekstrar- og launaliði því sem næst allra stofnana og viðfangsefna í A-hluta, svo og öll stærstu stofnkostnaðarframlögin.
    Tillögur þær, sem koma frá fjárveitinganefnd nú við 2. umr., eru fluttar af nefndinni allri. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárveitinganefnd hafa hins vegar að sjálfsögðu eðlilega fyrirvara um afstöðu til einstakra breytingartillagna sem fram kunna að koma og munu fulltrúar minni hl. í nefndinni lýsa afstöðu sinni í sérstöku nefndaráliti minni hl. fjárveitinganefndar og í umræðum í þinginu. Breytingartillögurnar, sem nefndin flytur nú við 2. umr., varða 4. gr. og nema eins og áður er sagt alls um 1 milljón 182 þús. kr. Breytingartillögurnar má síðan greina á eftirfarandi hátt til að veita nánari upplýsingar um eðli þeirra og umfang.



Töflur.


(Texti er ekki til tölvutækur.)




    Hér á eftir koma svo skýringar við tillögur fjárveitinganefndar um breytingar á gjaldahlið frumvarpsins. En 3. umr. bíða B-hluta stofnanirnar, heimildir skv. 6. gr. og tekjuhlið frumvarpsins auk afgreiðslna á þeim viðfangsefnum er varða 4. gr. sem áður hefur verið vikið að.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


201     Alþingi: Viðfangsefnið 1.01 Þingfararkaup alþingismanna hækkar um 6.900 þús. kr. og verður 149.704 þús. kr. vegna ákvörðunar Kjaradóms. Viðfangsefnið 1.02 Starfskostnaður hækkar um 4.000 þús. kr. og verður 57.180 þús. kr. Viðfangsefnið 1.04 Skrifstofu- og alþingiskostnaður hækkar um 14.300 þús. kr. og verður 198.484 þús. kr. Viðfangsefnið 1.20 Rekstrarkostnaður fasteigna hækkar um 2.500 þús. kr. og verður 21.050 þús. kr. Viðfangsefnið 1.31 Þingmannanefndir Evrópuráðsins hækkar um 600 þús. kr. og verður 4.790 þús. kr. Viðfangsefnið 1.33 Þingmannafundir Fríverslunarsamtaka Evrópu hækkar um 300 þús. kr. og verður 2.170 þús. kr. Viðfangsefnið 1.36 Þátttaka þingmanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna lækkar um 1.000 þús. kr. og verður 2.540 þús. kr. Viðfangsefnið 5.20 Fasteignir hækkar um 900 þús. kr. og verður 10.000 þús. kr.
620     Ríkisendurskoðun: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 10.000 þús. kr. og verður 113.710 þús. kr. Um er að ræða leiðréttingu á launalið stofnunarinnar 4.000 þús. kr. og hækkun annarra gjalda vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og endurskoðunarvinnu um 6.000 þús. kr. Viðfangsefnið 6.01 Tölvu- og húsbúnaður hækkar um 1.500 og verður 3.000 þús. kr.

