Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 436 . mál.


694. Frumvarp til laga



um breytingu á höfundalögum, nr. 73 29. maí 1972, sbr. lög nr. 78 30. maí 1984.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 4. mgr., svohljóðandi:
    Ákvæði 3. mgr. skulu einnig gilda um tölvuforrit.

2. gr.


    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist: Þá skal einnig í þeim tilvikum, þegar verulegur og samfelldur flutningur verka eða umfangsmikil fjölföldun eða útleiga hefur átt sér stað, talið að flutt hafi verið, leigð út eða fjölfjölduð verk sem vernduð eru að höfundalögum nema annað verði í ljós leitt.

3. gr.


    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði 1. mgr. veita ekki rétt til:
    mannvirkjagerðar eftir verki sem verndar nýtur eftir reglum um byggingarlist,
    eftirgerðar verka sem verndar njóta eftir reglum um höggmyndalist, nytjalist eða dráttlist ef leitað er til hennar aðstoðar annarra manna,
    eftirgerðar verndaðra tónverka og bókmenntaverka sé leitað til hennar aðstoðar aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni,
    eftirgerðar verndaðra tölvuforrita.

4. gr.


    Eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
     Eiganda eintaks af tölvuforriti, sem út hefur verið gefið, er, þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 11. gr., heimil gerð eintaka eftir forritinu, þar á meðal til gerðar vara- og öryggiseintaka, sem honum er nauðsynleg vegna nýtingar þess. Slík eintök má ekki nota á annan hátt og réttur til nýtingar þeirra fellur niður ef eigandi ráðstafar frumeintaki sínu til annarra.

5. gr.


    Eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:
     Þeim sem aflað hefur sér heimildar til ljósritunar eða hliðstæðrar eftirgerðar verka til afnota í starfsemi sinni með samningum við samtök höfundaréttarfélaga sem annast hagsmunagæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á því sviði og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skal einnig heimilt, án sérstaks leyfis höfundar hverju sinni, að fjölfalda verk hans með sama hætti þótt höfundur sé ekki félagi í samtökunum. Hver einstakur höfundur getur lagt skriflegt bann við fjölföldun verka sinna samkvæmt þessari málsgrein.
     Höfundaréttarsamtökum skv. 1. mgr. skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og þær vera háðar staðfestingu þess. Samtökin skulu auk samningsaðildar hafa rétt til almennrar innheimtu gjalda fyrir fjölföldun, einnig fyrir þá íslenska höfunda sem standa utan þeirra. Skal í samþykktum samtakanna kveðið á um ráðstöfun tekna vegna fjölföldunar og skulu höfundar, er standa utan þeirra, njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn.
     Höfundaréttarsamtök skv. 1. mgr. ábyrgjast allar kröfur sem fram kunna að koma frá handhöfum höfundaréttar sem ekki eru félagar í samtökunum og réttmætt tilkall eiga til greiðslu fyrir fjölföldun og verða slíkar kröfur aðeins gerðar á hendur samtökunum. Kröfur samkvæmt þessari málsgrein fyrnast á fjórum árum eftir að fjölföldun með réttri heimild var framkvæmd. Ágreiningi um kröfur skal ráðið til lykta af úrskurðarnefnd skv. 57. gr.
     Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Í reglum þessum má m.a. mæla fyrir um að ákvæði greinarinnar skuli, eftir því sem við á, einnig taka til gerðar véllæsilegra eintaka af útgefnum verkum til afnota í tölvubönkum.

6. gr.


    23. gr. laganna orðast svo:
     Þegar útvarpsstöð hefur aflað sér heimilda til útsendinga verka með samningum við höfundaréttarsamtök sem annast samningsgerð um flutningsrétt á bókmenntaverkum eða tónverkum eða sérstökum greinum þeirra fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda og hlotið til þeirrar hagsmunagæslu lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skal einnig heimilt án sérstaks leyfis höfunda hverju sinni að útvarpa verkum hliðstæðrar gerðar þótt höfundur sé ekki félagi í samtökunum. Aðeins einum félagssamtökum í hverri grein bókmennta eða tónlistar verður veitt slík réttargæsluaðild. Höfundar, er standa utan samtakanna, skulu njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn.
     Flutningsheimild útvarpsstöðva skv. 1. mgr. tekur þó einungis til smærri verka, svo sem einstakra kvæða, smásagna, ritgerða, kafla úr stærri verkum, einstakra laga og tónverka ef smá eru, svo og kafla úr stærri verkum. Þá gilda framangreindar reglur um samningsgerð ekki um leiksviðsverk né heldur um verk er höfundur hefur lagt skriflegt bann við flutningi þeirra í útvarpi.
     Höfundaréttarsamtök, sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu skv. 1. mgr., skulu hafa rétt til almennrar innheimtu gjalda fyrir flutningsrétt, einnig fyrir þá höfunda sem standa utan samtakanna, enda hafi þau áður aflað sér umtalsverðra innheimtuumboða frá slíkum höfundum.
     Höfundaréttarsamtökum skv. 1. mgr. skal einnig heimilt að setja gjaldskrá um flutning verka utan útvarps. Slíkar gjaldskrár skulu háðar samþykki menntamálaráðuneytisins.
     Þegar útvarpsstofnun er heimilt að útvarpa verki er henni frjáls bráðabirgðaupptaka þeirra á hljóðrit eða myndrit til sjálfs sín nota, en ekki í öðru skyni. Til varanlegrar geymdar og endurtekinna nota skal afla heimilda frá viðkomandi höfundasamtökum. Nánari reglur um upptöku verka, geymd þeirra og not skal setja í reglugerð og skal við setningu hennar höfð hliðsjón af samningum þeim sem tíðkast hefur að gera við höfundaréttarsamtökin um þessi atriði og venjur sem skapast hafa hér að lútandi.
    Menntamálaráðherra getur sett frekari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

7. gr.


    Eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, svohljóðandi:
     Verki, sem útvarpað er beint eða um gervihnött, má án sérstaks leyfis höfundaréttarhafa endurvarpa til almennings um kapalkerfi, að því tilskildu að verkinu sé dreift óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu sendingu.
     Höfundar og aðrir rétthafar hafa ætíð rétt til þóknunar fyrir endurdreifingu skv. 1. mgr. Dreifing um kapalkerfi, sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjölbýlishúsi eða nærlægum húsum, er þó ekki greiðsluskyld.
     Krafa til endurgjalds skv. 2. mgr. verður aðeins gerð af sameiginlegri innheimtustofnun samtaka höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa. Stofnunin innheimtir gjöldin og ráðstafar þeim. Hún getur þó falið öðrum innheimtusamtökum höfunda að annast innheimtuna. Stofnuninni skulu settar samþykktir í samráði við menntamálaráðuneytið og þær háðar staðfestingu þess. Skal í samþykktunum m.a. kveðið á um hvernig tekjum skuli skipt meðal aðildarfélaga.
     Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

8. gr.


    24. gr. laganna orðast svo:
     Heimil er sala, lán, leiga og önnur dreifing til almennings á eintökum bókmenntaverks eða tónverks sem út hefur verið gefið. Útleiga og lán á eintökum tónverka er þó óheimil án samþykkis höfunda.
     Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar taka einnig til kvikmyndaverka, þar á meðal myndbanda, en útleiga og lán þeirra til almennings er þó óheimil án samþykkis rétthafa. Sama gildir um útleigu tölvuforrita.

9. gr.


    25. gr. laganna breytist þannig:
     1. mgr. orðast svo:
     Nú hefur eintak af myndlistarverki verið afhent til eignar og er eiganda þá heimilt, nema annað sé áskilið, að láta eintakið af hendi og sýna það almenningi. Opinber kynning þess á listsýningum og með öðrum hliðstæðum hætti er þó óheimil án samþykkis höfundar, nema á opinberum listasöfnum sé sem almenningur hefur aðgang að. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um eintök sem gerð hafa verið eftir listaverki og gefin út.
     Við 2. mgr. bætist: Einnig skal heimilt án leyfis myndhöfundar hverju sinni að sýna í sjónvarpi áður birt verk hans þegar sjónvarpsstöð hefur gert samning um það efni við samtök myndlistarmanna sem annast hagsmunagæslu fyrir verulegan hluta íslenskra myndhöfunda og hefur hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins. Höfundar, sem standa utan samtakanna, skulu njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn. Hver einstakur höfundur getur þó lagt skriflegt bann við sýningu verka sinna samkvæmt þessari málsgrein. Samtökunum skal heimilt að setja gjaldskrár um sýningar verka á listsýningum eða með hliðstæðum hætti, sbr. 1. mgr. Þá skal samtökunum heimilt að setja gjaldskrár vegna annarrar birtingar myndverka. Slíkar gjaldskrár skulu háðar staðfestingu menntamálaráðuneytisins. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar.

10. gr.


    Eftir 25. gr. laganna koma:
     25. gr. a.
    Vörslumanni myndlistarverks er skylt að veita höfundi aðgang að verkinu til fjölföldunar þess eða útgáfu eða annarrar hliðstæðrar notkunar, enda sé hún höfundi mikilvæg. Réttur höfundar samkvæmt ákvæði þessu er persónulegur, óframseljanlegur og erfist ekki.
     Vörslumanni er þó ekki skylt að veita höfundi aðgang að verki eða afhenda það í þessu skyni nema tryggt sé að verkið verði ekki fyrir skemmdum eða glatist.
     Sé beiðni höfundar um aðgang að myndlistarverki skv. 1. mgr. hafnað getur hann sett kröfur sínar fram í dómi og getur dómari þá m.a. sett skilyrði fyrir því að aðgangsréttur verði veittur.
     Vörslumaður á ætíð rétt til gjafvarnar í slíkum málum.

     25. gr. b.
     Við endursölu á listaverkum í atvinnuskyni skal leggja 10% gjald á söluverð verkanna er renni til höfundar listaverks.
     Gjald þetta nær ekki til mannvirkja sem lúta reglum um byggingarlist né heldur til verka er teljast til nytjalistar og geta vegna framleiðslu fyrir almennan markað ekki talist frumverk.
     Réttur höfundar skv. 1. mgr. er óframseljanlegur og helst meðan höfundaréttur hans er í gildi, sbr. 43. gr. höfundalaga. Höfundaréttarsjóður myndlistarmanna eða annar sjóður, sem kæmi í hans stað, annast innheimtu gjalda skv. 1. gr., svo og skil á þeim til höfunda. Að höfundi látnum fellur rétturinn til skylduerfingja, en sé þeim ekki til að dreifa rennur gjaldið til Höfundaréttarsjóðs myndlistarmanna.
     Ákvæði þessarar greinar taka ekki til listaverka sem seld eru á listmunauppboðum, en um gjaldtöku í þeim tilvikum gilda sérákvæði í 3. gr. laga nr. 36/1987.
     Nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar skulu sett í reglugerð.

11. gr.


    Eftir 42. gr. laganna koma:

Sérstök ákvæði um tölvuforrit.


    42. gr. a.
     Sé annað ekki umsamið felur samkomulag um rétt til nýtingar tölvuforrits í sér rétt til að gera þær breytingar á forritinu sem nauðsyn ber til vegna nýtingar þeirrar sem samið er um, sbr. þó 4. gr.

