Næturfundir o.fl.
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hlýddi með mikilli athygli á mál virðulegs forseta og ég held ég hafi tekið rétt eftir því að af því mátti ráða að hæstv. forseti væri nánast að gefa hluta af þingheimi frí frá þingfundi og taka það sérstaklega fram að það væri engin ástæða til þess að sá hluti þingheims sem gegnir jafnframt ráðherrastörfum sæti hér nema kannski einn eða tveir eða þrír menn. Ég veit ekki hversu margir voru taldir. Ég tel afar óeðlilegt að verið sé að gefa hluta af þingheimi einhvers konar frí frá fundi. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða mál af þessu tagi sem varðar alla ríkisstjórnina. Ætli það skipti ekki hæstv. samgrh. einhverju máli hvort það verður brugðið á það ráð sem verið er að vinna að á vegum hæstv. iðnrh? Ætli það skipti ekki nokkru máli varðandi framkvæmdir í samgöngumálum í landinu hvort svo verður? Og hvort það skipti ekki nokkru máli fyrir hæstv. menntmrh. hvort ráðist verður í 100 milljarða kr. fjárfestingu í landinu á næstu árum eða ekki. Á að fara að láta að því liggja að það eigi að ræða þetta stórmál hér að aðeins hluta þingmanna viðstöddum? Og hæstv. forseti sé frekar að ýta undir það að hluti af þingheimi fari nú að koma sér til náða en öðrum sé ætlað að vera hér til að ræða þetta mál. Ég vona að það sé misskilningur að hæstv. forseti hafi látið að þessu liggja. En ég taldi mig lesa eitthvað í þessa átt úr orðum virðulegs forseta.
    Síðan þakka ég hæstv. forseta fyrir þá textarýni sem fór hér fram og það mat sem verið var að leggja á málið þó ég héldi að það væri kannski okkar sem eigum að fara að ræða málið að leggja mat á það hversu brýnt og viðamikið mál þetta væri og hversu mikinn tíma þyrfti að taka í þá umræðu.
    En ég ítreka að liðinn er meira en sólarhringur frá því að umræðu var frestað um þetta mál sem er, eins og ég segi, eitthvert afdrifaríkasta mál sem hefur borið fyrir Alþingi Íslendinga um fjölda ára. Svoleiðis að það er nú ástæða til að þingið taki þetta alvarlega.