02 Menntamálaráðuneyti


101     Menntamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn lækkar um 1.300 þús. kr. og verður 172.592 þús. kr. Um er að ræða sparnað hjá aðalskrifstofu, 2.000 þús. kr. vegna risnu- og ferðakostnaðar og hækkun launa vegna hálfrar stöðu námsstjóra í tónlistarfræðslu 700 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 6.10 Tæki og búnaður 1.500 þús. kr. vegna flutnings menntamálaráðuneytisins í nýtt húsnæði.
201     Háskóli Íslands: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 81.435 þús. kr. Hækkunin er vegna framlags til upplýsingastofu um nám erlendis 2.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.02 Sameiginleg útgjöld hækka um 3.174 þús. kr. og verður 223.801 þús. kr. Um er að ræða leiðréttingu á ferðakostnaði í rannsóknarleyfum 2.474 þús. kr. og hækkun vegna leigu á aðstöðu í Norræna húsinu 700 þús. kr. Viðfangsefnið 1.03 Rekstur fasteigna hækkar um 12.320 þús. kr. og verður 155.619 þús. kr. Um er að ræða leiðréttingu á kostnaði vegna ræstunar húsa. Viðfangsefnið 1.11 Læknadeild hækkar um 8.070 þús. kr. og verður 137.896 þús. kr. Um er að ræða tilfærslu á sértekjum læknadeildar til Ríkisspítala 2.470 þús. kr. og leiðrétting gjalda 5.600 þús. kr. Viðfangsefnið 1.13 Lyfjafræði lyfsala hækkar um 997 þús. kr. og verður 20.927 þús. kr. vegna aukningar á stundakennslu. Viðfangsefnið 1.15 Viðskipta- og hagfræðideild hækkar um 605 þús. kr. og verður 55.784 þús. kr. vegna dósentsstöðu í hagnýtri rekstrarhagfræði, 1.299 þús. kr., á móti kemur frádráttur stundakennslu 694 þús. kr. Viðfangsefnið 1.16 Heimspekideild hækkar um 1.400 þús. kr. og verður 108.412 þús. kr. vegna aukningar á stundakennslu. Viðfangsefnið 1.17 Verkfræðideild hækkar um 500 þús. kr. og verður 126.421 þús. kr. vegna aukningar á öðrum rekstrargjöldum. Viðfangsefnið 1.18 Félagsvísindadeild hækkar um 1.200 þús. kr. og verður 73.009 þús. kr. vegna aukningar á stundakennslu. Viðfangsefnið 1.19 Íþróttakennsla hækkar um 1.845 þús. kr. og verður 9.497 þús. kr. Um er að ræða leigu íþróttaaðstöðu í Æfinga- og tilraunaskóla Íslands 800 þús. kr. og ráðning íþróttakennara 1.045 þús. kr. Viðfangsefnið 1.25 Raunvísindadeild hækkar um 4.551 þús. kr. og verður 205.348 þús. kr. Um er að ræða stöðu dósents í eðlisfræði en á móti kemur frádráttur vegna stundakennslu, aukning á stundakennslu og öðrum gjöldum og leiga aðstöðu fyrir kennslu í matvælafræði. Tekið er inn nýtt viðfangsefnið 6.26 Hús Sigurðar Nordals 1.000 þús. kr. vegna endurbóta á húseigninni Þingholtsstræti 29.
202     Tilraunastöð Háskólans að Keldum: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 500 þús. kr. og verður 74.621 þús. kr. Um er að ræða hækkun vegna fæðingarorlofs og dagpeninga í rannsóknarleyfum. Sértekjur lækka um 4.500 þús. kr. og verða 50.160 þús. kr. vegna samdráttar í sölu bóluefnis.
203     Raunvísindastofnun Háskólans: Viðfangsefnið 1.20 Eðlisfræðistofa hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 22.218 þús. kr. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.21 Stjarnvísindi 650 þús. kr. Framlagið er vegna hálfrar stöðu dósents í stjarnvísindum. Viðfangsefnið 1.70 Reiknifræðistofa hækkar um 650 þús. kr. og verður 9.470 þús. kr. vegna hálfrar stöðu dósents í hagnýtri stærðfræði.
205     Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 570 þús. og verður 30.758 þús. kr. Um er að ræða áframhaldandi fjárveitingu til stöðu lausráðins þjóðfræðings. Viðfangsefnið 1.20 Bókaútgáfa lækkar um 2.000 þús. kr. og verður 5.441 þús. kr. vegna sparnaðarátaks hjá menntamálaráðuneyti.
221     Kennaraháskóli Íslands: Viðfangsefnið 1.02 Rannsóknastarfsemi hækkar um 1.007 þús. kr. og verður 9.584 þús. kr. vegna rannsóknarorlofs. Viðfangsefnið 1.05 Kennsla hækkar um 1.640 þús. kr. og verður 100.310 þús. kr. vegna ráðningar í tímabundnar lektorsstöður.
233     Rannsóknasjóður: Viðfangsefnið 1.01 Rannsóknasjóður fellur út og fjármagnist af framlagi.
303     Menntaskólinn á Laugarvatni: Viðfangsefnið 1.01 Kennsla lækkar um 1.200 þús. kr. og verður 20.482 þús. kr. vegna sparnaðar hjá framhaldsskólum, almennt.
308     Menntaskólinn í Kópavogi, fjölbraut: Viðfangsefnið 1.01 Kennsla lækkar um 800 þús. kr. og verður 44.299 þús. kr. vegna sparnaðar hjá framhaldsskólum, almennt.
318     Almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður: Liðurinn 5.90 Viðhaldsfé lækkar um 6.000 þús. kr. og verður 35.600 þús. kr. Liðurinn 6.17 Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, lóðaframkvæmdir lækkar um 400 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr. Liðurinn 6.20 Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, viðbygging hækkar um 4.000 þús. kr. og verður 14.000 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 6.30 Framhaldsskólinn að Laugum 3.000 þús. kr. vegna endurbóta á eldhúsi skólans. Tekinn er inn nýr liður 6.31 Framhaldsskólinn á Húsavík 2.000 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 6.32 Menntaskólinn á Akureyri, stofnkostnaður 3.000 þús. kr. vegna endurbóta á húsnæði menntaskólans. Tekinn er inn nýr liður 6.33 Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, hönnun kennsluhúss 400 þús. kr. Um er að ræða hönnun kennsluhúss fyrir verklegt nám. Tekinn er inn nýr liður 6.34 Menntaskólinn á Ísafirði 2.000 þús. kr. til að ljúka framkvæmdum við bóknámshús. Tekinn er inn nýr liður 6.35 Menntaskólinn á Ísafirði, íþróttahús 14.000 þús. kr. til að hefja hönnun og framkvæmdir vegna byggingar íþróttahúss. Liðurinn 6.40 Tæki og búnaður lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 15.000 þús. kr.
319     Framhaldsskólar, almennt: Sértekjur falla út. Á móti kemur til sparnaður hjá framhaldsskólum og grunnskólum, almennt.
352     Flensborgarskóli, fjölbraut: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 900 þús. kr. og verður 19.815 þús. kr. Um er að ræða 0,75 stöðugildi vegna yfirtöku starfsmannahalds 600 þús. kr. og kostnað vegna yfirtöku bókhalds, 300 þús. kr., sem sveitarfélögin hafa annast til þessa.
353     Fjölbrautaskóli Suðurnesja: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 200 þús. kr. og verður 25.302 þús. kr. Um er að ræða 0,25 stöðugildi vegna yfirtöku starfsmannahalds.
354     Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 600 þús. kr. og verður 27.219 þús. kr. Um er að ræða 0,75 stöðugildi vegna yfirtöku starfsmannahalds.
356     Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 550 þús. kr. og verður 22.695 þús. kr. Um er að ræða 0,70 stöðugildi vegna yfirtöku starfsmannahalds.
357     Fjölbrautaskóli Suðurlands: Viðfangsefnið 1.04 Fiskeldi, annað en kennsla hækkar um 700 þús. kr. og verður 3.730 þús. kr. Um er að ræða 1,0 stöðugildi starfsmanns í eldisstöð.
358     Verkmenntaskóli Austurlands: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 1.200 þús. kr. og verður 10.404 þús. kr. Um er að ræða 1,2 stöðugildi vegna yfirtöku rekstrar og starfsmannahalds.
359     Verkmenntaskólinn á Akureyri: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 2.300 þús. kr. og verður 34.179 þús. kr. Um er að ræða 1,75 stöðugildi vegna yfirtöku starfsmannahalds, kostnað vegna yfirtöku bókhalds frá sveitarfélögum og kostnað vegna þjónustu Háskólans á Akureyri við Verkmenntaskóla Akureyrar við húsvörslu og annað.
360     Fjölbrautaskólinn í Garðabæ: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 400 þús. kr. og verður 22.065 þús. kr. Um er að ræða 0,5 stöðugildi vegna yfirtöku starfsmannahalds.
362     Framhaldsskólinn á Húsavík: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 400 þús. kr. og verður 6.952 þús. kr. Um er að ræða 0,5 stöðugildi vegna yfirtöku starfsmannahalds.
423     Námsstjórn og þróunarverkefni: Liðurinn 1.01 lækkar um 3.000 þús. kr. og verður 28.091 þús. kr. Um er að ræða sparnað í launum vegna hagræðingar og annarra gjalda.
431     Iðnfræðsluráð: Liðurinn 1.01 lækkar um 6.790 þús. kr. og verður 10.000 þús. kr. vegna sparnaðar framhalds- og grunnskóla almennt.
501     Tækniskóli Íslands: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 4.160 þús. kr. og verður 145.480 þús. kr. vegna launagjalda.
506     Vélskóli Íslands: Viðfangsefnið 1.01 Kennsla lækkar um 2.000 þús. kr. og verður 32.906 þús. kr. Um er að ræða sparnað í launum vegna fækkunar nemenda.
507     Stýrimannaskólinn í Reykjavík: Viðfangsefnið 1.01 Kennsla lækkar um 500 þús. kr. og verður 21.410 þús. kr. vegna sparnaðar í framhaldsskólum, almennt.
514     Iðnskólinn í Reykjavík: Viðfangsefnið 1.01 Kennsla hækkar um 3.500 þús. kr. og verður 58.677 þús. kr. Um er að ræða nýjar stöður alls 1,25 stöðugildi og hækkun á rekstrargjöldum vegna keyptrar þjónustu nemenda í mötuneyti. Tekið er inn nýtt viðfangsefnið 6.01 Tæki og búnaður 15.000 þús. kr.
515     Iðnnám, almennt: Tekið er inn nýtt viðfangsefni 6.01 Stofnkostnaður Ísafirði 1.000 þús. kr.
531     Íþróttakennaraskóli Íslands: Tekið er inn nýtt viðfangsefni 6.10 Sundlaug 10.000 þús. kr. vegna hönnunar og byrjunarframkvæmda.