     42. gr. b.
     Nú er gerð tölvuforrita liður í ráðningarskilmálum og eignast þá atvinnurekandi höfundaréttinn að forritinu nema áskilnaður sé gerður á annan veg.

12. gr.


    Við 45. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Standi fleiri en 12 listflytjendur saman að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags viðkomandi flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi þóknun fyrir afnotin.

13. gr.


    Í stað orðanna: „25 ár“ í 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 46. gr. koma: 50 ár.

14. gr.


    57. gr. laganna orðast svo:
     Takist ekki samningur um fjárhæð þóknunar skv. 14., 15. a, 16., 17., 20., 21., 23., 23. a, 25. og 47. gr. getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem menntamálaráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir. Áður en til úrskurðar kemur skal nefndin leita sátta með aðilum. Úrskurður nefndarinnar er stjórnarfarsleg fullnaðarúrlausn um ágreiningsefnið. Laun nefndarmanna skulu greidd úr ríkissjóði. Nánari ákvæði um störf nefndarinnar skulu sett í reglugerð.

15. gr.


    58. gr. laganna orðast svo:
     Til ráðuneytis menntamálaráðherra um höfundaréttarmál skal vera nefnd fimm sérfróðra manna á sviði höfundaréttar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við helstu höfundaréttarsamtök landsins. Enn fremur skal koma á fót höfundaréttarráði. Í ráðinu skulu kynnt og rædd höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma. Í ráðinu skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af þeim samtökum sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu ráðuneytisins til meðferðar höfundaréttar, svo og annarra helstu höfundaréttarsamtaka í landinu. Enn fremur fulltrúar útvarpsstofnana og annarra hagsmunaaðila. Menn, sem skipa höfundaréttarnefnd, skulu og eiga sæti í ráðinu, svo og þeir aðilar sem ráðherra skipar sérstaklega í ráðið. Menntamálaráðherra eða sá sem hann nefnir í sinn stað skal vera í forsæti á fundum ráðsins. Ráðherra setur nánari reglur um höfundaréttarnefnd og höfundaréttarráð.

16. gr.


    2. setning 1. mgr. 59. gr. laganna fellur niður.

17. gr.


    Á eftir 6. tölul. 1. mgr. 60. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði 25. gr. b taka til verka íslenskra ríkisborgara og erlendra manna sem búsettir eru hér á landi. Enn fremur til verka erlendra ríkisborgara þeirra ríkja sem veita íslenskum verkum hliðstæða vernd.

18. gr.


    Á eftir 61. gr. laganna kemur ný grein, 61. gr. a, svohljóðandi:
     Víkka má gildissvið laganna þannig að ákvæði þeirra taki til erlendra ríkisborgara að fullnægðum skilyrðum um gagnkvæmni. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að staðfesta milliríkjasáttmála um gagnkvæma vernd án eða með fyrirvörum sem ríkisstjórninni þykir við eiga og heimilt er að gera. Með gagnkvæmni samkvæmt þessari grein er átt við að rétthafar hvers aðildarlands njóti sama réttar í öðrum aðildarlöndum og innlendir ríkisborgarar. Ákvæði greinar þessarar hrófla í engu við gildi alþjóðlegra sáttmála á sviði höfundaréttar sem þegar hafa verið fullgiltir af Íslands hálfu.

19. gr.


    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella ákvæði þeirra inn í meginmál höfundalaga, nr. 73 29. maí 1972.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Er núgildandi lög um höfundarétt, nr. 73 29. maí 1972, voru sett þóttu þau almennt til fyrirmyndar og taka fram löggjöf flestra annarra þjóða á þessu sviði. Í þeim var m.a. að finna nýmæli sem síðan hafa verið tekin upp í lög margra annarra þjóða. Hið sama má segja um breytingar á lögunum sem lögfestar voru á árinu 1984 varðandi gjöld til höfunda vegna upptöku á verkum þeirra á myndrit eða hljóðrit til einkanota. Má ákveðið fullyrða að hvor tveggja þessi lagasetning hafi vakið verulega athygli og orðið þjóðinni til álitsauka á erlendum vettvangi.
     Eigi að síður er það ljóst að löggjöfin frá 1972 er í nokkrum greinum úrelt orðin og ófullnægjandi, m.a. vegna gífurlegra tækniframfara að því er varðar miðlun og aðra nýtingu á verkum höfunda. Má segja að tæknibylting þessi hafi stofnað réttindum höfunda í verulega hættu og valdið verulegri röskun á hagsmunum og réttindum þeirra. Einnig þykir nú tímabært orðið að lögfesta ýmis ákvæði til verndar höfundum sem flest komu til álita, en frestað var að lögfesta á árinu 1972, einkum varðandi réttindi myndhöfunda og listflytjenda, en einnig annarra höfunda svo sem rithöfunda og tónskálda. Þá hefur þótt brýnt að auðvelda löggildingu gagnkvæmra alþjóðlegra höfundaréttarsáttmála, en seinagangur í því efni hefur sætt gagnrýni íslenskra rétthafa, svo og alþjóðlegra stofnana, en meint formsatriði í gildandi lögum hafa þótt torvelda slíkt. Þá hefur þótt aðkallandi að breyta nokkrum greinum í gildandi lögum og taka af tvímæli um túlkun þeirra.
     Af ofangreindum ástæðum hafa höfundaréttarfélögin sótt á um endurskoðun gildandi laga. Að tilmælum þeirra skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Birgir Ísleifur Gunnarsson, nefnd á árinu 1988. Í nefndina voru skipuð Sigurður Reynir Pétursson hæstaréttarlögmaður, formaður, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, Knútur Hallsson ráðuneytisstjóri, Knútur Bruun hæstaréttarlögmaður og Þórunn J. Hafstein deildarstjóri. Við val nefndarmanna var höfð hliðsjón af því að þau hafa öll starfað að höfundaréttarmálum árum saman og eru þeim nákunnug, tvö á vegum menntamálaráðuneytisins, en hinir þrír á vegum hinna ýmsu höfundaréttarsamtaka. Þegar í upphafi höfðu nefndarmenn því í höndum og aðgang að flestum þeim gögnum sem að haldi máttu koma við endurskoðun laganna og vegna starfa sinna í þágu ráðuneytis og höfundaréttarfélaga berast þeim sjálfkrafa ný gögn og tillögur varðandi þau álitaefni sem nefndin hefur þurft að fjalla um og taka afstöðu til. Þá hefur nefndin að sjálfsögðu aflað nýrra gagna eftir því sem tilefni hefur gefist til. Við verkalok fól nefndin sérstakri undirnefnd undir formennsku Þórunnar J. Hafstein að ganga endanlega frá texta frumvarpsins.
     Er nefndin var skipuð var út frá því gengið og um það rætt að fyrst yrði fjallað um þær breytingar sem brýnast væri að gera. Jafnframt að nefndin ynni áfram að allsherjarendurskoðun laganna sem er langtímaverkefni, en slík endurskoðun hefur staðið yfir annars staðar á Norðurlöndum hátt á annan áratug og er enn ekki að fullu lokið. Hefur menntamálaráðherra fallist á þá verklagstilhögun.

