Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 14:24:00 (2186)

     Ólafur Ragnar Grímsson :

     Virðulegi forseti. Það er greinilega farið að hitna undir utanrrh. Það er nokkuð langt síðan hann hefur verið svona hérna í stólnum. Það er gott að það eru einhverjar glæður enn þá til, diplómatíið er ekki alveg búið að slökkva á þeim öllum.
    Ég ætla fyrst að taka punktinn ,,Veit hv. þm.?`` --- Já, það vill svo til að hv. þm. veit, hæstv. utanrrh., en ég er ekki viss um að ríkisstjórnin viti. Það vill svo til að hv. þm. veit að þjóðhagsspáin sem er að koma núna fyrir næsta ár sýnir einmitt stórkostlegt tekjufall miðað við forsendur fjárlaganna við 2. umr. Það vill svo til að ég veit, hæstv. utanrrh., að innheimtutölurnar fyrir virðisaukaskatt í nóvembermánuði sýndu einn milljarð í mínus frá upphaflegari áætlun. Einn milljarð í mínus á einum mánuði frá upphaflegri áætlun. Það vill svo til að ég veit, hæstv. ráðherra, að ríkisstjórnin verður nú að taka fjárlagafrv. upp á nýjan leik.
    En fjmrh. hefur ekki sagt okkur frá því, hæstv. utanrrh. Ég stóð hér í nótt kl. 3 og spurði hæstv. forsrh. einmitt um þessi atriði en hæstv. forsrh. sagði okkur ekki frá því, hæstv. utanrrh. Kannski veit hann það ekki enn, hæstv. utanrrh., þó að við vitum það. Við vitum það nefnilega að eins og fjárlagafrv. stefnir núna við 3. umr., miðað við endurskoðaða tekjuspá í ljósi nýrra upplýsinga frá Þjóðhagsstofnun og fjármálaráðuneyti og miðað við, --- ég skil ósköp vel af hverju ráðherrann fer út úr salnum ( Utanrrh.: Ég heyri enn til þín.) --- það sem er að gerast í afgreiðslu fjárlaganna á útgjaldahlið í fjárln., þá er alveg ljóst að núna stefnir fjárlagafrv. í lágmark 7--8 milljarða halla á nýjan leik þannig að ríkisstjórnin þarf núna á næstu þremur til fjórum sólarhringum að koma með nýjar aðgerðir upp á a.m.k. 3--4 milljarða til að halda við sín upphaflegu áform um að fjárlagahallinn sé undir 4 milljörðum. Ég veit þetta, hæstv. ráðherra, ( Fjmrh.: Gott.) Gott, segir hæstv. fjmrh. Nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh., veit ríkisstjórnin þetta? ( Utanrrh.: Já, já.) Og hvenær vissi hún þetta? Hvenær vissi hún þetta, hæstv. utanrrh.? ( Utanrrh.: Hún veit þetta.) Hvenær vissi hún það? ( Utanrrh.: Enda hefur hv. þm. upplýsingar sínar frá henni.) Frá ríkisstjórninni! Nei, nei, það er mesti misskilningur. Þær eru frá stofnununum í stjórnkerfinu en ekki ríkisstjórninni. Við stóðum hér eftir miðnættið í nótt og spurðum hæstv. forsrh. Það var alveg greinilegt að hann vissi ekki neitt vegna þess að hæstv. forsrh. sagði í nótt milli kl. 1 og 2 á þessum sólarhring, hæstv. utanrrh., að ríkisstjórnin stefndi enn að því, að afgreiða 3. umr. fjárlaga á morgun. Það sagði forsrh. hér milli kl. 1 og 2 í nótt og það er skiljanlegt að augabrýrnar lyftist á hæstv. utanrrh. við þau tíðindi. Forsrh. sagði það árla þessa sólarhrings en hæstv. utanrrh., sem verið hefur fjmrh., veit jafn vel og ég að það verður ekki. Þetta fjárlagafrv. verður ekki afgreitt hér á morgun og ekki hinn og ekki daginn þar á eftir og ekki í þessari viku. Það er alveg ljóst vegna þess að frv. er orðið þannig á vegi statt að í því er í dag raunverulegur halli sem er aldrei undir 7 milljörðum. Þannig að ef hæstv. utanrrh. vill fylgja fram þeirri línu sem hann var að tala fyrir þá stendur hann í þeim sporum að halda aftur næturfundi í ríkisstjórninni og koma aftur með aðgerðir upp á u.þ.b. 3 milljarða út úr þeim næturfundum núna á næstu tveimur til þremur sólarhringum nema hæstv. ríkisstjórnin vilji fara að þeim ráðum, sem við fluttum forsrh. í nótt, að taka hlé á þingstörfum meðan hæstv. ríkisstjórn áttaði sig á stöðunni.