604     Héraðsskólinn á Reykjum: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla lækkar um 1.000 þús. kr. og verður 14.195 þús. kr. vegna launa.
610     Héraðsskólar, almennt: Viðfangsefnið 6.90 Stofnkostnaður hækkar um 9.000 þús. kr. og verður 36.000 þús. kr.
621     Skálholtsskóli: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 2.000 þús. kr. og verður 2.652 þús. kr. Um er að ræða lækkun launa vegna sparnaðar. Viðfangsefnið 1.02 lækkar um 1.500 þús. kr. og verður 2.141 þús. kr. Um er að ræða lækkun annarra gjalda vegna sparnaðar.
700     Grunnskólar, Reykjavík: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 11.275 og verður 1.116.228 vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
701     Grunnskólar, Reykjanesi: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 8.888 þús. kr og verður 879.889 þús. kr. vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
703     Grunnskólar, Vesturlandi: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 2.823 þús. kr og verður 279.484 þús. kr. vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
704     Grunnskólar, Vestfjörðum: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 1.935 þús. kr. og verður 191.576 vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
705     Grunnskólar, Norðurlandi vestra: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 2.126 og verður 210.478 vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
706     Grunnskólar, Norðurlandi eystra: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 4.432 og verður 438.730 vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
707     Grunnskólar, Austurland: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 2.471 og verður 244.633 vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
708     Grunnskólar, Suðurlandi: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 3.660 og verður 362.327 vegna sparnaðar hjá grunnskólum, almennt.
720     Grunnskólar, almennt: Viðfangsefnið 1.21 Unglingaheimili, skóli fellur út. Viðfangsefnið 1.60 Stjórnskipaðir prófdómarar lækkar um 3.000 þús kr. og verður 8.218 þús. kr. Viðfangsefnið 1.90 Grunnskólar, óskipt lækkar um 5.000 þús. kr. og verður 12.185 þús. kr. Sértekjur lækka um 99.000 þús. kr. og verða 31.000 þús. kr.
798     Einholtsskóli: Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.01 Skóli Unglingaheimilis ríkisins 11.312 þús. kr. um er að ræða skóla Unglingaheimilis ríkisins.
799     Heyrnleysingjaskólinn: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 1.000 þús. kr. og verður 35.328 þús. kr. vegna hagræðingar í kennslu.
871     Unglingaheimili ríkisins: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 7.953 þús. kr. og verður 68.820 þús. kr. vegna leiðréttingar á rekstrargrunni. Sértekjur hækka á móti um 1.290 þús. kr. og verða 32.500 þús. kr.
881     Náms- og fræðimenn, framlög: Viðfangsefnið 1.14 Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna hækkar um 320 þús. kr. og verður 1.150 þús. kr. Um er að ræða aukningu framlags og leiðréttingu í samræmi við gengishækkanir.
885     Fullorðinsfræðsla: Viðfangsefnið 1.60 Heimilisiðnaðarskólinn hækkar um 410 þús. kr. og verður 1.000 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi skólastjóra.
902     Þjóðminjasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 6.000 þús. kr. og verður 45.302 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig að launagjöld hækka um 3.423 þús. kr. sem er aðallega vegna gæslu í safni og ræstingar. Enn fremur 0,5 staða fulltrúa, þ.e. viðauki í heila stöðu, núverandi starf og staða ljósmyndara. Önnur rekstrargjöld hækki um 3.057 þús. kr. og sértekjur hækki um 480 þús. kr.
903     Þjóðskjalasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 5.500 þús. kr. og verður 37.764 þús. kr. Um er að ræða hækkun launa og eitt stöðugildi starfsmanns. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 6.02 Tækjakaup 2.500 þús. kr.
907     Listasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 1.700 þús. kr. og verður 31.743 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig að heimilt er að ráða í 0,75 stöðugildi forvarðar 670 þús. kr., vegna álagsgjalda 330 þús. kr. og vegna reglubundins viðhalds með lyftum 700 þús. kr.
908     Kvikmyndasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.01 lækkar um 1.000 og verður 5.951 þús. kr. vegna lækkunar annarra gjalda.
909     Blindrabókasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 800 þús. kr. og verður 21.232 þús. kr. vegna samnings við fjármálaráðuneytið. Viðfangsefnið 6.01 Tækjakaup hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 1.400 þús. kr. Um er að ræða framlag til kaupa á blindraletursprentara.
982     Listir, framlög: Viðfangsefnið 1.20 Leikfélag Reykjavíkur hækkar um 3.000 þús. kr. og verður 15.000 þús. kr. vegna hækkunar rekstrargjalda. Viðfangsefnið 1.23 Bandalag íslenskra leikfélaga hækkar um 270 þús. kr. og verður 3.040 þús. kr. Viðfangsefnið 1.26 Alþýðuleikhúsið hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 8.000 þús. kr. vegna fyrirhugaðra verkefna leikhússins. Viðfangsefnið 1.33 Íslensk tónverkamiðstöð hækkar um 500 þús. og verður 3.000 þús. kr. Hækkunin er til tónlistarsafns og útgáfu og kynningar á tónlist. Viðfangsefnið 1.34 Sinfóníuhljómsveit æskunnar hækkar um 300 þús. kr. og verður 2.300 þús. kr. Viðfangsefnið 1.43 Myndlistarskólinn á Akureyri hækkar um 600 þús. kr. og verður 4.400 þús. kr. Viðfangsefnið 1.45 Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hækkar um 600 þús. kr. og verður 4.600 þús. kr. Viðfangsefnið 1.46 Listasafn ASÍ hækkar um 300 þús. kr. og verður 2.300 þús. kr. Viðfangsefnið 1.73 Bandalag íslenskra listamanna hækkar um 100 þús. kr. og verður 500 þús. kr. vegna reksturs skrifstofu félagsins. Viðfangsefnið 1.82 Ferðaleikhúsið hækkar um 100 þús. kr. og verður 900 þús. kr. vegna hækkunar leigugjalda.
983     Vísindaleg starfsemi, styrkir: Viðfangsefnið 1.10 Vísindaleg starfsemi, styrkir hækka um 200 þús. kr. og verður 1.510 þús. kr. Viðfangsefnið 1.14 Rannsóknarleyfi sérfræðinga á vísindastofnunum hækkar um 1.180 þús. kr. og verður 9.500 þús. kr. vegna verðlagsbreytinga.
984     Norræn samvinna: Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.23 Kynningar- og útbreiðsluverkefni varðandi umhverfismál 1.500 þús. kr. vegna samnorræns verkefnis á þessu sviði árið 1990.
985     Menningarsjóður félagsheimila: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 6.750 þús. kr. vegna félagsheimilis tónlistarmanna.
988     Æskulýðsmál: Viðfangsefnið 1.10 Æskulýðsráð ríkisins hækkar um 220 þús. kr. og verður 1.500 þús. kr. Viðfangsefnið 1.11 Æskulýðssamband Íslands hækkar um 200 þús. kr. og verður 700 þús. kr. Viðfangsefnið 1.12 Ungmennafélag Íslands hækkar um 1.410 þús. kr. og verður 9.500 þús. kr. Viðfangsefnið 1.13 Bandalag íslenskra skáta hækkar um 780 þús. kr. og verður 5.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.14 Bandalag íslenskra skáta, vegna Úlfljótsvatns hækkar um 500 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.16 Íslenskir ungtemplarar hækkar um 250 þús. kr. og verður 1.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.17 Starfsemi KFUM og KFUK hækkar um 500 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr.
989     Ýmis íþróttamál: Viðfangsefnið 1.10 Íþróttasamband Íslands hækkar um 3.500 þús. kr. og verður 24.920 þús. kr. Viðfangsefnið 1.11 Ólympíunefnd Íslands hækkar um 1.500 þús. kr. og verður 4.500 þús. kr. Viðfangsefnið 1.13 Íþróttamála fatlaðra hækkar um 1.380 þús. kr. og verður 4.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.16 Íþróttafélög, styrkir hækkar um 7.000 þús. kr. og verður 14.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.20 Glíman, íslenska þjóðaríþróttin, kynning í skólum hækkar um 500 þús. kr. og verður 2.500 þús. kr. Viðfangsefnið 1.21 Skáksamband Ísland hækkar um 320 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.40 Ýmis framlög til íþróttamála hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 5.500 þús. kr.
991     Húsafriðun: Viðfangsefnið 6.10 Húsafriðunarsjóður hækkar um 500 þús. kr. og verður 3.700 þús. kr. Viðfangsefnið 6.40 Byggða- og minjasöfn hækkar um 3.066 þús. kr. og verður 10.066 þús. kr.
999     Ýmislegt: Viðfangsefnið 1.50 Landssamband hjálparsveita skáta hækkar um 520 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.71 Hlíðardalsskóli, rekstrarstyrkur hækkar um 700 þús. kr. og verður 4.700 þús. kr. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.73 Suðurhlíðaskóli, rekstrarstyrkur 3.960 þús. kr. um er að ræða styrk sem svarar til 3,3 stöðugilda við skólann. Viðfangsefnið 1.90 Söfn, styrkir hækkar um 250 þús. kr. og verður 1.980 þús. kr. Viðfangsefnið 1.91 Tónlistarsaga Íslands hækkar um 470 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr. Hækkunin er til þess að ljúka verki um tónlistarsögu Íslands. Viðfangsefnið 1.93 Kvenfélagasamband Íslands hækkar um 90 þús. kr. og verður 1.200 þús. kr.

