Ferill 86. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 86 . mál.


Sþ.

89. Tillaga til þingsályktunar



um jöfnun orkukostnaðar.

Flm.: Friðjón Þórðarson, Alexander Stefánsson, Skúli Alexandersson,


Ingi Björn Albertsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir

.


    Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til ríkisstjórnarinnar að markvisst verði unnið að jöfnun orkukostnaðar í landinu og stefnt að því að allir landsmenn greiði sama orkuverð óháð búsetu.

G r e i n a r g e r ð .


     Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrædd. Henni fylgdi svohljóðandi greinargerð ásamt fylgiskjölum:
    Á aðalfundi SSV, Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, sem haldinn var í Borgarnesi 10. 11. nóvember 1989, var einróma samþykkt að beina þeirri áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar að markvisst verði unnið að jöfnun húshitunarkostnaðar í landinu og stefnt að því að allir landsmenn greiði sama orkuverð óháð búsetu. Samtökin telja þetta vera mjög brýnt mál til jöfnunar lífskjara og mjög vel til þess fallið að auka jöfnuð og styrkja búsetu á landsbyggðinni.
    Í tillögunni, eins og hún var samþykkt á aðalfundi SSV, er að vísu aðeins rætt um jöfnun húshitunarkostnaðar. Vissulega er það veigamikill þáttur í jöfnun aðstöðu. En jöfnun orkukostnaðar er víðtækari því að hún tekur einnig til annars konar nýtingar orkunnar, þ.e. til atvinnuveganna. Rétt þykir að skoða málið allt í samhengi. Tillagan er því flutt hér óbreytt að öðru leyti en því að hér er fjallað um jöfnun orkukostnaðar í stað húshitunarkostnaðar eingöngu.
    Þetta mál er ekki nýtt af nálinni. Um það hefur margt verið rætt og ritað á undanförnum árum. Á Alþingi hefur málinu verið hreyft hvað eftir annað, þing eftir þing. Tillögur, frumvörp og fyrirspurnir hafa verið lagðar fram, ræddar og reifaðar af miklum móði. Málið hefur verið viðfangsefni margra ríkisstjórna. Einstakir þingmenn og þingflokkar hafa fjallað um það fram og til baka. Vissulega hafa ýmsar leiðréttingar verið gerðar sem ganga í rétta átt. En þær hafa allar verið sama marki brenndar að því leyti að þær hafa gengið allt of skammt.
    Meginforsenda þess að fólk vilji og geti búið í strjálum byggðum landsins er næg atvinna og að fólk búi við svipaða aðstöðu hvað snertir öflun brýnustu lífsnauðsynja. Nú er orkunotkun orðin svo mikil og almenn að verðið á orkunni vegur þungt og skiptir miklu máli á búreikningi hverrar fjölskyldu. Það getur jafnvel ráðið úrslitum um það hvar fjölskyldan ákveður að velja heimili sínu stað til frambúðar.
    Til þess að hægt sé að gera verulegt átak í jöfnun orkuverðs þarf að sjálfsögðu vilja meiri hluta alþingismanna og ríkisstjórnar og svo vel vill til að nægar heimildir eru fyrir hendi sem hafa að geyma ótvíræðar viljayfirlýsingar íslenskra stjórnmálamanna um þessi efni. Verður hér á eftir vitnað í nokkur sýnishorn úr ríkisstjórnarsáttmálum og yfirlýsingum alþingismanna og stjórnmálaflokka, einkum frá síðustu árum.
    Úr málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 28. september 1988 eru eftirfarandi glefsur teknar:
    „Höfuðverkefni hennar er að treysta grundvöll atvinnulífsins, stöðu landsbyggðarinnar og undirstöðu velferðarríkis á Íslandi.“
    „Að framfylgja árangursríkri byggðastefnu sem komi betra jafnvægi á byggðaþróun í landinu.“
    „Gerðar verða ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu.“
    Í endurnýjuðum málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannsonar frá 10. september 1989 segir í inngangi að samkomulag hafi orðið um að geta einungis helstu áhersluatriða í sérstöku samkomulagi um stjórnarsamstarf, en vísa að öðru leyti til málefnasamnings fráfarandi ríkisstjórnar. Eitt af áhersluatriðunum er þetta:
    „Endurskoða verðmyndun á orku með það að markmiði að jafna orkuverð og efla innlendan orkubúskap.“
    Flokksþing og miðstjórnarfundir Framsóknarflokksins hafa lagt sérstaka áherslu á jöfnun orkuverðs í landinu.
    Nefnd þingflokks Framsóknarflokksins um efnahags-, atvinnu- og byggðamál skilaði áliti í október 1989. Þar segir svo m.a. um byggðamál:
    „Landsbyggðin býr nú við framleiðslutakmarkanir í meginhluta atvinnustarfsemi sinnar á sama tíma og atvinnulíf höfuðborgarsvæðisins er að langmestu leyti frjálst.
    Verði ekki þegar snúist gegn byggðarröskun af þessum sökum með róttækum aðgerðum eru gífurlegir tilflutningar fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins fyrirsjáanlegir sem verða munu þjóðfélaginu mjög kostnaðarsamir og draga úr hagvexti.
    Slíkir búferlaflutningar koma til með að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir þjóðfélagið í heild. Því er nú nauðsynlegt að gera róttækar ráðstafanir sem stuðla að sem skynsamlegastri byggðarþróun í landinu.“
    Og í 7. og 8. tölul. ályktunar um iðnað stendur:
7.      Landsvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins verði sameinaðar í eitt orkuöflunar- og dreifingarfyrirtæki og raforkuverð verði það sama til allra dreifiveitna. Stefnt verði að því að raforkuverð í smásölu verði jafnað til sambærilegrar notkunar.