    Hver er staðan? Við skulum fara aðeins yfir þetta, hæstv. utanrrh., bara svona til að sýna þér að við vitum nokkuð hvernig mál eru á vegi stödd.
    Í fyrsta lagi er Þjóðhagsstofnun að koma með endurskoðaða tekjuspá fyrir næsta ár og sem fjmrn. verður að beygja sig undir sem þýðir minni tekjur fyrir ríkið í fjárlögum næsta árs sem nema aldrei minna en 1--2 milljörðum frá því sem fjárlagafrv. stóð eftir 2. umr. Ég ætla ekki að segja töluna nákvæmlega en hún er aldrei undir rúmum 1 milljarði og jafnvel hátt upp í annan milljarð eða jafnvel yfir 2 eftir því hvar í skekkjumörkunum menn vilja vera.
    Síðan sturtaði fjmrh. hér út í nótt nokkur hundruð millj. með því að ákveða að fresta frv. um skattlagningu innlánsstofnana þangað til eftir áramót, þannig að ekki er hægt að reikna með því í tekjuhlið fjárlaganna. Þá er alveg ljóst að þau önnur tekjufrv. sem hér

eru inni fara auðvitað ekki í gegnum þingið alveg óbreytt miðað við það sem þau standa í dag og ég ætla nú að vera hógvær og segja að það fari kannski 100--200 millj. þar út. Það getur orðið miklu meira. Þá erum við á tekjuhliðinni lágmark komin í rúma 2 og upp í 2,5 milljarða sem eru núna að fara út af tekjuhlið fjárlaganna. Hvað er að gerast gjaldamegin? Jú, gjaldamegin er það að gerast að Össur Skarphéðinsson og félagar hrósa sigri í skólagjöldunum og ætti nú hæstv. utanrrh. að rifja það upp sem hann sagði í stefnuræðunni og stendur í þingtíðindunum, að þeir sem væru á móti skólagjöldum væru kommúnistar, orðrétt, hæstv. utanrrh. Það er Jafnaðarmannaflokkur Íslands, K-deildin, sem búin er að pína það fram að a.m.k. tæpar 200 millj. fari inn á gjaldahliðina þar.
    Síðan er alveg ljóst að tillögurnar í sjúkrahúsmálunum á höfuðborgarsvæðinu og í heilbrigðiskerfinu eru allar upp í loft, þannig að það verður að bæta nokkur hundruð millj. þar inn bara til að geta haldið þeim forsendum sem heilbrrh. hefur sjálfur kynnt.
    Í vegamálunum á eftir að knýja það fram að stjórnarliðarnir hér á Alþingi samþykki niðurskurð í vegamálum upp á 1.100 millj. á næsta ári. Það er verst að hv. þm. Egill Jónsson skuli vera farinn úr salnum og hættur að hlæja. Það má vel vera að ríkisstjórninni takist að pína stjórnarliðanna hér til að skera vegamálin niður um 1.100 millj. á næsta ári. Við skulum segja að það takist þannig að við skulum ekki bæta þar inn í á gjaldahliðinni.
    Háskóli Íslands tilkynnti það í dag að hann muni loka fyrir nýnemendur á næsta ári ef hann fái ekki viðbótarfjármagn inn í fjárlögin.
