Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 135 . mál.


Sþ.

140. Tillaga til þingsályktunar



um fræðslu í fjármálaumsýslu í skólum.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta semja námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir 10. bekk grunnskólans og framhaldsskólann og gera fræðslu um hana að skyldunámsgrein í efsta bekk grunnskólans og kjarnagrein í framhaldsskólanum.
    Markmið fjármálafræðslunnar verði:
     að taka til meðferðar sem flest er við kemur almennri fjármálaumsýslu, þar með talið gerð greiðslu- og kostnaðaráætlana, og setja efnið þannig fram að það verði öllum aðgengilegt og skýrt,
     að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og um leið fjárskuldbindingar, með því m.a.:
         
    
     að kynna nemendum meðferð greiðslukorta og notkun tékkhefta,
         
    
     að kynna nemendum almennar reglur um lántökur, svo sem víxla- og skuldabréfaviðskipti, vaxtamál og hvaða ábyrgð felst í því að gerast ábyrgðarmaður á skuldaviðurkenningum,
         
    
     að tengja þessi námsgögn réttindum og skyldum manna er þeir verða fjárráða.

G r e i n a r g e r ð .


    Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að því að ungt fólk verði betur búið undir þá fjármálalegu umsýslu sem nútímaþjóðfélag krefst af hverjum einstaklingi. Hin síðari ár hefur mikið verið fjallað um greiðsluerfiðleika fólks og á 112. löggjafarþingi voru fluttar tillögur til þingsályktunar bæði um könnun á alvarlegum fjárhagsvanda fólks og vænlegum aðgerðum til úrbóta og eins um aðstoð við gjaldþrota fólk og eignalaust.
    Umfjöllun um greiðsluerfiðleika hefur oft tengst húsnæðisöflun og hefur Húsnæðisstofnun ríkisins m.a. veitt sérstök lán vegna greiðsluerfiðleika. Eins og fram hefur komið í skýrslum er vandi þeirra sem lenda í greiðsluerfiðleikum af ýmsum toga. Oft er hann vegna ytri aðstæðna, í öðrum tilvikum hefur verið um offjárfestingu að ræða sem rekja má til vanþekkingar á meðferð fjármála, kostnaðar- og greiðsluáætlanir hafa ekki verið gerðar eða ekki eftir þeim farið. Áður fyrr taldist það til undantekninga að fólk væri lýst gjaldþrota nema þegar um fyrirtækjarekstur var að ræða en á síðari árum hefur þetta breyst. Stöðugt fleiri einstaklingar hafa orðið gjaldþrota, m.a. vegna húsnæðiskaupa og jafnvel vegna neysluskulda. Þá hefur það aukist mjög að einstaklingar sem gerst hafa ábyrgðarmenn á skuldum vina og vandamanna hafa misst eigur sínar vegna þess að lántakandi hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar.
    Það sem er alvarlegast í þessu efni er hve ungum þrotamönnum fjölgar ört. Samkvæmt upplýsingum borgarfógetaembættisins voru á tímabilinu 1. janúar til 31. ágúst á þessu ári tekin til gjaldþrotaskipta 588 bú, þar af voru bú félaga 145 en bú einstaklinga 443.
    Aldursskipting þeirra er hér um ræðir er samkvæmt upplýsingum embættisins sem hér segir:

    Þrotamenn fæddir 1969 og síðar
17

    Þrotamenn fæddir 1966 1968
46

    Þrotamenn fæddir 1961 1965
76

    Þrotamenn fæddir 1951 1960
139

    Þrotamenn fæddir 1950 og fyrr
165

    Samtals
443


    Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni að á ekki lengri tíma en átta mánuðum skuli 139 einstaklingar 29 ára og yngri vera lýstir gjaldþrota og þar af 63 yngri en 24 ára. Bara þessar tölur frá embætti borgarfógeta segja okkur að mikil þörf er á að auka fræðslu um almenna fjármálaumsýslu og það er skoðun flutningsmanns að sú fræðsla eigi að hefjast í efsta bekk grunnskólans og síðan eigi að fylgja henni eftir í framhaldsskóla.