Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 129 . mál.


Ed.

640. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 73 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands.

Frá 2. minni hl. allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar. Eins og fram kemur og upp er talið á nefndaráliti meiri hl. komu fjölmargir aðilar til viðræðna um efni frumvarpsins, auk þess sem nefndin hafði til athugunar þær umsagnir sem bárust neðri deild.
    Annar minni hl. harmar að málið skyldi tekið út úr nefndinni á meðan fylgifrumvarp þess (128. mál) var enn til umfjöllunar í allsherjarnefnd neðri deildar. Fylgifrumvarpið kveður á um þær lagabreytingar sem gera þarf svo að unnt sé að færa einstök verkefni undir umhverfisráðuneyti. Þessi tvö frumvörp verða því ekki aðskilin, enda hefur það endurspeglast í viðræðum við þá menn sem komu á fund nefndarinnar.
    Umhverfismálin eru flókin og samofin flestum málaflokkum (heyra nú undir átta ráðuneyti). Það er því brýnt að færa þau undir samræmda yfirstjórn. Vísast í þeim efnum til nefndarálits minni hl. allsherjarnefndar neðri deildar.
    Á sama tíma og vitað er að í undirbúningi er að fækka ráðuneytum og samræma verkefni þeirra skýtur það skökku við að stofna nýtt ráðuneyti og það án þess að fyrir liggi hvaða verkefni eigi að falla undir það.
    Annar minni hl. telur að farsælla hefði verið ef meiri hl. nefndarinnar hefði gefið sér tíma til að vinna þannig að málinu að bíða eftir fylgifrumvarpinu (128. mál) og breið samstaða næðist um það. Þannig hefði afgreiðsla málsins orðið með meiri reisn en felst í því að beita minni hl. nefndarinnar ofríki og keyra þetta frumvarp í gegnum þingið án fylgifrumvarpsins sem er þó meginþáttur málsins.
    Þetta frumvarp fjallar um nafnið tómt en ekki verkefni. Annar minni hl. leggur til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 21. febr. 1990.



Salome Þorkelsdóttir,


frsm.


Ey. Kon. Jónsson.