    St. Jósefsspítali er eftir. Ég sat á fundi þar sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, núv. formaður efh.- og viðskn., lýsti því yfir í Hafnarfirði fyrir nokkrum dögum síðan að það yrði séð um það. Það yrði séð um að tryggja viðbótarfjármagn í St. Jósefsspítala. Á gjaldahliðinni er því aldrei undir svona 500--1.000 millj. bara miðað við þær ákvarðanir sem nú þegar er búið að taka sem verður að setja þar inn. Þannig að við erum með 3.000--3.500 millj. sem til viðbótar er fjárlagavandi ríkisstjórnarinnar milli 2. og 3. umr. í fjárlögunum, hæstv. utanrrh., og þetta vitum við. Ég er hins vegar nokkurn veginn viss um það, hæstv. utanrrh., að ríkisstjórnin gerir sér ekki grein fyrir því og ég hafði miklar efasemdir um það að hæstv. forsrh. hefði hugmynd um þetta í nótt því ég trúi því ekki að forsrh. hefði staðið hér saklaus í ræðustólnum í nótt og lýst því yfir að 3. umr. fjárlaga færi fram á morgun eða fimmtudaginn ef hann hefði vitað þessar staðreyndir. Það má vel vera að ríkisstjórninni hafi verið tilkynnt þetta í morgun á ríkisstjórnarfundinum. Ég veit ekkert um það, en það er alveg augljóst að forsrh. hafði ekki hugmynd um hvernig fjárlögin voru á vegi stödd hér í nótt.
    Vörn hæstv. utanrrh. í ræðustólnum gagnvart því frv. sem hér var til umræðu var annars vegar að segja að ég ætti að fagna því að vera búinn að fá stuðningsmenn vegna þess að þetta frv. sem hér hefði verið flutt hefði verið mitt frv. Það er alveg rétt. Þetta er orðréttur sá texti sem unnið var að í fjmrn. í minni tíð en, hæstv. utanrrh., þá sagðir þú og þitt ráðuneyti að það væri brot á alþjóðasamningum Íslands við löndin í Evrópu að samþykkja slíkt frv. á Alþingi og ég tók eftir því, hæstv. utanrrh., að þú vékst ekki einu orði að því í þinni ræðu, ekki einu orði, hæstv. utanrrh. Við heyrðum engin rök af munni utanrrh. fyrir því hvers vegna nú væri hægt að brjóta alþjóðlega sáttmála og alþjóðlegar skuldbindingar en það var ekki hægt í árslok 1990 vegna þess að rökin um samdráttinn voru gild 1990. Hæstv. utanrrh. man fullvel hvað orðið hafði mikill samdráttur í hagkerfinu árið 1990, 1989 og 1988. Þannig að samdráttarrökin, ef það er það sem ráðherrann ætlar að fara með til EB, voru auðvitað í fullu gildi á árinu 1990. Nauðsyn þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum voru alveg jafnsterk rök árið 1990 og nú. Það eina sem kannski skiptir einhverju máli er þetta með EES. En það vill svo til að hæstv. ríkisstjórnin tók ákvörðun um að flytja þetta frv. áður en Evrópudómstóllinn kvað upp úrskurð sinn í EES-málinu þannig að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að flytja þetta frv. þegar hæstv. utanrrh. var að boða þjóðinni það að EES-samningarnir væru nánast í höfn þannig að það dæmi gengur ekki upp.
    Við vorum satt að segja, hæstv. utanrrh., engu nær um það hvaða rök hæstv. utanrrh. ætlaði að fara með bréflega og í ræðum sínum til Brussel og Genfar í þessu máli nema hæstv. utanrrh. sé kominn á þá skoðun, og það eru vissulega stórtíðindi, að það sé hægt að spila með alþjóðlegar skuldbindingar fram og aftur ef ríkisstjórnin viðkomandi lands telur á því vera efnahagslega nauðsyn. Nauðsyn brýtur lög, sagði hæstv. utanrrh., nauðsyn brýtur alþjóðlegar skuldbindingar og alþjóðlega samninga. Það er merkileg lína frá utanrrn. Hún var ekki í gildi þegar við vorum saman í ríkisstjórn, að hægt væri að slíta í sundur lögin og slíta í sundur alþjóðlega samninga bara af því að hart væri í ári. Er þá hægt að gera það fyrir Sjálfstfl. að slíta í sundur alþjóðlega samninga og alþjóðleg lög þegar það kom ekki til greina þegar við vorum í ríkisstjórn? Er það Sjálfstfl. sem gerir kröfu til að alþjóðasamningar og alþjóðaskuldbindingar séu slitin í sundur? Eða er utanrrn. og þar með hæstv. utanrrh. kominn með þá afstöðu að það sé bara ,,ad hoc`` mat á hverjum tíma í ljósi efnahagsástandsins hvaða alþjóðlegu skuldbindingar haldi og hverjum sé rift? En það er alla vega ljóst að það er í engu samræmi við þá hugmyndafræði sem hæstv. utanrrh. hefur boðað íslenskri þjóð sl. þrjú ár vegna þess að kjarninn í þeirri hugmyndafræði hefur verið að Ísland ætti að gerast aðili að efnahagslegu samstarfi þar sem alþjóðlegir samningar haldi, séu grundvallaratriði hvað sem líður sveiflum í hagkerfum frá einu ári til annars.