8.      Raforkutaxtar verði endurskoðaðir með tilliti til nýtingartíma og orkunotkunar.
    Umrætt nefndarálit var samþykkt í heild á síðasta miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins.
    Kjördæmisþing Alþýðuflokksins í Vesturlandskjördæmi, haldið í Röst á Akranesi 30. september 1989, samþykkti stjórnmálaályktun, er birtist í Alþýðublaðinu 10. október sl. Þar segir svo í 4. tölul.:
    „Kjördæmisráðið beinir því til iðnaðarráðherra að hann vinni ötullega að jöfnun orkuverðs í landinu, enda er það ein meginforsenda áframhaldandi búsetu fólks á landsbyggðinni. Sama orkuverð á að gilda um land allt án tillits til búsetu.“
    Í fórum Sjálfstæðisflokksins er að finna margar ályktanir frá ýmsum tímum sem hníga í þá átt að landsmenn allir eigi að njóta sambærilegra lífskjara og þæginda. Í landsfundarsamþykkt frá 1953 segir svo m.a.:
    „Fundinum er ljóst, að raforkan er eitt mikilsverðasta atriðið til þess að skapa lífsþægindi og vinna gegn því að fólkið flytji úr sveitum og kauptúnum landsins til kaupstaðanna. Allir hugsandi menn skilja þá þjóðfélagslegu nauðsyn, að jafnvægi megi verða í byggðum landsins og að framtíð þjóðarinnar veltur á því, að landið verði ræktað og að sveitirnar byggist. En það verður bezt tryggt með því að fólkið úti um byggðir landsins njóti ekki lakari lífskjara og þæginda en íbúar kaupstaðanna.“
    Sjálfstæðisflokkurinn varð 60 ára á síðasta ári. Þá var 28. landsfundur flokksins haldinn. Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins. Í ályktun fundarins um byggðamál segir svo m.a.:
    „Leitast verði við að bæta aðstöðu fólks til að njóta opinberrar þjónustu hvar sem menn búa á landinu. Verð á raforku og símaþjónustu verði jafnað ...
    Sjálfstæðisflokkurinn vill treysta búsetu í landinu og jafna aðstöðu í landshlutunum með markvissum aðgerðum. Í því gegna sveitarfélögin viðamiklu hlutverki ...
    Borg og byggð eiga að vaxa og dafna eðlilega og styðja hvort annað.“
    Um orkumál ályktaði landsfundurinn svo m.a.:
    „Orkuveitum landsins verði búin sambærileg rekstrarskilyrði, svo þau geti stundað eðlilega samkeppni og veitt viðskiptamönnum sem bezta þjónustu við sem lægstu verði. Lögð verði áherzla á að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er hæstur.“
    Hér að framan eru aðeins nefnd örfá dæmi af fjölmörgum sem skráðar heimildir hafa að geyma um orð og yfirlýsingar íslenskra stjórnmálamanna. Hníga þær yfirleitt allar í þá átt að styrkja byggðir landsins, jafna aðstöðu landsmanna, hvar sem þeir hafa búsetu, og byggja landið allt. Það virðist því vera mjög víðtæk samstaða meðal ráðamanna þjóðarinnar í þessum efnum hvar í flokki sem þeir standa. Það skortir aðeins á að samræma orð og athafnir, fyrirheit og framkvæmdir.
    Það er sagt að enginn einn þáttur valdi jafnmikilli mismunun í kjörum fólks hérlendis og ójafn húshitunarkostnaður. Mætti þetta vera hugstætt öllum þeim sem á liðnum árum hafa barist fyrir jafnvægi í byggð landsins.
    Í Raforku , fréttariti Sambands íslenskra rafveitna, 4. tbl., 1. árg., desember 1989, er viðtal við Kristján Haraldsson, orkubússtjóra Vestfjarða. Þar segir m.a.:
    „Það er brýn nauðsyn til að ná frekari jöfnun í húshitunarkostnaði landsmanna strax og ég skora á alla þá sem einhvers mega sín að leggja þessu máli lið.
    Lesendur góðir. Við skulum minnast þess að ef við ætlum að lifa sem ein þjóð í þessu landi, í sátt og samlyndi, þá verður að skipta gæðum landsins sem jafnast meðal allra íbúanna.“
    Kristján Jónsson, rafmagnsveitustjóri ríkisins, segir svo í formála fyrir ársskýrslu Rafmagnsveitna ríkisins 1988:
    „Dreifing raforku og hagkvæm nýting hennar er undirstaða velferðarþjóðfélagsins. Nánast allir hlutir bæði í atvinnulífi og á heimilum eru háðir raforkunni. Gæði raforkunnar og þjónustan í dreifingunni eru því lykillinn að betra mannlífi.“
    Hér er fast að orði kveðið, en þó ekkert ofsagt. Það sýnir og sannar hversu nauðsynlegt það er og aðkallandi að allir landsmenn hafi aðgang að þessum gæðum á sambærilegu og viðhlítandi verði hvar sem þeir eiga heima í byggðum landsins. Enn vantar mikið á að landsmenn sitji allir við sama borð hvað húshitunar- og orkukostnað varðar. Enn eru fluttar fyrirspurnir, tillögur og frumvörp um þessi efni. Allir eru næsta sammála, en lítið miðar áleiðis að því marki sem hægt er að una við og allir geta séð og stefnt að sem vilja.
    Af framansögðu má ljóst vera að allir stjórnmálaflokkar eru hlynntir því að jafna orkuverð til landsmanna að ekki sé meira sagt. En vera má að það vefjist fyrir mönnum á hvern hátt það skuli gert. Þar koma vafalaust fleiri en ein leið til greina. Nefna má að fyrir þessu þingi liggur frumvarp til laga um breyting á lögum um Landsvirkjun. Það er 264. mál þingsins. Þar er gert ráð fyrir því „að smásöluverð fyrir hverja tegund afnota verði hvergi meira en 5% hærra en vegið meðaltal á landinu öllu“, sjá nánar þskj. 470.
    Til nánari skýringa fylgir hér með bréf svæðisrafveitustjóra á Vesturlandi, dags. 30. janúar 1990, ásamt línuriti um húshitunartaxta og sérstök hugleiðing um raforkuverð.