03 Utanríkisráðuneyti


101     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.70 Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi 300 þús. kr.
390     Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi: Viðfangsefnið 1.01 Þróunarsamvinnustofnun Íslands hækkar um 11.000 þús. kr. og verður 75.000 þús. kr. Um er að ræða hækkun framlags vegna fyrirliggjandi verkefna stofnunarinnar. Viðfangsefnið 1.10 Háskóli Sameinuðu þjóðanna hækkar um 2.630 þús. kr. og verður 17.300 þús. kr. vegna framlags til jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
399     Ýmis utanríkismál: Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.50 Framlag til Rauða krossins vegna móttöku flóttamanna 15.368 þús. kr.

04 Landbúnaðarráðuneyti


201     Búnaðarfélag Íslands: Sértekjur lækka um 2.000 þús. kr. og verða 9.950 þús. kr.
205     Veiðistjóri: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 11.321 þús. kr. og verður 27.550 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig að 8.750 þús. kr. eru vegna eyðingar refa og minka, 757 þús. kr. eru vegna eyðingar máva og hrafna í Landeyjum og 1.814 þús. kr. fara til rannsókna.
206     Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Viðfangsefnið 1.01 Aðalstöðvar hækkar um 4.000 þús. kr. og verður 93.865 þús. kr. Hækkunin er vegna ráðningar bókasafnsfræðings 500 þús. kr. og verkefna á Austurlandi og Vestfjörðum. Viðfangsefnið 5.83 Tilraunabúið Hesti, viðhald hækkar um 900 þús. kr. og verður 1.600 þús. kr. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 6.82 Stóra-Ármót 3.000 þús. kr. vegna stofnkostnaðar. Liðurinn 6.92 Tilraunastöðin á Möðruvöllum, fjósbygging hækkar um 1.500 þús. kr. og verður 2.400 þús. kr.
231     Skógrækt ríkisins: Sértekjur lækka um um 3.000 þús. kr. og verða 59.560 þús. kr. Viðfangsefnið 1.81 Nytjaskógar hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 13.240 þús. kr. Liðurinn 1.84 Skógræktarátak á Fljótsdalshéraði fellur niður. Viðfangsefnið 6.30 Vélar og tæki lækkar um 600 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr.
232     Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 916 þús. kr. og verður 17.419 þús. kr. vegna leiðréttingar á framlögum vegna launa og verðlagsbreytinga. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.30 Sérstakt rannsóknarverkefni 4.467 þús. kr. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 6.01 Tækjakaup 600 þús. kr.
235     Landgræðsla ríkisins: Sértekjur lækka um 5.000 þús. kr. og verða 10.480 þús. kr. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.50 Landgræðsla í Mývatnssveit 1.000 þús. kr. Tekið er inn nýtt stofnkostnaðarviðfangsefni 6.10 Skrifstofuhúsnæði 3.000 þús. kr. vegna stækkunar skrifstofuhúsnæðis Gunnarsholti.
246     Veiðimálastofnun: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 53.537 þús. kr. vegna verkefnaráðningar eldissérfræðings frá miðju ári 1990.
288     Jarðræktar- og búfjárræktarlög, framlög: Tekinn er inn nýr liður 1.20 Framlög til búnaðarsambanda 6.000 þús. kr.
299     Landbúnaðarmál, ýmis starfsemi: Tekinn er inn nýr liður 1.19 Skógræktarátak á Fljótsdalshéraði 15.000 þús. kr. Um er að ræða tilflutning viðfangsefnis af lið 1.84 hjá Skógrækt ríkisins.
501     Bændaskólinn á Hvanneyri: Sértekjur lækka um 3.000 þús. kr. og verða 33.510 þús. kr. Um er að ræða lækkun sértekna vegna rekstrar skóla. Viðfangsefnið 5.01 Fasteignir hækkar um 1.200 þús. kr. og verður 3.700 þús. kr. Hækkunin er vegna viðgerða á þaki bændaskólans og klæðningar hússins. Viðfangsefnið 6.01 Fasteignir og lóðir hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 6.900 þús. kr. vegna kaupa á spennistöð.
502     Bændaskólinn á Hólum: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 1.400 þús. kr. og verður 59.067 þús. kr. vegna stöðugildis reiðkennara. Viðfangsefnið 6.01 Fasteignir og lóðir hækkar um 400 þús. kr. og verður 3.400 þús. kr. vegna byggingar fjárhúss. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 6.02 Stofnbúnaður 1.500 þús. kr. vegna stofnbúnaðarkaupa við fiskeldiskennslu.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


203     Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins: Tekinn er inn nýr liður 1.25 Samstarfsverkefni sjávarútvegs og iðnaðar 6.000 þús. kr.
299     Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 1.21 Sjóvinnukennsla, sjóvinnu- og rannsóknabátur hækkar um 4.000 þús. kr. og verður 10.150 þús. kr. vegna rekstrarkostnaðar.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


