Efling íþróttaiðkunar kvenna

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 15:48:00 (5554)


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ólíkt þykir mér betra að vera í ræðustól á Alþingi og ræða um íþróttir en að vera hér í næsta húsi að dreypa á kokkteil.
    Vegna orða hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjargar Pálmadóttur, sem kemur nú frá þekktasta íþróttabæ landsins þar sem ég held nú að ríki töluvert jafnræði milli kynja í uppbyggingu íþrótta, þá vil ég segja að ég gat ekki heyrt annað en við værum að mætast á miðri leið því að hún sagði í sínu máli að ef tillaga kæmi fram sem gengi í þá átt að efla íþróttir karla þá mundi hún hiklaust skrifa upp á hana. Ég held að hún hafi orðað þetta eitthvað á þá leið. Þetta er í sjálfu sér alveg nákvæmlega það sama og ég sagði áðan. Tillagan hefði kannski frekar átt að vera um eflingu íþróttaiðkana yfir höfuð bæði fyrir konur og karla. Til hvers þurfum við tvær tillögur ef við styðjum hvort tveggja? Af hverju ekki að gera eina úr þessari og breyta henni í nefndinni í þá veru? Ég held að ekkert ýkjalangt sé á milli okkar. Öll höfum við áhuga á eflingu íþróttaiðkunar og því hvet ég hv. nefnd til að athuga þetta.
    Ég ætla ekki að ræða val á íþróttamanni ársins og af hverju það var kvenmaður nú en ekki í fyrra eða hittiðfyrra. Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að ræða það. Yfirleitt hefur álit manna verið nokkuð samhljóða þegar kjör hefur farið fram. Ég ætla heldur ekki að eyða löngum tíma í það hvort bikarleikir í meistaraflokki kvenna, úrslitaleikir, eigi að fara fram á aðalvellinum í Laugardal eða ekki. Ég held að aðsókn að kvennaleikjum sé það lítil að það hefur sýnt sig að vellirnir hafa ekki skipt máli. Meistaraflokkur Vals í knattspyrnu kvenna spila á sama velli og meistaraflokkur karla. Það kemur nánast enginn að horfa á leik kvennanna en fjöldi manns kemur að horfa á leikinn hjá karlmönnum. Þarna er sami völlurinn, sama aðstaðan. Sama gildir uppi á Skaga þaðan sem hv. þm. kemur. Ég held því að ekki sé hægt að tala um völlinn í þessu tilfelli enda spila t.d. unglingalandsliðin, 21 árs, 18 ára, 16 ára á sömu völlum og þessir úrslitaleikir fara fram. (Gripið fram í.) Nei, nei og hefur heldur ekki breytt neinu þó að það væri á öðrum velli. Ég held að við ættum ekki að eyða miklum tíma í þetta.
    Staðreyndin er hins vegar sú að þau fjárframlög, sem koma frá ríkinu í dag, eru sáralítil og þau breyta í rauninni engu. Ef ég man töluna rétt, án þess að hafa flett upp á henni, held ég að þetta sé eitthvað um 25 millj. sem fara til ÍSÍ, það er nálægt þeirri tölu alla vega. Þessari upphæð er ÍSÍ ætlað að deila upp á milli allra sérsambandanna sem eru yfir tuttugu og hvert samband hefur fjöldann allan af deildum og margar deildir skiptast svo í kvenna- og karladeildir. Menn sjá það fyrir sér að þessir peningar eru engir. Þær tekjur sem íþróttafélögin hafa í dag, eins og áður hefur komið fram og kom líka fram hjá hv.