Fylgiskjal I.


Bréf svæðisrafveitustjóra á Vesturlandi til 2. þm. Vesturlands.


(30. janúar 1990.)



    Nú liggur fyrir skipting húshitunartaxtans C1 og D1 samkvæmt forsendum þeim sem gengið er út frá miðað við 1. febrúar 1990. Eins og sést á þessu súluriti er kWh á þessum töxtum miðað við gefnar forsendur seld á 3,03 kr. og er þá hlutur notenda 2,40 kr. og niðurgreiðslur úr ríkissjóði 0,63 kr. sem aðeins fylgir C1 og þá upp að 40.000 kWh. Eftir það er C1 taxtinn óniðurgreiddur og heitir þá D1.

    Tilkostnaður RARIK aftur á móti er
3,38 kr. á kWh
    sem er vegna orkukaupa frá LV og tapa
2,45 kr. á kWh
    og vegna tapa í stofnlínukerfi RARIK
0,73 kr. á kWh
    og vegna tapa í innanbæjarkerfum RARIK
0,20 kr. á kWh

    Vert er að geta þess að frá 1980 hefur tap í kerfum RARIK minnkað úr 18% í um 10%. Samkvæmt þessum niðurstöðum er ljóst að RARIK leggur með hverri kWh, sem seld er til húshitunar, 0,35 kr. á kWh sem er sem næst 70.681.000 kr. á ári en áætluð hitasala á árinu 1990 er 201.946 mWh.
    Ekki hef ég borið saman verð á olíu annars vegar og rafmagni hins vegar, en víst er að olíuverð hefur farið hækkandi og er það ástæða þess að Landsvirkjun lækkaði afslátt til húshitunar um 0,155 kr. á kWh frá og með 1. febrúar 1990. Það þýðir um 40.000.000 kr. útgjaldaauka fyrir notendur RARIK eða um 6.200 kr. á notanda. Ég hef ekki neina einfalda leið að benda á til lækkunar á orkuverði en helst virðist það leiðin að Landsvirkjun lækki heildsöluverð verulega, en sem stendur er verðið til rafveitna nú yfir 50% hærra en langtímajaðarkostnaður.
    Telja verður þessa verðlagsþróun og verðlagningu mjög varhugaverða gagnvart rafveitum og þá sérstaklega gagnvart RARIK þar sem samþykkt fjárlög gera ráð fyrir 454.000.000 kr. halla þótt skuldum hafi verið létt af fyrirtækinu og því gert að standa fyrir rekstri og nýframkvæmdum án lántöku.
    Vona ég að farsæl niðurstaða fáist við þá umræðu sem fram undan er og að orkukaupendur á hinum „köldu svæðum“ fái rétt sinn hlut miðað við orkukaupendur á hagstæðum hitaveitusvæðum. Hætt er við enn frekari búseturöskun en hana má m.a. rekja til orkukostnaðar.

Húshitunartaxti C1, tekjur og


tilkostnaður RARIK 1. febrúar 1990.












REPRÓ Í PRENTSMIÐJU






Fylgiskjal II.


Ásgeir Þór Ólafsson,
svæðisrafveitustjóri á Vesturlandi:



Hugleiðing um raforkuverð.



    Nú um nokkurt skeið hefur umræða um hátt raforkuverð og þá helst til húshitunar verið í fjölmiðlum og manna á milli.
    Þessi umræða er mjög nauðsynleg. Menn verða að gæta þess að skipulag raforkuframleiðslu og dreifingar er mjög ákveðið. Landsvirkjun ein hefur rétt til að virkja stærri virkjanir og sjá þeir einnig um dreifingu raforkunnar um byggðalínukerfið hringinn í kringum landið. Þar taka við sveitarfélagarafveitur, Rafmagnsveitur ríkisins, Hitaveita Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða.