    Ég satt að segja hélt að vörn hæstv. utanrrh. yrði burðugri og efnismeiri en hér kom fram. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að ég hef verið fylgjandi þeirri stefnu að setja á jöfnunargjald, það er ekkert nýtt í því. En eins og ég sagði í minni fyrri ræðu: mér urðu á þau mistök að taka hæstv. utanrrh. alvarlega, taka rökin sem utanrrn. flutti alvarlega og taka þá viðleitni ráðherrans um að vilja standa við alþjóðlegar skuldbindingar alvarlega. Ég sé að það hafa bara verið mistök. ( Gripið fram í: Það er nú ekki mikið að gera ein mistök.) Utanrrh. er bara eins og lilli putti spillemann sem segir eitt í dag og annað á morgun hvað snertir alþjóðlegar skuldbindingar. Bréf fyrir ári síðan til Brussel um skuldbindingar íslensku ríkisstjórnarinnar og ræður sem þar voru fluttar og við sáum í fjmrn. að ráðherrann ætlaði að flytja, í dag allt annað. Það er gott að vita að þetta er línan, bara beygja og sveigja alþjóðlegar skuldbindingar eftir því sem hentar ríkisstjórninni á næturfundum við að koma saman fjárlögunum eða hefur þetta verið lengi í undirbúningi, hæstv. utanrrh., að leggja á þetta jöfnunargjald? Ekki var það í fjárlagafrv. þegar það var lagt fram. Það var ekki þar. Þetta barst okkur ekki sem tíðindi fyrr en eftir næturfundinn. Er stjórnarfarið orðið þannig, hæstv. utanrrh., að menn bara slíta í sundur alþjóðlegar skuldbindingar á næturfundum í ríkisstjórninni? Er það til fyrirmyndar? Eru það stjórnarhættirnir sem eru í samræmi við þá nútímabreytingar sem hæstv. ráðherrann hefur talið sig vera fulltrúa fyrir og farið um allt landið og boðað að sé framtíðin, vegabréf inn í 21. öldina, gerið þið svo vel, slíta bara í sundur í alþjóðlegar skuldbindingar á næturfundum? Það er alveg ljóst að það verður að vera ein blaðsíða í því vegabréfi um rétt ríkisstjórna sem eru komnar í kastþröng á næturfundum sínum til að bjarga sjálfum sér til að hafa alþjóðlegar skuldbindingar að engu. Þessi hugmynd um að leggja á jöfnunargjaldið hefur greinilega bara orðið til einhvern tíma milli kl. 10 að kvöldi og kl. 6 að morgni. Og rökin sem hæstv. utanrrh. flutti hér eru auðvitað á engan hátt frambærileg.
    Ég spurði hæstv. utanrrh.: Hvað um bréfið? Það voru meginrökin sem voru flutt þegar við vorum saman í ríkisstjórn að utanrrn. hefði skrifað formlegt bréf til Evrópubandalagsins. Ég óska eftir því, hæstv. utanrrh. að þú leggir það bréf fram hér á Alþingi. Þú leggir það bréf fram í efh.- og viðskn. þingsins svo það liggi alveg skjalfest fyrir hvað sagt var þá og það væri auðvitað æskilegt að hæstv. ráðherra hefði í sér manndóm í þingsalnum til þess víkja einhverjum orðum að þessu bréfi en tali bara ekki eins og allt það sem hann taldi áður höfuðatriði skipti í dag engu.
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að forustumenn atvinnulífsins telja skattastefnu þessarar ríkisstjórnar aðför að atvinnulífinu svo notuð sé fyrirsögn á minnisblaði frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Það hefur komið fram að Verslunarráðið skipuleggur málaferli gegn ríkisstjórninni. Það má vel vera að þeir sem stjórna í dag telji að slíkir stjórnarhættir séu til fyrirmyndar, við gerum það ekki.