     Við þær breytingar, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að gerðar verði á gildandi lögum, hefur að nokkru verið stuðst við þær bráðabirgðalagfæringar sem gerðar hafa verið hin síðustu ár á lögum annarra Norðurlandaþjóða, einkum þeim dönsku. Það hefur verið fylgst með nýlegum breytingum á höfundaréttarlöggjöf annarra þjóða. Þá hefur þess og verið gætt í sambandi við fyrirhugaðar breytingar að fullnægt væri skilyrðum hinna alþjóðlegu sáttmála um höfundarétt sem Ísland er aðili að, þ.e. Bernarsáttmálans og Genfarsáttmálans. Einnig Rómarsáttmálans til verndar listflytjendum og hljómplötuframleiðendum þegar hann verður fullgiltur.
     Að framan er að því vikið að breytingar þær, sem hér er lagt til að gerðar verði á höfundaréttarlöggjöfinni, snerti flestar listgreinar, ritlist, tónlist og þá eigi síður myndlist og rétt listflytjenda. Þá er tekið upp í frumvarpið ákvæði til verndar höfundum tölvuforrita og loks að lögfest verði ákvæði varðandi sönnunarbyrði þegar um meint stórfellt brot á höfundarétti er að ræða. Enn er þess að geta að nefndin hefur fjallað um það álitaefni hvort taka ætti upp í frumvarpið ákvæði varðandi yfirfærslu höfundaréttar frá höfundum til atvinnurekenda og þá sérstaklega það atriði hvenær höfundaréttur fastráðinna starfsmanna flyst sjálfkrafa yfir á atvinnurekendur. Loks hvort taka eigi upp í höfundalög ákvæði varðandi svokallaða fjölleiðara (micro chips). Að því er varðar hið fyrra af tveimur síðastgreindu atriðunum þótti nefndinni enn ekki tímabært að lögfesta ákvæði um það efni heldur skyldu álitamál þar að lútandi áfram vera túlkunaratriði svo sem verið hefur, þó með fráviki varðandi tölvuforrit þegar gerð þeirra er liður í ráðningarskilmálum. Nefndin var sammála um að ákvæði um fjölleiðara eigi heima í sérlögum (sui generis) svo og að setning sérstakra ákvæða um svonefnda tölvubanka bíði að mestu allsherjarendurskoðunar. Skal þá vikið að hinum helstu nýmælum laganna.

Helstu nýmæli og breytingar.


1. Tölvuforrit.

    Í íslenskri höfundalöggjöf eru engin bein ákvæði um verndun tölvuforrita. Þó hefur verið talið að tölvuforrit njóti verndar samkvæmt núgildandi höfundalögum að fullnægðu því skilyrði höfundaverndar að þau séu árangur sjálfstæðs sköpunarstarfs og samkvæmt því verk í skilningi höfundaréttar. Sú hefur og orðið niðurstaðan í mörgum ríkjum, t.d. Bandaríkjunum, Japan, Ástralíu, Frakklandi, V-Þýskalandi og nú síðast í Danmörku, ýmist með beinni lagasetningu eða í réttarframkvæmd, að veita slíka vernd. Hafa þá slík forrit yfirleitt verið flokkuð undir bókmenntaverk sem þó er ekki alls kostar rétt þar sem þau fyrirfinnast einnig í véllæsilegu formi á böndum, disklingum eða hliðstæðri gerð (object code). Eru tölvuforrit því skilgreind í lögunum sem sérstök verk, enda verða lagaákvæði um þau að sníðast að sérstöðu þeirra sem höfundaréttarlegra verka. Að því er varðar tölvubanka er að svo stöddu ekki gert ráð fyrir lögfestingu sérstakra ákvæða um starfsemi þeirra, enda talið að innsetning verndaðra verka í slíka banka (input) og dreifing þeirra þaðan til almennings (output) njóti verndar samkvæmt almennum reglum höfundaréttarins um eintakagerð. Hins vegar er ráðherra heimilað að setja reglur um gerð véllæsilegra eintaka til afnota í slíkum bönkum þegar tímabært þykir.