1. flm., eru t.d. lottótekjurnar. En þær eru afar litlar líka vegna þess að þær fara í gegnum sama ,,prósess``, þær skiptast eins. Þær tekjur sem eitthvað munar um eru fyrst og fremst auglýsingatekjur í leikskrám, á búningum, auglýsingaskilti á völlum og samningar við sjónvarpsstöðvar. Getraunir skipta verulegu máli. Stærsti liðurinn er þó áhorfendur og það er til hagsmuna fyrir bæði konur og karla. Þess vegna má segja að þetta sé eins og fyrirtæki. Ef menn hafa góða söluvöru reyna þeir auðvitað að auka söluna á henni til að afla meira fjár til að geta byggt undir hliðarvöruna sem þú vilt gera frambærilega líka. Þetta er nákvæmlega sama markmiðið. Þess vegna eigum við ekki að skera niður af þeirri tekjulind sem karlaíþróttirnar eru til þess að efla kvennaíþróttirnar heldur eigum við að finna aðrar leiðir og það getur vel verið að leiðin sé sú að óska eftir meiri fjárframlögum frá ríkinu en það verður að vera í verulega auknum mæli svo að það skipti einhverju máli. Hins vegar er mín skoðun að það eigi að vera nánast einu afskipti ríkisvaldsins af íþróttahreyfingunni, að hún styðji með fjárframlögum en hún skipti sér ekki að öðru leyti af uppbyggingu eða starfi íþróttahreyfingarinnar. Það eiga hin frjálsu félagasamtök að sjá um. En það er mjög gott og vel þegið ef allir þessir fjórtán þingmenn styðja tillögu næsta haust um að efla Íþróttasjóð og finna kannski sérstakan farveg til að efla íþróttaiðkun kvenna. Það tel ég gott mál og fagna slíkri tillögu þegar hún kemur fram.
    Ég vil að það komi hér fram, af því að rætt hefur verið um almenningsíþróttir, að ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan ÍSÍ stofnaði sérsamband um almenningsíþróttir sem þeir gerðu á merkum degi, afmælisdegi þeirrar heyfingar. Það er því verið að taka á þeim þætti og nokkuð myndarlega ef ég þekki forustumenn þeirrar hreyfingar rétt.
    Ég veit ekki hvernig fjárframlögum ríkisins í dag er skipt milli kvenna og karla. Þau eru það lítil að ég held að það taki því ekki að eyða tíma í að finna það út. En hins vegar, eins og tillögutextinn er hér, er varla hægt að lesa þetta öðruvísi en verið sé að ætlast til að jöfn skipting sé þarna á milli.
    Hv. 11. þm. Reykn. kom inn á forvarnastarfið, sem er auðvitað afar mikilvægur þáttur í öllu íþróttastarfinu og þarf varla að eyða mörgum orðum í hér, svo oft höfum við farið yfir það. Ég vil engu síður láta það koma fram að Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála gengst núna fyrir könnun á gildi íþrótta, ekki bara með tilliti til áfengisneyslu, vímuefnaneyslu, tóbaksreykinga eða annars slíks heldur er þetta mjög útvíkkað og það með tilliti til námsárangurs, til heilbrigðis, til fæðis, til svefns og til alls konar slíkra hluta sem verður afar athyglisvert að glugga í þegar þær niðurstöður liggja fyrir.
    Ég hafði þau orð um greinargerðina að þar væri teflt á tæpasta vað og hún bæri keim af því að talað hefði verið við óánægt fólk sem stundum setur fram hluti sem það hefur ekki skoðað vel og veit ekki hvernig eru í raun og veru. Það er afar erfitt að taka þessa greinargerð og ætla sér að segja að allt sé rétt og satt sem þar stendur. Reyndar eru atriðin sem ég geri athugasemdir við í greinargerðinni fleiri en þau sem ég geri ekki athugasemdir við. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég held að forseti sé með sekúnduvísinn á mér en ekki mínútuvísinn. Þetta gengur ekki. ( Gripið fram í: Þetta er klukkutímavísirinn.)
    Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan koma á framfæri mínum athugasemdum við greinargerðina og ég mun gera það við hv. 1. flm. till. frekar en missa af því að mínar athugasemdir komist til skila.