Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 197 . mál.


Ed.

1115. Nefndarálit



um frv. til l. um Úreldingarsjóð fiskiskipa.

Frá 2. minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Þó að efni þessa frumvarps og breytingartillögur, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram við það, sé í anda þess sem Kvennalistinn hefur látið frá sér fara um fiskveiðimál hefur annar minni hl. ýmsar athugasemdir við efni frumvarpsins eftir að breytingartillögur ríkisstjórnarinnar voru birtar og málsmeðferðina alla.
    Markmið frumvarpsins, eins og það var lagt fram, var einkum þríþætt:
—     að draga úr afkastagetu fiskiskipastólsins,
—     að koma í veg fyrir að úrelt og gömul fiskiskip séu endurnýjuð með mun afkastameiri fiskiskipum,
—     að sjóðurinn eignist kvóta fiskiskipa eftir ákveðnum reglum.
    Allt eru þetta markmið sem kvennalistakonur fella sig við og telja nauðsynlegt að vinna að.
    Með þeim breytingartillögum, sem lagðar hafa verið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar við þetta frumvarp, örlar á viðurkenningu á þeim sjónarmiðum, sem kvennalistakonur hafa haldið fram og flutt tillögur um, að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu og að ekki sé sjálfgefið að úthluta veiðiheimildum ókeypis til einstaklinga og útgerðarfélaga sem geta hagnast um tugi eða hundruð milljóna á óveiddum fiski sem lögum samkvæmt er sameign íslensku þjóðarinnar. Breytingartillögurnar fela þó ekki í sér framtíðarlausn á vanda byggðarlaga aðeins er verið að lagfæra einstök atriði, en heildarvandanum ýtt til hliðar og ýmis atriði óljós. Með breytingartillögunum er búið að tengja frumvarp þetta frumvarpi til laga um fiskveiðistefnu órjúfanlegum böndum, fyrst og fremst í því skyni að reyna að jafna ágreining innan ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistefnuna.
    Annar minni hl. telur þetta ekki vera það úrræði sem þarf til að tryggja stöðu byggðarlaga og minnir á breytingartillögur Kvennalistans við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða um byggðakvóta. Hins vegar kann að vera að þetta sé eina úrræði ríkisstjórnarinnar til að þoka frumvarpi til laga um fiskveiðistefnu í gegnum þingið. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að frumvarp þetta er mikilvægur þáttur þeirrar fiskveiðistefnu, sem Kvennalistinn hefur hafnað, leggur 2. minni hl. til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 30. apríl 1990.


Danfríður Skarphéðinsdóttir.