Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 15:04:52 (5632)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get vel skilið að þetta er mjög viðkvæmt mál fyrir hæstv. utanrrh. En staðreyndin er hins vegar sú að honum tekst ekki að útskýra hlutina eftir á með þeim hætti sem hann reyndi. Við erum allt of margir hér í þingsalnum sem höfum allt of oft hlustað á hann útskýra við ríkisstjórnarborðið þegar við sátum þar saman að á lokastigum viðræðna um EES yrði málum hagað þannig að sjávarútvegskröfur Íslendinga yrðu í höfn áður en samningurinn yrði í höfn.
    Sjávarútvegsmál Íslendinga eru ekki í höfn, hæstv. utanrrh. Það er alveg ljóst. Það er þess vegna sem viðræðufundur er núna úti í Brussel, það er þess vegna sem annar fundur verður eftir hálfan mánuð og síðan þriðji fundurinn þar á eftir og síðan mun það taka nokkra mánuði, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, að reyna að ná niðurstöðum í þær viðræður af því að þær eru svo flóknar og erfiðar. Það er margra vikna og mánaða verk að ná landi í þeim málum. Þótt ég sé ekki kunnugur því viðræðuborði veit ég að það vefst mjög fyrir mönnum hvort samþykkja á að Evrópubandalagið komi hér inn með sinn flota til að veiða án þess að Íslendingar fái að veiða nokkra nýja viðbótarloðnu. Það er einn af erfiðu þáttunum í þessum viðræðum og þess vegna er það auðvitað kjarni málsins að sjávarútvegssamningur liggur ekki fyrir.
    Ég hlýt hins vegar að harma það að skilja mátti orð hæstv. utanrrh. áðan um að ríkisstjórnin ætlaði að beita sér gegn tillögum stjórnarandstöðunnar um það að óháðir aðilar skoðuðu það hvort samningurinn stenst stjórnarskrána eða ekki. Hæstv. utanrrh. hefur sjálfur valið fjóra menn. Ég get sagt ýmislegt um þá einstaklinga en sumir þeirra eru starfsmenn ráðherranna og háðir þeim með margvíslegum hætti. Tillaga okkar er hins vegar um það að óháðir aðilar, Dómarafélagið, háskólinn og aðrir velji sérfræðingana. Ef það mátti skilja hæstv. utanrrh. þannig hér áðan að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætli að koma í veg fyrir það að óháðir fulltrúar háskólans, Dómarafélagsins og Lögmannafélagsins fái að meta þetta atriði, þá eru það mjög alvarleg tíðindi. Ef ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar bæði að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og einnig koma í veg fyrir það að fulltrúar óháðra og fræðilegra aðila fái að meta það hvort samningurinn stenst stjórnarskrána eða ekki, ef það er veruleikinn þá er alveg greinilegt að ríkisstjórnin telur sig hafa vondan málstað að verja í þessu máli fyrst hún þorir hvorki að láta þjóðina dæma í þjóðaratkvæðagreiðslu né óháða, sjálfstæða sérfræðinga dæma á faglegum grundvelli.