2. Ákvæði varðandi ljósritun og skylda fjölföldun í skólum og í annarri starfsemi.
    Lagt er til að sérstök samtök höfunda semji við opinbera aðila og aðra um gjöld fyrir slíka fjölföldun og innheimtu þeirra. Hliðstætt ákvæði hefur þegar verið tekið upp í löggjöf annarra Norðurlanda. Þótt hér sé um nýmæli í íslenskri löggjöf að ræða er í raun aðeins verið að lögfesta ríkjandi skipan í þessu efni sem upphaflega byggðist á samningum þeirra höfundaréttarfélaga, sem hlut eiga að máli, við menntamálaráðuneytið frá 6. maí 1983 og úrskurði sérstaks gerðardóms um gjaldsfjárhæð uppkveðnum 4. maí 1984. Samtök höfunda til gæslu þessara réttinda voru stofnuð á árinu 1985 undir nafninu FJÖLÍS. Aðilar að því félagi nú eru Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir, Félag höfunda fræðirita og kennslugagna, STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, Blaðamannafélag Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Hefur FJÖLÍS annast samningsgerð við ríkisvaldið um þóknun fyrir ljósritun í skólum og leitað eftir samningum við aðra aðila sem stunda slíka eftirgerð í starfsemi sinni. Sú viðleitni hefur ekki skilað þeim árangri sem skyldi og þykir m.a. af þeim sökum brýnt að lögfesta ákvæði hér að lútandi og treysta þannig réttargrundvöll samtakanna og efla átakastyrk þeirra.

3. Samningskvöð og skerping ákvæða um hlutverk flutningsréttarfélaga.
    Í 23. gr. gildandi laga eru ákvæði um svonefnda afnotakvöð (tvångslicens) varðandi rétt útvarpsstöðva til flutnings bókmenntaverka og tónverka í útvarpi án leyfis höfundar hverju sinni, en gegn greiðslu. Í stað hennar er lagt til að tekin verði upp svokölluð samningskvöð (aftalslicens) sem gerir slíkan flutning því aðeins frjálsan að áður hafi náðst samkomulag um flutninginn við heildarsamtök höfunda sem hafa með höndum hagsmunagæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda. Er hér frekar um að ræða formbreytingu en efnis miðað við þá réttarframkvæmd sem tíðkast hefur, þ.e. að gera slíka samninga við höfundaréttarfélögin. Lögformlega viðurkennd höfundaréttarfélög eru nú þessi: Rithöfundasamband Íslands, STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna. Hlutverk þessara samtaka og réttargæsluheimildir eru skilgreindar nánar en í gildandi lögum og ákvæði varðandi innheimtuheimildir þeirra og heimildir til setningar gjaldskrár fyrir flutning verka utan útvarps eru tekin upp í lögin sjálf, en voru áður í reglugerð.

4. Viðstöðulaus sending útvarpsefnis um kapal.
    Lagt er til að slík endurdreifing sé heimil án sérstaks leyfis höfundarétthafa hverju sinni, enda komi gjald til þeirra fyrir dreifinguna sé um víðtæka dreifingu að ræða. Hliðstæð ákvæði er víða að finna í lögum annarra landa, þar á meðal Norðurlanda. Að óbreyttri löggjöf mundi slík dreifing teljast nýr og sjálfstæður flutningur og því óheimil án leyfis rétthafa, sbr. og 11. gr. a. Bernarsáttmálans. Þóknunarréttur er óháður því hvort afla þarf sérstaks leyfis yfirvalda til dreifingarinnar samkvæmt útvarpslögum. Sérstakri stofnun samtaka höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa er ætlað að innheimta gjald fyrir slíka dreifingu og annast skiptingu tekna með aðildarfélögunum. Er hér verið að greiða fyrir frjálsari aðgangi almennings að slíku útvarpsefni en verið hefur að tilskildri hæfilegri greiðslu til höfunda.

5. Ákvæði um vernd myndverka.
    Lagt er til að lögfestar verði tvenns konar réttarbætur í þágu myndlistarmanna. Í fyrsta lagi er lagt til að lögfestur verði svokallaður fylgiréttur (droit de suite) og er hér fylgt í fótspor nokkurra annarra þjóða, þar á meðal Danmerkur og V-Þýskalands, en í 14. gr. b. Bernarsáttmálans er gert ráð fyrir að aðildarríkin geti tekið upp slík ákvæði til verndar myndhöfundum að fullnægðum skilyrðum um gagnkvæmni. Inntak þessara réttinda felst í því að við endursölu myndverka í atvinnuskyni renni tiltekinn hundraðshluti endursöluverðs til rétthafa. Slík ákvæði eru þegar í gildi í þágu höfunda í lögum um listmunauppboð, nr. 36/1987, og eru nefndarmenn sammála um að þau ákvæði haldist óbreytt þannig að nýmæli það, sem hér er lagt til að verði tekið upp, eigi aðeins við um endursölu í atvinnuskyni utan slíkra uppboða. Hin almennu rök, sem fram eru færð til styrktar fylgirétti, eru m.a. þau að oft og tíðum eru verk mikilhæfra listamanna lítils metin í upphafi listferils þeirra, en stíga í verði þegar listgildi verkanna verður mönnum ljóst. Í slíkum tilvikum rennur allur ágóði af verðhækkun listaverka í vasa þeirra sem listaverkin hafa keypt, oft og tíðum fyrir lítið fé í upphafi, og höfundar hafa því orðið afskiptir. Ákvæðum um fylgirétt er ætlað að bæta nokkuð úr þessu misrétti.
     Auk fylgiréttar leggur nefndin til að vörslumanni myndlistarverks sé skylt að veita höfundi aðgang að verkinu, m.a. til fjölfjöldunar þess eða útgáfu, enda verði hún talin höfundi „mikilvæg“. Rík þörf fyrir slíkan aðgang kann að vera fyrir hendi, svo sem vegna útgáfu verka í bókum, sýningarskrám, svo og til gerðar korta og myndspjalda. Nefndinni er fullljóst að um mjög viðkvæmt mál getur hér verið um að ræða fyrir eiganda listaverks og því beri að fara fram með fullri gát í þessu og skyldum tilvikum og forðast allar öfgar í höfundaréttarframkvæmdinni. Þess vegna er það skilyrði sett fyrir aðgangsrétti að tryggt sé að verk verði ekki fyrir skemmdum eða glatist. Jafnframt hafni vörslumaður beiðni höfundar um aðgang verði hann að sækja mál sitt fyrir dómi. Loks er gert ráð fyrir að vörslumaður eigi ætíð rétt til gjafvarnar í slíkum málum.

