Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 19 . mál.


Sþ.

706. Nefndarálit



um till. til þál. um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1989.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og leggur til að hún verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Nefndinni barst umsögn um tillöguna frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs og er hún prentuð sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.


Alþingi, 12. mars 1990.


Jóhann Einvarðsson,


form., frsm.


Hjörleifur Guttormsson,


fundaskr.


Karl Steinar Guðnason.


Ey. Kon. Jónsson.


Ragnhildur Helgadóttir.


Guðmundur G. Þórarinsson.


Danfríður Skarphéðinsdóttir.






Fylgiskjal.


Íslandsdeild Norðurlandaráðs:


Bréf til utanríkismálanefndar Alþingis varðandi þingsályktunartillögur


um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1990.


(25. janúar 1990.)



    Með bréfi dagsettu 28. nóvember 1990 sendi utanríkismálanefnd Alþingis Íslandsdeild Norðurlandaráðs til umsagnar þingsályktunartillögur um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1990.
    Íslandsdeild fjallaði um ályktanirnar á fundi sínum 24. janúar sl. og samþykkti eftirfarandi umsögn um þær:
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs lýsir stuðningi við tillögu þingmannaráðsins um að fé verði veitt af fjárlögum næstu þrjú ár til starfsemi vestnorrænu ferðamálanefndarinnar til kynningarstarfs, áætlanagerðar og markaðsrannsókna á sviði ferðamála. Íslandsdeild Norðurlandaráðs minnir jafnframt á að Alþingi samþykkti með fjárlögum ársins 1990 fjárveitingu til þessa starfs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs lýsir einnig stuðningi við að skipulögð verði kennaraskipti á grunnskóla- og framhaldsskólastigi milli Íslands, Færeyja og Grænlands. Íslandsdeild bendir á að þegar eru hafin kennara- og nemendaskipti milli Færeyja, Grænlands og Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs, Álandseyja og Svíþjóðar hins vegar með fjárstuðningi frá ráðherranefnd Norðurlanda og ríkisstjórn Íslands, og undir stjórn norrænu félaganna. Deildin bendir á þann möguleika að unnið verði að því að útvíkka þessi kennara- og nemendaskipti þannig að þau tækju einnig til skipta milli Færeyja, Grænlands og Íslands innbyrðis án þess að leita þyrfti til landsstjórna Færeyja og Grænlands um fjárstuðning.
    Varðandi tillögu þingmannaráðsins um að skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs annist fyrst um sinn verkefni stjórnunarlegs eðlis fyrir Vestnorræna þingmannaráðið og að Alþingi veiti til þess nauðsynlegt fé og
aðstöðu vill Íslandsdeild Norðurlandaráðs taka fram að eðlilegt hljóti að teljast að stjórnunarverkefnum Vestnorræna þingmannaráðsins sé sinnt af hálfu Alþingis frekar en af þingum hinna aðildarlandanna. Deildin bendir á að störfum fyrir Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins hafi hingað til verið sinnt af aðalskrifstofu Alþingis með nokkurri aðstoð frá skrifstofu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Deildin telur eðlilegt að samvinna milli aðalskrifstofu Alþingis og skrifstofu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs verði höfð um stjórnunarverkefni fyrir þingmannaráðið, eftir því sem samkomulag kann að verða um. Deildin bendir og á að unnt kunni að vera að nýta að einhverju leyti starfskrafta hinnar nýstofnuðu nefnda- og þingmáladeildar Alþingis til þessara starfa.
    Íslandsdeild gerir ekki athugasemdir við tillögu Vestnorræna þingmannaráðsins um að árið 1992 verði gert að sérstöku vestnorrænu ári þar sem sérstaklega verði hugað að jafnréttis-, umhverfis- og æskulýðsmálum. Deildin bendir þó á að rétt sé að forðast tvíverknað og ákveðið hafi verið af ráðherranefnd Norðurlanda og Norðurlandaráði að tímabilið frá 6. júní 1990 til sama tíma 1991 verði helgað umhverfismálum um öll Norðurlönd og nefnt norrænt umhverfisár. Einnig bendir hún á að tillögur hafa verið lagðar fram í Norðurlandaráði um að halda norræna kvennaráðstefnu, Nordisk Forum, á ný árið 1992 með þátttöku fulltrúa alls staðar að frá Norðurlöndum.