206     Lögreglustjórinn í Reykjavík: Viðfangsefnið 1.20 Almenn löggæsla hækkar um 40.000 þús. kr. og verður 622.263 þús. kr. Um er að ræða 20 stöðugildi til almennrar löggæslu, 20.000 þús. kr., og endurmat á afleysingarframlagi, 20.000 kr.
211     Sýslumenn- og bæjarfógetar: Liðurinn 1.20 Rekstrarkostnaður vegna yfirtöku sjúkrasamlaga fellur út.
212     Bæjarfógeti Akranesi: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 3.400 þús. kr. og verður 22.534 þús. kr. Um er að ræða 1,5 stöðugildi vegna yfirtöku á rekstrarkostnaði vegna sjúkrasamlaga og annarra gjalda. Viðfangsefnið 1.20 hækkar um 450 þús. kr. og verður 29.627 þús. kr. vegna afleysinga.
213     Sýslumaður Borgarnesi: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 19.972 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku á rekstrarkostnaði vegna sjúkrasamlaga og annarra gjalda. Viðfangsefnið 1.20 hækkar um 1.300 þús. kr. og verður 22.461 þús. kr. vegna afleysinga og yfirvinnu.
214     Sýslumaður og bæjarfógeti Stykkishólmi: Viðfangsefnið 1.20 hækkar um 800 þús. kr. og verður 12.719 þús. kr. vegna afleysinga.
215     Sýslumaður Búðardal: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 530 þús. kr. og verður 8.120 þús. kr. Um er að hækkun vegna innheimtuþóknunar.
216     Sýslumaður Patreksfirði: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 700 þús. kr. og verður 14.745 þús. kr. Um er að hækkun vegna innheimtuþóknunar.
217     Bæjarfógeti Bolungarvík: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.100 þús. kr. og verður 8.282 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku á rekstrarkostnaði vegna sjúkrasamlaga og hækkun vegna innheimtuþóknunar.
218     Sýslumaður og bæjarfógeti Ísafirði: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.500 þús. kr. og verður 30.952 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku á rekstrarkostnaði vegna sjúkrasamlaga og annarra gjalda, svo og hækkun innheimtuþóknunar.
219     Sýslumaður Hólmavík: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 650 þús. kr. og verður 8.204 þús. kr. Um er að ræða hækkun launa vegna sjúkratrygginga og innheimtuþóknunar.
221     Sýslumaður Blönduósi: Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla hækkar um 500 þús. kr. og verður 19.624 þús. kr. Um er að ræða hækkun launa vegna sumarafleysinga. Á móti verður dregið úr yfirvinnu.
222     Sýslumaður og bæjarfógeti Sauðárkróki: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 500 þús. kr. og verður 18.877 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar vegna sjúkrasamlaga.
223     Bæjarfógeti Siglufirði: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.350 þús. kr. og verður 12.659 þús. kr. Um er að ræða hækkun launa vegna sjúkratrygginga, innheimtuþóknunar og rekstrargjalda.
224     Bæjarfógeti Ólafsfirði: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.300 þús. kr. og verður 8.390 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar vegna sjúkrasamlaga og rekstrargjalda, svo og hækkun vegna innheimtuþóknunar.
225     Sýslumaður og bæjarfógeti Akureyri: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 8.500 þús. kr. og verður 64.116 þús. kr. Um er að ræða 4,5 stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar vegna sjúkrasamlaga og rekstrargjalda, svo og hækkun vegna innheimtuþóknunar.
226     Sýslumaður og bæjarfógeti Húsavík: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.500 þús. kr. og verður 28.327 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar vegna sjúkrasamlaga og rekstrargjalda og hækkun innheimtuþóknunar.
227     Sýslumaður og bæjarfógeti Seyðisfirði: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.100 þús. kr. og verður 18.433 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar vegna sjúkratrygginga, innheimtuþóknunar og rekstrargjalda. Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla Seyðisfirði hækkar um 400 þús. kr. og verður 10.023 þús. kr. Um er að ræða hækkun launa vegna yfirvinnu.
228     Bæjarfógeti Neskaupstað: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.200 þús. kr. og verður 11.414 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar sjúkrasamlaga og hækkun innheimtuþóknunar. Viðfangsefni 1.20 Löggæsla hækkar um 400 þús. kr. og verður 7.523 þús. kr. Um er að ræða hækkun vegna yfirvinnu.
229     Sýslumaður og bæjarfógeti Eskifirði: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 600 þús. kr. og verður 22.002 þús. Um er að ræða hækkun launa vegna innheimtuþóknunar. Viðfangsefnið 1.21 Löggæsla Egilsstöðum hækkar um 500 þús. kr. og verður 10.377 þús. kr. vegna yfirvinnu.
230     Sýslumaður Höfn í Hornafirði: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 600 þús. kr. og verður 11.983 þús. Um er að ræða hækkun launa vegna innheimtuþóknunar. Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla hækkar um 400 þús. kr. og verður 11.481 þús. kr. vegna yfirvinnu.
231     Sýslumaður Vík í Mýrdal: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 560 þús. kr. og verður 10.453 þús. Um er að ræða hækkun launa vegna innheimtuþóknunar.
232     Sýslumaður Hvolsvelli: Viðfangsefni 1.01. Yfirstjórn hækkar um 560 þús. kr. og verður 15.066 þús. Um er að ræða hækkun launa vegna innheimtuþóknunar. Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla hækkar um 300 þús. kr. og verður 15.322 þús. kr. vegna annarra gjalda.
233     Bæjarfógeti Vestmannaeyjum: Viðfangsefnið 1.01. Yfirstjórn hækkar um 2.100 þús. kr. og verður 26.574 þús. Um er að ræða eitt stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar sjúkrasamlaga og hækkun rekstrargjalda.
234     Sýslumaður og bæjarfógeti Selfossi: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 4.800 þús. kr. og verður 37.936 þús. Um er að ræða þrjú stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar sjúkrasamlaga og hækkun rekstrargjalda. Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 62.532 þús. kr. vegna yfirvinnu.
235     Sýslumaður og bæjarfógeti Keflavík: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2.800 þús. kr. og verður 53.185 þús. Um er að ræða tvö stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar sjúkrasamlaga, og hækkun rekstrargjalda. Viðfangsefnið 1.20 Löggæsla hækkar um 2.500 þús. kr. og verður 89.751 þús. kr. vegna yfirvinnu.
236     Sýslumaður og bæjarfógeti Hafnarfirði: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 10.100 þús. kr. og verður 93.966 þús. Um er að ræða fimm stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar sjúkrasamlaga, hækkun rekstrargjalda og hækkun vegna innheimtuþóknunar.
237     Bæjarfógeti Kópavogi: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 5.700 þús. kr. og verður 63.118 þús. Um er að ræða þrjú og hálft stöðugildi vegna yfirtöku rekstrarkostnaðar sjúkrasamlaga, yfirvinnu og hækkun rekstrargjalda.
251     Landhelgisgæsla Íslands: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 10.428 þús. kr. og verður 52.867 þús. kr. Hækkunin er annars vegar vegna leiðréttingar á launum vegna tveggja stöðugilda og yfirvinnu 6.773 þús. kr. og hins vegar hækkun á launum vegna nætur- og helgidagavaktar og stöðugildi vaktstjóra 3.655 þús. kr. Viðfangsefnið 1.31 Þyrluvakt lækna hækkar um 140 þús. kr. og verður 3.199 þús. kr. vegna leiðréttingar á launum. Viðfangsefnið 5.90 Viðhald hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 7.500 þús. kr. vegna viðhaldskostnaðar varðskipa. Viðfangsefnið 6.90 Tæki og búnaður hækkar um 9.300 þús. kr. og verður 20.000 þús. kr. Hækkunin er vegna kaupa Landhelgisgæslunnar á leitarratsjá í TF-SÝN.
281     Dómsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 1.14 Gjafsóknar- og málsvarnarlaun hækkar um 1.200 þús. kr. og verður 4.010 þús. kr. Viðfangsefnið 1.40 Tölvunefnd hækkar um 300 þús. kr. og verður 2.430 þús. kr.
282     Ýmis löggæslukostnaður: Viðfangsefnið 1.20 hækkar um 5.000 þús. kr. og verður 9.332 þús. vegna hækkunar launa og annarra gjalda.
283     Fangamál, ýmis kostnaður: Viðfangsefnið 1.10 Fangahjálp hækkar um 500 þús. kr. og verður 5.130 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 1.20 Vistun öryggisgæslufanga 12.000 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 1.21 Vistun fanga á meðferðarstofnunum 15.000 þús. kr.
301     Biskup Íslands: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 16.443 þús. kr. Um er að ræða tímabundna stöðu framkvæmdastjóra vegna safnaðaruppbyggingar.
302     Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 500 þús. kr. og verður 6.713 þús. kr. Um er að ræða ráðningu fulltrúa í heila stöðu.

