Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 464 . mál.


Sþ.

809. Tillaga til þingsályktunar



um að heimila veiðar á hrefnu.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Skúli Alexandersson.



    Alþingi ályktar að skora á sjávarútvegsráðherra að heimila takmarkaðar veiðar á hrefnu sumarið 1990. Veiðarnar skulu stundaðar undir umsjón Hafrannsóknastofnunar í því skyni m.a. að meta ástand og stærð hrefnustofnsins og leggja grundvöll að hagnýtingu hans í atvinnuskyni í samræmi við niðurstöður um veiðiþol hans.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Hún er enn brýnni nú en þá.
    Nú um fárra ára skeið hafa veiðar á hrefnu verið bannaðar. Þegar það var gert var talin nokkur óvissa um stærð hrefnustofnsins og töldu jafnvel sumir að hrefnum kynni að hafa fækkað svo við landið að ástæða væri til þess að draga mjög verulega úr veiðum eða jafnvel að hætta þeim. Slíkt var þó alls ekki áformað heldur þvert á móti fyrirhugað að veita veiðiheimildir, en mjög takmarkaðar í samræmi við sérstaka áætlun um veiðar á hrefnu undir stjórn og eftirliti Hafrannsóknastofnunar. Sú áætlun sá hins vegar aldrei dagsins ljós af ýmsum ástæðum.
    Árlega hafa menn hins vegar átt á því von að áætlun þessi kæmi fram og veiðar gætu hafist. Það fólk, sem haft hafði lífsviðurværi sitt af veiði og verkun hrefnu og lagt fram verulega fjármuni til þess að byggja upp aðstöðu til veiða og vinnslu, hefur stöðugt lifað í voninni um að þær veiðar, sem sjávarútvegsráðuneytið hafði boðað, gætu hafist. Þessir menn hafa lagt mjög hart að sér við að þrauka og lifað í voninni. Þeir hafa reynt með harðfylgi og atorku að halda við skipum og búnaði í landi og orðið að leggja á sig og fjölskyldur sínar þunga byrði. Sama má segja um aðra sem atvinnu sína áttu undir þessum veiðum. Um var þar að ræða íbúa fámennra byggðarlaga, einkum á Vestur- og Norðurlandi, þar sem atvinnulíf er fábreytt og örðugt. Fólkið á þessum stöðum hefur beðið og vonað ár hvert að takmarkaðar veiðar gætu hafist en ávallt orðið fyrir vonbrigðum.
    Á þeim árum, sem liðið hafa án þess að hrefnuveiðar væru stundaðar, hefur ýmis ný vitneskja bæst við um hrefnufjölda við Ísland. Við talningu hefur komið í ljós að hrefnur eru við og umhverfis landið í þúsundatali og eru menn almennt sammála um að engin ástæða sé til að ætla að stofninn sé í hættu heldur bendi þvert á móti allt til þess að meira en óhætt sé að hefja hrefnuveiðar í atvinnuskyni á ný.
    Það er ekki nauðsynlegt að halda þeim sem afkomu sína eiga undir hrefnuveiðum í frekari óvissu um framtíð veiðanna og það er ástæðulaust að ganga ekki úr skugga um það með takmörkuðum veiðum að óhætt sé að nýta þessa auðlind sjávarins með eðlilegum og skynsamlegum hætti eins og allt bendir til.