    Nú má spyrja hvað ráði verði raforku til t.d. húshitunar. Grunnur verðs til notenda er heildsöluverð framleiðanda sem er Landsvirkjun og hvernig er háttað verðlagningu frá framleiðanda? Í flestum löndum er notuð aðferð sem kölluð er „langtímajaðarkostnaður“ (LTJ) og það er það verð sem þarf að fá til að standa undir fjárfestingum framleiðslu- og flutningskerfis viðkomandi fyrirtækis miðað við eðlilegan afskriftartíma og arðsemi fjármagnsins. Það sem er að gerast varðandi verðlagningu raforkunnar frá Landsvirkjun er að verð til rafveitnanna er 55% hærra en LTJ og er stefna Landsvirkjunar skýrð í ræðu Jóhannesar Nordal, stjórnarformanns Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í apríl 1988 og vitnar hann þar til upplýsinga sem hann birti á ársfundi 1986. 1 )
    Þegar stefnan er sú að greiða lánin hratt, greiða arð af stofnframlagi eigenda og jafnvel að greiða arð af eigin fé þá hljóta menn að spyrja hvort ekki þurfi að staldra aðeins við.
    Hvernig er háttað markaðsöflun Landsvirkjunar til aukinnar raforkusölu? Árið 1988 veitti Landsvirkjun rafhitanotendum afslátt, 31 eyri á kWh, sem skilaði sér beint til notenda. Nú hefur þessi afsláttur verið lækkaður um 50% frá 1. febr. nk. vegna verðhækkunar á olíu. Þessi hækkun raforkunnar til hitunar mun trúlega koma fram á raforkureikningum rafhitanotenda sem þýðir hækkun upp á u.þ.b. 6.200 kr. á ári miðað við 40.000 kWh notkun.
    Stjórn Landsvirkjunar samþykkti 25. júní 1987 ályktun um nýtingu tímabundinnar umframorku. 2 )
    Þessi ákvörðun var ekki á sömu forsendum byggð og afsláttur til rafhitunar og ekki ætlaður sömu notendum því þeir samningar, sem gerðir voru og gerðir verða, eiga að gilda til 1. september 1992. Sem dæmi um þennan afslátt var frétt í Morgunblaðinu 13. október 1987 þar sem segir að Íslandslax hf. fái afslátt upp á 8.700.000 kr. á ári miðað við notkun þeirra. Jafnframt er vitnað til framkvæmdastjóra fjármálasviðs Hitaveitu Suðurnesja sem segir: „ ... eins og reglurnar eru sniðnar mun aðeins eitt annað fyrirtæki geta farið fram á hliðstæðan afslátt og er það Lindalax hf. þegar full framleiðsla verður komin í gang þar“.
    Í ljósi þessa má spyrja hvort Landsvirkjun hafi með þeim reglum, sem vitnað er til, stuðlað að óraunhæfum vexti í fiskeldi og síðan hafi fyrirtæki orðið fyrir stórfelldum gjaldþrotum í seinni tíð. Hvaða áhrif hefur þessi stærðargráða fiskeldisfyrirtækja haft á uppbyggingu háspennudreifikerfis Hitaveitu Suðurnesja og á verð raforku til annarra notenda þeirra?
    Í þessum hugleiðingum er ég fyrst og fremst að benda á þá stefnu Landsvirkjunar í verðlagningu á raforku sem er allt of frjálsleg, kröfurnar um arðsemi fjármagnsþjónustufyrirtækis allra landsmanna of miklar og áherslur þeirra í markaðsmálum rangar. Ekki er hægt að finna tryggari markað en rafhitamarkaðinn um allt land, t.d. selja Rafmagnsveitur ríkisins um 60% allrar raforkunnar til húshitunar, en eins og menn eflaust vita keypti RARIK um 18,5% framleiðslu Landsvirkjunar árið 1988, en Landsvirkjun hafði um 28% tekna sinna frá viðskiptunum við RARIK það árið.