07 Félagsmálaráðuneyti


301     Skipulagsstjóri ríkisins: Sértekjur lækka um 7.000 þús. kr. og verða 54.110 þús. kr. miðað við óbreytt lög um skipulagsgjöld.
701     Málefni fatlaðra, Reykjavík: Tekinn er inn nýr liður 1.33 Vinnustofa Blindrafélagsins 3.737 þús. kr. Um er að ræða tilfærslur.
702     Málefni fatlaðra, Reykjanesi: Liðurinn 1.70 Vistheimilið Skálatúni hækkar um 2.475 þús. kr. og verður 95.245 þús. kr. Um er að ræða eitt stöðugildi, 1.275 þús. kr. og kaup á bifreið, 1.200 þús. kr.
703     Málefni fatlaðra: Tekinn er inn nýr liður 1.41 Leikfangasafn Ólafsvík 630 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi við safnið.
705     Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra: Tekinn er inn nýr liður 1.22 Sambýli Gauksmýri 1.645 þús. kr. Um er að ræða þrjú stöðugildi frá miðju ári 1990.
706     Málefni fatlaðra, Norðurlandi eystra: Liðurinn 1.30 Iðjulundur, verndaður vinnustaður, hækkar um 2.670 þús. kr. og verður 33.937 þús. kr. Um er að ræða hækkun annarra gjalda hjá vinnustaðnum. Liðurinn 1.40 Leikfangasafn Akureyri hækkar um 504 þús. kr. og verður 1.807 þús. kr. Um er að ræða 0,4 stöðugildi við leikfangasafnið.
707     Málefni fatlaðra, Austurlandi: Liðurinn 1.40 Leikfangasafn hækkar um 630 þús. kr. og verður 1.665 þús. kr. Um er að ræða hálft stöðugildi við safnið.
708     Málefni fatlaðra, Suðurlandi: Viðfangsefnið 1.22 Sambýli Vallholti 12-14 hækkar um 1.275 þús. kr. og verður 4.730 þús. kr. Um er að ræða tvö stöðugildi frá miðju ári 1990. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.26 Sambýli Vestmannaeyjum 1.275 þús. kr. Um er að ræða tvö stöðugildi frá miðju ári 1990.
954     Vinnueftirlit ríkisins: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 3.900 þús. kr. og verður 87.690 þús. kr. Um er að ræða hækkun vegna launa og annarra rekstrargjalda. Viðfangsefnið 6.01 Fasteignakaup hækkar um 6.175 þús. kr. vegna kaupa á bifreið, tækjum og tölvubúnaði. Sértekjur koma á móti þessum hækkunum og hækka um 10.645 þús. kr. og verða 113.975 þús. kr.
981     Vinnumál: Liðurinn 1.51 Sjómannadagsráð hækkar um 30 þús. kr. og verður 200 þús. kr.
982     Ríkisábyrgð á launum: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 30.000 þús. kr. og verður 140.000 þús. kr.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 1.27 Slysavarnafélag Íslands hækkar um 1.200 þús. kr. og verður 8.280 þús kr. Um er að ræða hækkun á framlagi til félagsins. Viðfangsefnið 1.30 Sjómannastofur hækkar um 370 þús. kr. og verður 1.050 þús. kr. Viðfangsefnið 1.31 Félagasamtök, styrkir hækkar um 2.580 þús. kr. og verður 14.380 þús. kr. Viðfangsefnið 1.90 Ýmis framlög hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 5.000 þús. kr.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


