Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 18. mars 1991


     Frsm. meiri hl. félmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. félmn. um þáltill. um íslenska heilbrigðisáætlun sem er stjtill. sem lögð var fram á þessu þingi og raunar á tveimur fyrri þingum. Meiri hl. félmn. skipuðu ásamt mér Rannveig Guðmundsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Alexander Stefánsson og Ásgeir Hannes Eiríksson.
    ,,Nefndin hefur fjallað ítarlega um till. og fékk til viðræðna um hana Pál Sigurðsson, ráðuneytisstjóra í heilbr.- og trmrn.
    Tillaga um sama efni hefur tvívegis áður verið lögð fram á Alþingi. Eftir verulega umfjöllun um till. á síðasta þingi, m.a. með hliðsjón af fjölmörgum umsögnum sem nefndinni bárust, taldi nefndin ekki grundvöll fyrir því að afgreiða málið og lagði því til að till. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og hún endurskoðuð með hliðsjón af ábendingum nefndarinnar og fyrirliggjandi umsögnum. Þó að tillagan væri lögð fram endurskoðuð á þessu þingi taldi nefndin enn töluverða vankanta á henni og hefur því niðurstaða meiri hl. nefndarinnar orðið sú að leggja til verulegar breytingar á till. Breytingarnar felast m.a. í því að formi till. hefur verið breytt og auk þess gerðar breytingar á texta, bæði efnislegar og málfarslegar.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að till. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.``
    Minni hl. nefndarinnar skipuðu Sólveig Pétursdóttir og Kristinn Pétursson og gerir Kristinn Pétursson grein fyrir áliti minni hl. félmn.
    Brtt. meiri hl. er að finna á þskj. 951 og er umorðun á tillgr. í heild sinni. Aðfaraorð eru svofelld:
    ,,Alþingi ályktar að stefna í heilbrigðismálum á Íslandi fram til ársins 2000 skuli taka mið af heilbrigðisáætlun þeirri sem hér er sett fram í 32 liðum og hefur það að markmiði að bæta heilsufar þjóðarinnar.``
    Síðan fylgja þessir 32 liðir á eftir með kaflafyrirsögnum, flokkaðir eftir efni máls í:
    Almenn stefna í heilbrigðismálum.
    Heilsugæslustöðvar og sjúkrastofnanir.
    Heilbrigðir lífshættir.
    Heilbrigðiseftirlit og umhverfisvernd.
    Þróun heilbrigðiskerfisins.
    Framlög til heilbrigðismála og mannafli.
    Rannsóknir og kennsla.
    Alþjóðasamstarf.
    Það mætti margt um efni þessa máls segja en ég ætla ekki að taka tíma hv. sameinaðs þings til þess að lesa efni þessarar till. enda hefur það legið um skeið fyrir þinginu. En ég vil geta þess að í þetta mál hefur verið lögð mjög mikil vinna af félmn. á tveimur þingum. Á síðasta þingi vísaði nefndin samhljóða málinu til ríkisstjórnarinnar með ábendingum um sitthvað sem betur mætti fara og fékk, eins og fram kemur í nál., tillögu til baka endurunna og hefur enn gert verulegar breytingar á þessu máli og er um það fullt

samkomulag við ráðuneyti heilbrigðismála og hæstv. heilbrrh. sem hefur fylgst með framvindu þess.
    Að athuguðu máli flytur nefndin á þskj. 1055 brtt. við tillögu meiri hlutans þess efnis að í stað orðanna ,,að gera samninga við félög og samtök`` í 2. tölul. komi: að gera samninga við einstaklinga, félög og samtök. Þ.e. að þar verði tekið inn orðið einstaklinga. Um það var fullt sammæli en þessi ábending kom fram við athugun og umræðu um málið utan þingsala nú í kvöld.
    Ég tel að hér liggi fyrir gott efni í áætlun eins og fram er tekið í upphafi, áætlun sem taka beri mið af fram til næstu aldamóta varðandi heilbrigðismál í landinu og ég tel að Alþingi geti eftir atvikum verið vel sæmt af því að senda frá sér þær áherslur sem hér liggja fyrir.