6.    Vernd listflytjenda og framleiðenda.
    Eitt af helstu nýmælum í gildandi höfundalöggjöf frá 1972 var lögfesting takmarkaðrar verndar til handa listflytjendum og framleiðendum hljóðrita, en áður nutu þessir aðilar engrar slíkrar verndar í höfundalögum. Vernd til handa listflytjendum er að efni til hliðstæð þeirri sem höfundar njóta, þ.e. einkaréttur til fjölföldunar og flutnings eða þóknunarréttur í sambandi við slík afnot. Réttarvernd listflytjenda er þó í nokkrum greinum mun minni en réttarvernd höfunda, enda almenn viðurkenning á þörf hennar mun síðar til komin. Þannig er verndartími listflutnings samkvæmt gildandi lögum aðeins 25 ár frá fyrstu útgáfu, en réttur höfunda helst uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát þeirra. Hinn stutti verndartími listflytjenda hefur verið þeim mikill þyrnir í augum. Hefur í því sambandi verið bent á að margir af fremstu núlifandi söngvurum, hljómlistarmönnum og leikurum þjóðarinnar njóta ekki verndar um listflutning sinn og er slíkt ástand með öllu óviðunandi. Í nágrannalöndum okkar hefur verndartíminn verið lengdur í 50 ár og er hér lagt til að sama regla verði lögfest hér. Nokkur önnur atriði varðandi vernd listflytjenda eru talin þurfa endurskoðunar við og hafa verið rædd í nefndinni, en lengri verndartími er þeirra langbrýnast. Önnur atriði bíða heildarendurskoðunar.

7. Alþjóðasáttmálar.
    Að framan er að því vikið að megn óánægja er ríkjandi innan íslenskra höfundaréttarsamtaka vegna seinagangs í sambandi við fullgildingar Íslands á alþjóðlegum höfundaréttarsáttmálum. Þá hefur Alþjóðahugverkastofnunin, WIPO, lýst áhyggjum sínum vegna þessa ástands og lagt til að úr þessu verði bætt hið fyrsta.
     Alþjóðasáttmálar þeir á sviði höfundaréttar, sem Ísland er nú aðili að, eru tveir: Bernarsáttmálinn til verndar bókmenntum og listaverkum frá 1886 í þeirri gerð hans sem samþykktur var á þingi Bernarsambandsins í Róm 2. júní 1928. Enn fremur hinn alþjóðlegi samningur um höfundarétt eða svonefndur Genfarsáttmáli frá 6. september 1952. Báðir þessir sáttmálar hafa síðan verið endurskoðaðir án þess að Ísland hafi fullgilt þá þannig breytta. Þannig var texta Bernarsáttmálans breytt í Brussel á árinu 1948, í Stokkhólmi 1967 og í París 1971 og texta Genfarsáttmálans í París 1971, án fullgildingar af Íslands hálfu. Þá hefur hinn alþjóðlegi sáttmáli frá 1961 til verndar listflytjendum og hljómplötuframleiðendum, svokallaður Rómarsáttmáli, sem undirritaður var fyrir Íslands hönd af dr. Þórði Eyjólfssyni hrd., enn ekki komið til framkvæmda þrátt fyrir þrotlausa baráttu íslenskra listamannasamtaka fyrir fullgildingu hans sem staðið hefur yfir í nær tvo áratugi. Flest menningarríki heims, þar á meðal Norðurlöndin, eru nú aðilar að þessum sáttmála.
     Til að greiða fyrir og auðvelda að Ísland geti gerst aðili að slíkum alþjóðlegum höfundaréttarsáttmálum er lagt til að tekin verði upp í höfundalögin almennt heimildarákvæði til handa framkvæmdarvaldinu til að staðfesta slíka samninga án sérstakrar lagasetningar hverju sinni, en að tilskildri gagnkvæmni. Hliðstætt ákvæði er að finna víða erlendis, t.d. í dönsku höfundalögunum, og einnig var slíkt ákvæði að finna í okkar fyrstu höfundalögum frá 1905.