101     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.301 þús. kr. og verður 88.762 þús. kr. Um er að ræða stöðugildi viðskiptafræðings.
272     Tryggingastofnun ríkisins: Viðfangsefnið 1.20 Sjúkratryggingar lækka um 7.000 þús. kr. og verða 9.410.000 þús. kr. Um er að ræða lækkun vegna aukins fjölda hjartaskurðaðgerða hjá Ríkisspítölum.
340     Málefni fatlaðra: Viðfangsefnið 1.70 MS-félag Íslands. Liðurinn fellur út og færist undir Heilbrigðismál, ýmis starfsemi lið 1.90 Ýmis framlög. Viðfangsefnið 1.90 Önnur starfsemi hækkar um 480 þús. kr. og verður 4.640 þús. kr.
350     Sjúkrahúsið Akranesi: Liðurinn 1.01 hækkar um 2.376 þús. kr. og verður 400.092 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
352     Sjúkrahúsið Patreksfirði: Liðurinn 1.01 hækkar um 434 þús. kr. og verður 73.506 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
353     Fjórðungssjúkrahúsið Ísafirði: Liðurinn 1.01 hækkar um 1.018 þús. kr. og verður 167.094 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
355     Héraðshæli Austur-Húnvetninga, Blönduósi: Liðurinn 1.01 hækkar um 770 þús. kr. og verður 111.421 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
356     Sjúkrahúsið Sauðárkróki: Liðurinn 1.01 hækkar um 1.603 þús. kr. og verður 245.286 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
357     Sjúkrahúsið Siglufirði: Liðurinn 1.01 hækkar um 692 þús. kr. og verður 116.350 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri: Liðurinn 1.01 hækkar um 5.839 þús. kr. og verður 982.491 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
359     Sjúkrahúsið Húsavík: Liðurinn 1.01 hækkar um 2.924 þús. kr. og verður 222.362 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda og hækkun álagshlutfalls á laun.
360     Sjúkrahúsið Seyðisfirði: Liðurinn 1.01 hækkar um 516 þús. kr. og verður 71.026 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda og hækkun álagshlutfalls á laun.
361     Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupstað: Liðurinn 1.01 hækkar um 980 þús. kr. og verður 152.855 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda og hækkun álagshlutfalls á laun.
363     Sjúkrahúsið Egilsstöðum: Liðurinn 1.01 hækkar um 566 þús. kr. og verður 89.724 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
365     Sjúkrahús Suðurlands, Selfossi: Liðurinn 1.01 hækkar um 2.658 þús. kr. og verður 213.450 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda og hækkun álagshlutfalls á laun.
366     Sjúkrahúsið Vestmannaeyjum: Liðurinn 1.01 hækkar um 1.154 þús. kr. og verður 168.184 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda og hækkun álagshlutfalls á laun.
367     Sjúkrahúsið Keflavík: Sértekjur lækka um 3.600 þús. kr. og verða 35.020 þús. kr. Liðurinn 1.01 hækkar um 1.258 þús. kr. og verður 191.972 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda og hækkun álagshlutfalls á laun.
368     Sólvangur, Hafnarfirði: Liðurinn 1.01 hækkar um 1.546 þús. kr. og verður 192.283 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda og hækkun álagshlutfalls á laun.
371     Ríkisspítalar: Sértekjur lækka um 100.000 þús. kr. og verða 458.510 þús. kr. Liðurinn 1.10 hækkar um 98.310 þús. kr. og verður 2.401.928 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig að 14.310 þús. kr. eru vegna hækkunar álagshlutfalls á laun, 2.000 þús. kr. fara til stöðubreytinga og 7.000 þús. kr. eru vegna 2,5 nýrra stöðugilda við hjartaskurðlækningar. Á móti lækka sjúkratryggingar hjá Tryggingastofnun ríkisins um 7.000 þús. kr. Hækkun annarra gjalda nemur 75.000 þús. kr. Liðurinn 1.20 Geðdeild hækkar um 6.218 þús. kr. og verður 809.713 þús. kr. Hækkunin er vegna álagshlutfalls á laun. Liðurinn 1.30 Stofnanir öryrkja og þroskaheftra hækkar um 2.018 þús. kr. og verður 281.579 þús. kr. vegna hækkunar álagshlutfalls á laun. Liðurinn 1.40 Stoðdeildir, rannsóknastofur hækkar um 7.864 þús. kr. og verður 654.347 þús. kr. vegna hækkunar álagshlutfalls á laun, 3.864 þús. kr., og vegna tveggja stöðugilda við K-byggingu, 4000 þús. kr. Liðurinn 1.50 Þjónustudeildir hækkar um 3.550 þús. kr. og verður 1.133.711 þús. kr. vegna hækkunar álagshlutfalls á laun. Liðurinn 5.60 Stjórnarnefnd, viðhald hækkar um 10.000 þús. kr. og verður 73.300 þús. kr. Liðurinn 6.60 Stjórnarnefnd, stofnkostnaður hækkar um 10.000 þús. kr. og verður 90.000 þús. kr.
372     Borgarspítalinn: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 22.680 þús. kr. og verður 2.729.052 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig: Eitt stöðugildi hjúkrunarfræðings og eitt stöðugildi félagsráðgjafa vegna sjúkdómsins eyðni 2.200 þús. kr., tvö stöðugildi vegna nýrrar starfsemi í B-álmu 4.500 þús. kr. og vegna hækkunar álagshlutfalls á laun 15.980 þús. kr.
373     St. Jósefsspítali, Landakoti: Sértekjur lækka um 10.000 þús. kr. og verða 166.270 þús. kr. Liðurinn 1.01 hækkar um 11.457 þús. kr. og verður 1.207.646 þús. kr. Um er að ræða verðlagsuppfærslu launagjalda, hækkun álagshlutfalls á laun og hækkun launa vegna yfirvinnu og afleysinga.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir: Tilfærslur á viðfangsefni 6.90 hækka um 35.200 þús. kr. og verða 235.200 þús. kr. Vísað er í sundurliðun á sértöku yfirliti með breytingartillögum um skiptingu á einstök verkefni.
395     Lyfjamál: Liðurinn 1.11 Lyfjaverðlagsnefnd hækkar um 849 þús. kr. og verður 1.907 þús. kr. Liðurinn 1.21 Lyfjanefnd hækkar 3.784 þús. kr. og verður 11.816 þús. kr. Um er að ræða leiðréttingu vegna launa hjá nefndunum.
400     St. Jósefsspítali, Hafnarfirði: Liðurinn 1.01 hækkar um 1.145 þús. kr. og verður 242.376 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
401     St. Fransiskusspítali, Stykkishólmi: Liðurinn 1.01 hækkar um 614 þús. kr. og verður 94.574 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
402     Sjúkrahús Hvammstanga: Liðurinn 1.01 hækkar um 528 þús. kr. og verður 79.990 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
403     Sjúkrahús Bolungarvíkur: Liðurinn 1.01 hækkar um 275 þús. kr. og verður 37.768 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
404     Sjúkraskýlið Hólmavík: Liðurinn 1.01 hækkar um 166 þús. kr. og verður 21.664 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
405     Sjúkraskýlið Þingeyri: Liðurinn 1.01 hækkar um 81 þús. kr. og verður 10.212 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
406     Öldrunarstofnun Önfirðinga, Flateyri: Liðurinn 1.01 hækkar um 72 þús. kr. og verður 9.467 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
407     Sundabúð II, Vopnafirði: Liðurinn 1.01 hækkar um 173 þús. kr. og verður 25.308 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
408     Sunnuhlíð, Kópavogi: Liðurinn 1.01 hækkar um 676 þús. kr. og verður 96.405 þús. kr. Um er að ræða hækkun álagshlutfalls á laun.
480     Heilsugæslustöðvar: Liðurinn 1.02 Útgjöld á heilsugæslustöðvar vegna 5. gr. laga nr. 87/1989 fellur út. Sértekjur 89.000 þús. kr. falla út á móti. Kostnaður við heilsugæslustöðvar flyst yfir á eftirfarandi nýjar stofnanir og hækkar alls um 2.880 þús. kr.
481     Vesturlandshérað: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.10 Heilsugæslustöðin Akranesi 9.065 þús. kr.
     b.     1.20 Heilsugæslustöðin Borgarnesi 16.400 þús. kr.
     c.     1.30 Heilsugæslustöðin Ólafsvík 9.803 þús. kr.
     d.     1.40 Heilsugæslustöðin Stykkishólmi 4.794 þús. kr.
     e.     1.50 Heilsugæslustöðin Grundarfirði 3.568 þús. kr.
     f.     1.60 Heilsugæslustöðin Búðardal 8.862 þús. kr.
     g.     4 Sértekjur 7.160 þús. kr.
482     Vestfjarðahérað: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.10 Heilsugæslustöðin Patreksfirði 8.019 þús. kr.
     b.     1.20 Heilsugæslustöðin Ísafirði 9.965 þús. kr.
     c.     1.30 Heilsugæslustöðin Þingeyri 1.677 þús. kr.
     d.     1.40 Heilsugæslustöðin Flateyri 2.685 þús. kr.
     e.     1.50 Heilsugæslustöðin Bolungarvík 4.236 þús. kr.
     f.     1.60 Heilsugæslustöðin Hólmavík 3.666 þús. kr.
     g.     4 Sértekjur 7.004 þús. kr.
483     Norðurlandshérað vestra: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.10 Heilsugæslustöðin Hvammstanga 5.689 þús. kr.
     b.     1.20 Heilsugæslustöðin Blönduósi 2.828 þús. kr.
     c.     1.30 Heilsugæslustöðin Sauðárkróki 9.366 þús. kr.
     d.     1.40 Heilsugæslustöðin Siglufirði 2.820 þús. kr.
     e.     4 Sértekjur 3.404 þús. kr.
484     Norðurlandshérað eystra: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.10 Heilsugæslustöðin Dalvík 6.588 þús. kr.
     b.     1.20 Heilsugæslustöðin Ólafsfirði 4.570 þús. kr.
     c.     1.30 Heilsugæslustöðin Akureyri 51.576 þús. kr.
     d.     1.40 Heilsugæslustöðin Húsavík 8.189 þús. kr.
     e.     1.50 Heilsugæslustöðin Kópaskeri 2.153 þús. kr.
     f.     1.60 Heilsugæslustöðin Þórshöfn 4.447 þús. kr.
     g.     1.70 Heilsugæslustöðin Raufarhöfn 2.800 þús. kr.
     h.     4 Sértekjur 22.725 þús. kr.
485     Austurlandshérað: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.10 Heilsugæslustöðin Egilsstöðum 15.990 þús. kr.
     b.     1.20 Heilsugæslustöðin Seyðisfirði 2.753 þús. kr.
     c.     1.30 Heilsugæslustöðin Vopnafirði 4.979 þús. kr.
     d.     1.40 Heilsugæslustöðin Neskaupstað 6.927 þús. kr.
     e.     1.50 Heilsugæslustöðin Eskifirði 7.100 þús. kr.
     f.     1.60 Heilsugæslustöðin Fáskrúðsfirði 6.659 þús. kr.
     g.     1.70 Heilsugæslustöðin Höfn í Hornafirði 10.423 þús. kr.
     h.     1.80 Heilsugæslustöðin Djúpavogi 2.937 þús. kr.
     i.     4 Sértekjur 17.151 þús. kr.
486     Suðurlandshérað: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.10 Heilsugæslustöðin Kirkjubæjarklaustri 2.622 þús. kr.
     b.     1.20 Heilsugæslustöðin Vík í Mýrdal 3.320 þús. kr.
     c.     1.30 Heilsugæslustöðin Hvolsvelli 3.289 þús. kr.
     d.     1.40 Heilsugæslustöðin Hellu 3.449 þús. kr.
     e.     1.50 Heilsugæslustöðin Laugarási 4.299 þús. kr.
     f.     1.60 Heilsugæslustöðin Selfossi 12.494 þús. kr.
     g.     1.70 Heilsugæslustöðin Hveragerði 2.655 þús. kr.
     h.     1.80 Heilsugæslustöðin Þorlákshöfn 3.927 þús. kr.
     i.     1.90 Heilsugæslustöðin Vestmannaeyjum 8.257 þús. kr.
     j.     4 Sértekjur 5.324 þús. kr.
487     Reykjaneshérað: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.10 Heilsugæslustöðin Keflavík 37.573 þús. kr.
     b.     1.20 Heilsugæslustöðin Hafnarfirði 22.424 þús. kr.
     c.     1.30 Heilsugæslustöðin Garðabæ 6.754 þús. kr.
     d.     1.40 Heilsugæslustöðin Kópavogi 30.325 þús. kr.
     e.     1.50 Heilsugæslustöðin Reykjalundi 4.680 þús. kr.
     f.     1.60 Heilsugæslustöðin Seltjarnarnesi 13.219 þús. kr.
     g.     4 Sértekjur 21.679 þús. kr.
488     Reykjavíkurhérað: Teknir eru inn nýir liðir:
     a.     1.01 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík 196.268 þús. kr.
     b.     1.10 Heilsugæslustöðin Hraunbæ 8.706 þús. kr.
     c.     1.20 Heilsugæslustöðin Asparfelli 9.832 þús. kr.
     d.     1.30 Heilsugæslustöðin Fossvogi 7.453 þús. kr.
     e.     1.40 Heilsugæslustöðin Miðbæ 5.575 þús. kr.
     f.     1.50 Heilsugæslustöðin Hlíðum 5.681 þús. kr.
     g.     1.60 Heilsugæslustöðin Garðastræti 5.592 þús. kr.
     h.     1.70 Heilsugæslustöðin Hraunbergi 11.767 þús. kr.
     i.     4 Sértekjur 40.372 þús. kr.
501     Skólar heilbrigðisstétta: Viðfangsefnið 1.30 Lyfjatækniskóli Íslands hækkar um 500 þús. kr. og verður 7.748 þús. kr. vegna viðhaldsverkefna á húsnæði skólans.
610     Gæsluvistarsjóður, framlag: Viðfangsefnið 6.10 Gæsluvistarsjóður hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 8.000 þús. kr. Viðfangsefnið 6.30 Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið hækkar um 5.000 þús. kr. og verður 15.000 þús. kr. vegna byggingaframkvæmda við sjúkrastöðina í Grafarvogi.
621     Bindindisstarfsemi: Viðfangsefni 1.20 Stórstúka Íslands, ungliðastarfs hækkar um 310 þús. kr. og verður 1.500 þús kr. vegna fræðsluátaks í skólum.

