Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala hér aftur, enda tel ég að það sé búið að orða óskirnar til hæstv. forseta nægilega skýrt í þessari umræðu. En þegar hæstv. ráðherrar koma hér upp og fara með ósatt mál í vörn sinni fyrir það sem hér er að gerast, þá er auðvitað óhjákvæmilegt að menn komi upp og greini þinginu frá því að ráðherrarnir eru farnir að grípa til þeirrar aðferðar að skrökva í ræðustólnum hvað eftir annað og gera það sem heitir á hversdagslegu máli að ljúga upp á aðra þingmenn til þess að finna einhver rök til stuðnings máli sínu.
    Hæstv. heilbrrh. flutti hér langa lýsingu á því að ég hefði óskað eftir frestun á kosningu manns í bankaráð Seðlabankans vegna þess að Þröstur Ólafsson hefði sagt sig úr bankaráðinu og Alþb. síðan kosið mann í staðinn fyrir Þröst Ólafsson. Það er ekki flugufótur fyrir þessu. Eina skýringin sem ég veit er að hæstv. heilbrrh. hafi dreymt þetta eða þá fengið sér eitthvað af bestukaupalistanum og sé þess vegna farinn að sjá veruleikann í undarlegu ljósi.
    Það vill nú svo til að Þröstur Ólafsson ræddi aldrei við mig úrsögn sína úr bankaráði Seðlabankans og ég er reyndar fyrst að heyra það núna að hann hafi sagt sig úr bankaráði Seðlabankans. Ég hef spurst fyrir um það á skrifstofu þingsins hvort það sé eitthvert bréf um það að hann hafi sagt sig úr bankaráði Seðlabankans og það hefur ekki fundist hér á skrifstofunni. Ég bað þingið að fletta því upp hvort hér hefði einhvern tíma verið á dagskrá þingsins sl. vetur kosning manns í bankaráð Seðlabankans í staðinn fyrir Þröst Ólafsson. Það hefur aldrei verið dagskrárefni hér á þinginu. Lyfin á bestukaupalistanum hafa því greinlega verið sterk. Þetta er bara einhver draumsýn í heilbrrh. að lýsa atburðarásinni með þessum hætti. Þetta hefur aldrei gerst, virðulegi forseti, bara aldrei gerst. Kosningin í bankaráð Seðlabankans var fyrst á dagskrá hér 26. nóvember sl. og síðan fór kosningin fram 28. nóv. Það er að vísu rétt að Alþb. óskaði eftir því að kosningunni frá 26. nóv. yrði frestað til 28. nóv. vegna þess að við vildum ræða við þáv. viðskrh. hvernig yrði með formennskuna í bankaráði Seðlabankans og varaformennskuna. Það var fullburða kosning fulltrúa allra flokka í bankaráð Seðlabankans samkvæmt hlutfallskosningu hér á Alþingi. Það hefur aldrei verið viðfangsefni hvort mitt né þingsins að kjósa mann í staðinn fyrir Þröst Ólafsson í bankaráð Seðlbankans, aldrei, bara ekki til í veruleikanum. Það er auðvitað mjög vont þegar ráðherrar koma hér upp og fara með hreinan hugarburð með þeim myndugleika sem heilbrrh. er tamur. Ég verð að segja við forseta þingsins ef hann er að reyna að leita fordæmis í þessari lýsingu heilbrrh.: Þetta hefur aldrei gerst.
    Í öðru lagi kemur svo fjmrh. og fer með þá lýsingu að ástæðan fyrir því að þingið kaus sér fulltrúa í staðinn fyrir Margréti Björnsdóttur í stjórn Þróunarstofnunar hafi verið trúnaðarbrestur milli mín og hennar. Það er líka algerlega rangt og ekki flugufótur fyrir því. Margrét Björnsdóttir hafði sagt sig formlega úr Alþb., var ekki lengur í flokknum og henni fannst þess vegna eðlilegt fyrst hún var ekki lengur í flokknum sem valdi hana að fulltrúa að flokkurinn veldi annan fulltrúa. Fullkomlega heiðarleg og rétt afstaða og hafði ekkert með mig að gera persónulega, formann Alþb., vegna þess að þessi kosning fór fram eftir að Margrét Björnsdóttir hafði sagt sig úr Alþb. Ef það eru fordæmin sem hæstv.

fjmrh. vitnar til að menn eigi að fara eftir og líkir þessu við það þegar menn segja sig úr stjórnmálaflokkum, þá er það satt að segja harðorðari yfirlýsing á því hvað gerst hefur hjá Sjálfstfl. en við hinir höfum haft uppi í ræðustól. Báðar þessar lýsingar tveggja hæstv. ráðherra á fordæmunum eru þess vegna fullkomlega út í hött.
    Það er vont að hv. þm. Matthías Bjarnason er genginn úr salnum og væri æskilegt að í hann væri náð því að hann fór sem aldursforseti þingsins með föðurlega áminningu til mín og hv. þm. Svavars Gestssonar sérstaklega um það hvernig við ættum að haga okkur gagnvart ráðherrum. Og af því að ég ber mikla virðingu fyrir þessum aldna Ísfirðingi þá þakka ég ábendingarnar. En ég hef líka hlustað í sumar á sýnikennslu Matthíasar Bjarnasonar í því hvernig eigi að tala við ráðherra. Hún er yfirleitt á þann veg að forsrh. hafi dottið á höfuðið, fengið stein í hausinn, hann hafi aldrei heyrt neitt vitlausara og hann ætli ekki að tala aftur við þessa menn, svo að ég fari með eftir minni nokkrar setningar sem hv. þm. Matthías Bjarnason hefur notað í garð ráðherra eigin flokks. Hann sé hættur að tala við þá á þingflokksfundum, hann tali bara við þá í þingsalnum, sagði hann í sumar. Það er einmitt það sem við erum að gera. Við erum að fylgja fordæmi Matthíasar Bjarnasonar og tala við menntmrh. í þingsalnum. En ég þakka hins vegar ábendingarnar.
    Hins vegar vil ég segja forseta það til huggunar að við hér frá stjórnarandstöðunni ætlum ekki að temja okkur ummælastíl Matthíasar Bjarnasonar við ráðherrana í vetur.
    Virðulegi forseti. Að lokum bara þetta: Eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur sagt þá er stjórnarandstaðan að virða hér þau óskráðu lög í þinginu að við stillum ekki upp á móti Sjálfstfl. við þessar kosningar og er sjálfsagt og eðlilegt og hefur aldrei hvarflað að okkur að gera annað. Það hafa líka verið óskráð lög í þinginu að þegar þingmenn tveggja flokka óska eftir frestun á máli sem enga brýna nauðsyn ber til að ljúka á þeim degi er orðið við þeirri frestun hvað sem öðrum þingmönnum finnst um ástæðurnar. Þetta hafa verið óskráð lög, virðulegi forseti, og það væri mjög vont ef nú ætti að fara að brjóta þessi óskráðu lög af forseta þingsins. Þess vegna vil ég biðja þá forustu Sjálfstfl. sem hér situr að vera ekki að setja þessar þvinganir á forsetann og samþykkja að líkt og við virðum þau óskráðu lög að Sjálfstfl. hafi rétt til þess að tilnefna, þá virði þeir líka þau óskráðu lög að það sé orðið við óskinni um frestun svo að við getum átt hér orðastað við menntmrh.