8. Önnur nýmæli.
    Sönnunarbyrði.
        Í 8. gr. núgildandi höfundalaga er að finna réttarfarsákvæði er mjög auðvelda alla framkvæmd höfundaréttar og gera mönnum auðveldara fyrir að henda reiður á hvernig umráðum réttarins er háttað án fyrirhafnarmikillar könnunar á því atriði hverju sinni. Með lagagrein þessari, sem er í samræmi við 15. gr. Bernarsáttmálans, eru lögfestar löglíkur fyrir því hver sé höfundur verks. Telst hann vera sá, uns annað reynist réttara, sem nafngreindur er á eintökum verks eða lýstur er höfundur við birtingu þess.
        Til að auðvelda enn frekar og greiða fyrir framkvæmd höfundaréttar er nú lagt til að þeim aðilum, sem flytja eða dreifa verkum í verulegu magni, beri að sýna fram á að ekki hafi verið miðlað verkum sem vernduð eru að höfundalögum. Reynslan sýnir að oft og tíðum getur það verið mjög fyrirhafnarmikið og þá ekki síður kostnaðarsamt fyrir höfunda eða samtök þeirra að sannreyna hvort vernduð verk hafi verið flutt og þá í hve ríkum mæli. Er eðlilegt að þeir aðilar, sem stunda og hafa atvinnu af slíkri miðlun, þurfi að sanna heimildir sínar í þessu efni, enda eru raunlíkur fyrir því að einvörðungu óvernduðu efni sé miðlað þegar um umfangsmikla dreifingu er að ræða næsta hverfandi. Á þessar breytingar er lögð megináhersla hjá þeim höfundaréttarsamtökum sem fara með réttargæslu í slíkum tilvikum í umboði höfunda.

    Útleiga verka.
        Í íslenskum lögum er að finna tvö ákvæði í þágu höfunda vegna útleigu á verkum þeirra. Er hér um að ræða svokallaðan „public lending right“. Að því er varðar bókmenntaverk þá er höfundum í lögum um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, tryggð nokkur þóknun fyrir útlán. Í annan stað er útleiga og lán á tónverkum á nótum til almennings alfarið bönnuð skv. 24. gr. gildandi höfundalaga. Er nú lagt til að útleiga og lán annarra eintaka af tónverkum, svo sem hljómplötum, geisladiskum og böndum, verði einnig óheimil gerð án samþykkis rétthafa. Þykir ljóst að eðlilegri hljómplötuútgáfu sé stefnt í allverulega hættu með frjálsri útleigu til tjóns fyrir framleiðendur, höfunda og listflytjendur. Einnig verður að teljast óeðlilegt að útleigufyrirtæki geti með þessum hætti auðgast óeðlilega á kostnað rétthafa, en leigugjald hefur í flestum tilvikum, sem vitað er um, verið úr öllum tengslum við markaðsverð hljóðritanna. Auk banns við útleigu tónverka eru tekin af öll tvímæli um að útleiga og lán útgefinna kvikmyndaverka, þar á meðal myndbanda, sé óheimil án samþykkis rétthafa.

    Þóknunarnefnd í höfundaréttarmálum.
        Lagt er til að núverandi fyrirkomulag skv. 57. gr. gildandi höfundalaga um gerðardómsmeðferð í þeim tilvikum þegar afnot verks eru heimil gegn þóknun verði lagt niður, en í stað gerðardóms skipi menntamálaráðherra sérstaka þóknunarnefnd samkvæmt tilnefningu höfundaréttarnefndar til að úrskurða um ágreining sem rísa kann í slíkum tilvikum. Núverandi fyrirkomulag hefur reynst með öllu óhæft og því lagt til að því verði breytt í ofangreint horf. Hin nýja skipan er að danskri og norskri fyrirmynd sem hefur reynst mjög vel í framkvæmd og um hana verið góður friður milli þeirra aðila sem hlut eiga að máli.

    Höfundaréttarnefnd og -ráð.
        Í gildandi lögum, 58. gr., er gert ráð fyrir höfundaréttarnefnd sem vera skuli ráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál. Er það skoðun endurskoðunarnefndar að breyta þurfi núverandi fyrirkomulagi um skipan ráðgjafarnefndarinnar í það horf að höfundaréttarnefnd verði fámenn og skilvirk ráðgjafarnefnd, skipuð mönnum með sérfræðiþekkingu á höfundarétti. Jafnframt er lagt til að komið verði á fót höfundaréttarráði er verði almennur umræðuvettvangur sem flestra aðila er hagsmuna hafa að gæta í sambandi við höfundarétt og framkvæmd hans. Ráðið starfi undir forsæti menntamálaráðherra. Telur nefndin að með þessari tilhögun verði náð tvíþættum markmiðum, þ.e. skjótvirkri ráðgjöf varðandi aðkallandi höfundaréttarvandamál á hverjum tíma, svo og almennri umræðu um höfundaréttarmálefni á breiðari grundvelli.

     Auk þeirra breytinga og nýmæla, sem reifuð hafa verið hér að framan og nefndin er sammála um að lögfest verði, hafa ýmis álitaefni varðandi frekari lagabreytingar verið rædd í nefndinni, en sem rétt þykir að bíði allsherjarendurskoðunar laganna. Er hér m.a. um að ræða atriði varðandi réttarstöðu listflytjenda og arkitekta, svo og atriði sem varða höfunda almennt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lögfestur sá ríkjandi skilningur að eðlilegt sé að tölvuforrit njóti verndar að höfundarétti. Tölvuforrit eru hér skýrgreind sem sjálfstæð verk, enda hljóta lagaákvæði varðandi þau að sníðast að sérstöðu þeirra sem höfundaréttarlegra verka vegna sérstakra nytja þeirra, sbr. umsagnir um 3., 4. og 11. gr. hér á eftir, svo og umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 2. gr.


    Vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum við frumvarpið varðandi sönnunarbyrði í þeim tilvikum þegar um dreifingu í verulegu magni er að ræða.

Um 3. gr.