09 Fjármálaráðuneyti


981     Ýmsar fasteignir ríkissjóðs: Viðfangsefnið 6.21 Bjarnarbraut 8, Borgarnesi hækkar um 17.800 þús. kr. og verður 32.800 þús. kr. til að ljúka innréttingu á húseigninni. Tekið er inn nýtt viðfangsefni 6.30 Ýmsar fasteignir 1.000 þús. kr. vegna hönnunar stjórnsýsluhúss á Akranesi.

10 Samgönguráðuneyti


331     Vita- og hafnamálaskrifstofan: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 67.248 þús. kr. vegna aukningar á yfirvinnu stofnunarinnar. Sértekjur lækka um 3.000 þús. kr. og verða 35.040 Viðfangsefnið 6.01 Símstöð hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 4.300 þús. kr.
333     Hafnamál: Liðurinn 1.20 Kostnaður vegna yfirtöku sveitarfélaga á landshöfnum fellur út og færist til á annað fjárlaganúmer. Liður 6.30 orðist svo: Hafnarmannvirki. Liðurinn hækkar um 125.000 þús. kr. og verður 475.000 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 6.32 Lendingarbætur 3.000 þús. kr. Liðurinn 6.40 Sjóvarnargarðar hækkar um 10.000 þús. kr. og verður 40.000 þús. kr. Liðurinn 6.70 Hafnabótasjóður, framlag hækkar um 27.500 þús. kr. og verður 47.500 þús. kr.
341     Siglingamálastofnun ríkisins: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 6.000 þús. kr. og verður 105.839 þús. kr. Hækkunin er vegna hækkunar launaliðs 4.500 þús. kr. og 1.500 þús. kr. vegna stöðugleika- og hávaðarannsókna.
485     Ýmis framlög: Viðfangsefnið 1.10 Flugbjörgunarsveitir hækkar um 130 þús. kr. og verður 1.500 þús. kr. Viðfangsefnið 1.25 Norrænar jarðskjálftarannsóknir á Suðurlandi hækkar um 1.440 þús. kr. og verður 5.000 þús. kr. Viðfangsefnið 1.26 Ýmislegt hækkar um 1.998 þús. kr. og verður 4.378 þús. kr. Viðfangsefnið 1.33 Öryggismálaskóli sjómanna hækkar um 4.000 þús. kr. og verður 17.260 þús. kr.
651     Ferðamálaráð: Viðfangsefnið 6.10 hækkar um 2.600 þús. kr. og verður 38.600 þús. kr. Um er að ræða framlag til uppbyggingar aðstöðu fyrir ferðamenn í óbyggðum, 600 þús. kr. og til þróunarverkefnis í ferðaþjónustu hjá Ferðaþjónustu bænda 2.000 þús. kr. Liðurinn 6.20 Hótel, framlög hækkar um 5.000 þús. kr. og verður 25.000 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 6.30 Ýmis verkefni 4.600 þús. kr. vegna framkvæmda við hreinlætisaðstöðu við Gullfoss 4.000 þús. kr. og vegna snyrtiaðstöðu við Látrabjarg 600 þús. kr.
652     Veðurstofa Íslands: Viðfangsefnið 1.10 Veðurspádeild hækkar um 900 þús. kr. og verður 20.619 þús. kr. Hækkunin er vegna aukningar á yfirvinnu. Viðfangsefnið 1.50 Tækni- og veðurathugunardeild hækkar um 780 þús. kr. og verður 19.824 þús. kr. vegna hækkunar á framlagi til yfirvinnu. Viðfangsefnið 1.70 Veðurþjónusta vegna millilandaflugs hækkar um 2.507 þús. kr. og verður 57.015 þús. kr. Um er að ræða hækkun á framlagi til launa og annarra gjalda.

11 Iðnaðarráðuneyti


201     Iðntæknistofnun Íslands: Viðfangsefnið 1.91 Samstarfsverkefni iðnaðar og sjávarútvegs hækkar um 1.250 þús. kr. og verður 6.000 þús. kr.
203     Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 3.500 þús. kr. og verður 95.126 þús. kr. Hækkunin er vegna vanáætlaðrar yfirvinnu. Sértekjur lækka um 3.000 þús. kr. og verða 53.560 þús. kr. Um er að ræða leiðréttingu vegna ofáætlaðra sértekna.
301     Orkustofnun: Viðfangsefnið 1.01 hækkar um 7.426 þús. kr. og verður 299.634 þús. kr. Um er að ræða leiðréttingu á framlagi vegna yfirvinnu og hækkunar annarra gjalda Orkustofnunar um 2.630 þús. kr. Sértekjur hækka um sömu fjárhæð og verða 106.750 þús. kr. Um er að ræða framlag til Háskóla Sameinuðu þjóðanna vegna jarðhitaskóla sem færist til gjalda og tekna hjá Orkustofnun. Viðfangsefnið 6.01 Tækjakaup hækkar um 700 þús. kr. og verður 5.300 þús. kr. vegna endurnýjunar á bifreið og tækjum.

12 Viðskiptaráðuneyti


101     Viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2.500 þús. kr. og verður 50.337 þús. kr. Hækkunin er vegna ýmissa rekstrargjalda skrifstofunnar. Tekinn er inn nýr liður 1.03 Icepro-nefnd 1.500 þús. kr.

Alþingi, 11. des. 1989.


Sighvatur Björgvinsson,


Margrét Frímannsdóttir,


Alexander Stefánsson.


form., frsm.


fundaskr.


Ásgeir Hannes Eiríksson.


Ólafur Þ. Þórðarson.