Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 480 . mál.


Sþ.

837. Tillaga til þingsályktunar



um skráningarkerfi bifreiða.

Flm.: Jón Sæmundur Sigurjónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá um að þjónusta við skráningu bifreiða verði aukin þannig að hinir gömlu einkennisbókstafir skráningarsvæða verði innleiddir að nýju án þess að afnema kosti hins nýja fastnúmerakerfis.

Greinargerð.


    Víða um land má heyra raddir fólks sem saknar gömlu staðarmerkinganna í skráningarkerfi bifreiða. Menn vilja gjarnan bera þau kennsl á vegfarandann að vita hvaðan hann kemur. Það má vera að hér sé fyrst og fremst um tilfinningalegar ástæður að ræða, en hiklaust má finna margar þarfar ástæður fyrir því að bifreiðar verði aftur skráðar eftir svæðum. Ef leitað er að bifreið, t.d. frá Akureyri, og leitað er eftir aðstoð almennings er hægara um vik með slíkt þegar einkennisstafur er þekktur. Eins er auðveldara að leggja á minnið að um bláa eða gráa A eða R bifreið hafi verið að ræða í sambandi við ýmis tilvik, t.d. við skyndilegan flótta frá slysstað, þegar athygli sjónarvotta væri þörf en henni ekki beitt sem skyldi.
    Nú eru vissulega margir góðir kostir því samfara að hafa föst skráningarnúmer bifreiða og er óþarfi að telja þá upp. Það er heldur ekki lagt til að það kerfi verði lagt niður — þvert á móti.
    Á hinum nýju fastnúmerum bifreiða er fyrsta sætið autt og ætlað t.d. fyrir skjaldarmerki. Þá koma tveir bókstafir og síðan þrír tölustafir, t.d. BC–123. Hið auða sæti er í fæstum tilfellum notað af bifreiðaeigendum.
    Samkvæmt þeirri hugmynd sem hér er lögð fram væri auða sætið notað fyrir einkennisbókstaf svæðis. Fyrir bifreið frá Akureyri væri númerið t.d. ABC–123, þ.e. þrír bókstafir og þrír tölustafir, þar sem fyrsti bókstafurinn sýndi ávallt af hvaða svæði bifreiðin kæmi.
    Einkennisbókstafinn mætti líma á númersplötuna líkt og gert er með skoðunarmerkið nú. Ef bifreið er seld á milli skráningarsvæða heldur hún fasta númerinu, en límmerkið gamla er rifið af og annað sett í staðinn með hinum nýja einkennisbókstaf.
    Þetta fyrirkomulag er til þess fallið að sameina kosti hins gamla og hins nýja skráningarkerfis bifreiða.