Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 243 . mál.


Sþ.

374. Tillaga til þingsályktunar



um að samræma opinberan ferðakostnað.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta samræma opinberan ferðakostnað hjá fulltrúum ríkisins. Verkinu skal lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.

Greinargerð.


    Fljótt á litið sýnist ekki vera mikið samræmi í ferðalögum á vegum hins opinbera og veldur það oft misskilningi og jafnvel tortryggni. Þess vegna er rétt að samræma hið fyrsta öll opinber ferðalög og setja um þau fastmótaðar reglur.
    Í fyrsta lagi þarf að tryggja að opinberir erindrekar, hverju nafni sem nefnast í stjórnsýslunni, ferðist jafnan á hagkvæmasta hátt. Jafnan séu t.d. keyptir hagstæðustu flugfarmiðar. Þá er sjálfsagt að leita samninga á ferðamarkaðinum um hæsta mögulegan afslátt á farseðlum með hliðsjón af fjölda af keyptum miðum á hverju ári.
    Í öðru lagi verður að samræma gistingu opinberra stjórnsýslumanna á ferð um önnur lönd á kostnað ríkissjóðs. Ákveðið þak verði sett á gistikostnað á sólarhring og ekki greitt umfram það. Einnig verði leitað samninga um mesta mögulegan afslátt á gistingu hjá gistihúsum sem hlut eiga að máli.
    Í þriðja lagi verður að koma fastri reglu á greiðslur dagpeninga ef þeirra gerist þá lengur þörf. Tryggja verður að opinberir ferðalangar safni ekki í sjóði á ferðalögum og þau verði þannig að tekjulind. Það er óeðlilegur máti og mun ýta undir frekari ferðir á vegum hins opinbera.
    Síðast en ekki síst verður að skoða og meta þörfina fyrir ferðir til útlanda á vegum ríkisins með hliðsjón af vaxandi tækni í samskiptum á milli landa. Tölvubúnaður og fax-sendingar eru að ryðja sér til rúms og eldri tegundir samskipta eru á undanhaldi. Með því hlýtur að draga úr þörfinni fyrir ferðalög af þessu tagi.
    Þá er rétt að athuga ferðir innan lands, en þar virðast vera að komast á nokkuð góðar reglur. Þó má sjálfsagt athuga betur um afslátt á ferðum og gistingu með hliðsjón af umfangi viðskipta ríkisins.
    Þannig er sjálfsagt að bjóða út þá þætti sem hægt er svo sem aðkeyptan akstur o.fl. Eðlilegt er að versla við ferðaskrifstofur á almennum markaði.