1 )    „Með tilliti til þessara sjónarmiða hefur stjórn Landsvirkjunar miðað við þá meginreglu að undanförnu að reynt yrði að endurgreiða á ári hverju 1 / 20 af útistandandi skuldum í byrjun árs. Þegar haft er í huga að á móti þessum endurgreiðslum koma lán vegna nýrra framkvæmda benda áætlanir til þess að unnt verði með þessum hætti að lækka núverandi skuldir Landsvirkjunar meir en um nálægt 30% til næstu aldamóta ef ekki koma til neinar virkjunarframkvæmdir vegna stóriðju.
    Jafnframt mun þessi stefna ásamt eðlilegri arðgjöf tryggja að hægt verði að halda áfram að lækka raunverð raforku á almenna markaðinum þannig að sú 3% meðaltalslækkun á ári út þessa öld, sem ég ræddi um fyrir tveimur árum, nái fram að ganga. Vissulega væri hægt að lækka raforkuverð meira þegar í dag með því að draga úr endurgreiðslum lána eða jafnvel safna skuldum, en sú stefna mundi bráðlega hefna sín í hærri vaxtabyrði og mun óhagstæðara raforkuverði í framtíðinni.“

2 )    „Stjórn Landsvirkjunar telur vænlegt að nýta tímabundna umframorku fyrirtækisins til að efla nýjar íslenskar útflutningsgreinar sem byggja á mikilli notkun raforku í samkeppni við hliðstæða framleiðslu erlendis. Þetta verði gert með því að veita hlutaðeigandi framleiðslufyrirtækjum tímabundinn afslátt frá gjaldskrárverði, enda noti þau minnst 1 gWh rafmagns á ári. Stjórnin felur forstjóra að leita eftir samningum við slík fyrirtæki um orkuviðskipti og hlutaðeigandi rafveitur um orkuflutning. Við gerð þessara samninga skal leitast við að tryggja að þeir verði til þess að bæta stöðu fyrirtækja í uppbyggingu þannig að hagkvæm nýting raforku til útflutningsframleiðslu geti aukist hraðar og meir en ella.
    Samningar skulu háðir samþykki stjórnar Landsvirkjunar hverju sinni og falla úr gildi 1. september 1992. Eigi síðar en tveimur árum áður en þeir eiga að falla úr gildi og að teknu tilliti til framleiðslugetu raforkukerfisins og eftirspurnar eftir raforku tekur Landsvirkjun afstöðu til þess hvort lengja skuli gildistímann.“