    Skv. 3. gr. gildandi höfundalaga hefur höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu. Frá þeirri meginreglu er í 11. gr. laganna gerð víðtæk undantekning þegar um er að ræða eintök til einkanota. Er sú undanþáguheimild þrengd hér að því er varðar eftirgerðir tónverka og bókmennta sé til hennar leitað aðstoðar aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni. Þá er eftirgerð tölvuforrita alfarið bönnuð, sbr. þó umsögn um 4. gr.
     Með tilkomu hinnar nýju fjölföldunartækni, ekki síst á sviði ljósritunar, hafa möguleikar einstaklinga til eftirgerðar verndaðra verka aukist gífurlega. Er hér ekki síst átt við fjölföldun verka á ljósritunarstofum sem ljósrita nær hömlu- og eftirlitslaust vernduð tónverk og bókmenntaverk og spilla þannig fyrir sölu þeirra á almennum markaði. Er nú svo komið að forlagsútgáfa á nótum má heita nær aflögð vegna dræmrar sölu og mikils útgáfukostnaðar. Neyðast því höfundar sjálfir eða samtök þeirra oftast af litlum efnum til þess að sjá um og kosta útgáfu þeirra, en slíkar útgáfur eru að sjálfsögðu grundvallarskilyrði þess að menn geti flutt verkin og notið þeirra, a.m.k. hinna stærri verka. Að verki útgefnu sjá menn eða hópar manna sér þann leik á borði að kaupa aðeins eitt eintak verks sem þeir síðan láta fjölfalda í heild eða að hluta á ljósritunarstofum gegn tiltölulega vægu gjaldi og án þess greiðsla komi fyrir til höfunda. Svipuðu máli gegnir um ýmis bókmenntaverk. Í Noregi er eftirgerð tónverka á nótum alfarið bönnuð. Ekki þykja næg rök fyrir því, svo sem gert er í Noregi, að gera hér greinarmun á bókmenntaverkum og tónverkum og því lagt til að hvor tveggja eintakagerðin verði bönnuð sé til hennar leitað aðstoðar aðila sem taka slíka eintakagerð að sér í atvinnuskyni. Í samtökum höfunda hefur mjög verið rædd nauðsyn þess að koma böndum á hina hömlulausu eftirgerð sem að framan er lýst og telja rétthafar mjög brýnt að á máli þessu verði tekið með lögfestingu nauðsynlegra verndarákvæða. Þótt eintakagerð þessi verði alfarið bönnuð geta fjölföldunarstofur leitað samþykkis viðkomandi rétthafa eða rétthafasamtaka til fjölföldunar, t.d. gegn hæfilegu gjaldi eins og tíðkast hefur í sambandi við fjölföldun í skólum.
     Á það hefur verið bent í almennum athugasemdum við frumvarpið að tölvuforrit hafi nokkra sérstöðu meðal verka sem verndar njóta að höfundalögum. Hér getur verið um hvort tveggja að ræða forrit í skriflegu formi (source code) sem skiljanleg eru þeim sem þekkingu hafa á þessu sviði eða forrit í svokölluðu véllæsilegu formi (object code) og dreift er á hinum almenna markaði á böndum, disklingum eða hliðstæðri gerð.
     Vegna eðlis forrita og hinnar sérstöku þýðingar þeirra í atvinnu- og viðskiptalífi hefur þótt rétt að veita þeim frekari vernd gegn eftirgerð til einkanota en öðrum verkum vernduðum að höfundarétti. Gerð þeirra er oftast mjög kostnaðarsöm og endurgjald framleiðenda fyrir réttinn til nýtingar þeirra verulegur hluti framleiðslukostnaðar. Eftirgerðir eru hins vegar ódýrar og auðunnar. Því er hér gert ráð fyrir að eftirgerðir til einkanota verði almennt bannaðar hverrar gerðar sem forritin eru, svo sem gert hefur verið m.a. í Frakklandi og Þýskalandi. Í Danmörku nær slíkt bann aðeins til tölvuforrita í véllæsilegum búningi, en ekki þykja full rök fyrir slíkri aðgreiningu og er þá stuðst við niðurstöður Frakka og Þjóðverja í þessu efni svo og álit virtra fræðimanna.

Um 4. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. um almennt bann við eftirgerð tölvuforrita er eintakagerð samkvæmt þessari grein leyfileg að því marki sem hún kann að reynast nauðsynleg vegna eðlilegrar nýtingar forritanna. Er hér ekki aðeins átt við gerð vara- og öryggiseintaka heldur og annarra eintaka sem nauðsynleg kunna að reynast vegna eðlilegrar nýtingar þeirra.

Um 5. gr.


    Lengi hefur verið vitað að í skólum landsins, svo og víða annars staðar bæði í atvinnustarfsemi og stofnunum, færi fram í ríkum mæli ljósritun og skyld eftirgerð verndaðra verka. Hefur það verið eitt helsta baráttumál rithöfunda á síðustu árum að takmarka eftirgerð þá sem hér um ræðir og þá jafnframt að fá því framgengt að höfundum væri greidd þóknun fyrir þær fjölföldunarheimildir sem óhjákvæmilegt þætti að veita þessum aðilum. Í almennum athugasemdum við frumvarpið er þess getið að árið 1983 hafi verið gerðir samningar við ríkisvaldið um ljósritun í skólum og hefur ríkissjóður síðan greitt höfundum þóknun fyrir þá eftirgerð verka sem þar fer fram. Hins vegar hefur viðleitni til samninga og gjaldtöku af öðrum aðilum, sem talið er að stundi þessa iðju, enn ekki borið þann árangur sem vænst var, en á þessu sviði höfundaréttarins sem öðrum tekur það sinn tíma að þoka málum áleiðis til viðunandi lausnar.
     Í tengslum við ofangreinda samningsgerð við ríkisvaldið þótti óhjákvæmilegt að stofna heildarsamtök höfunda til að annast réttindameðferðina á þessu sviði, svo sem á mörgum öðrum sviðum höfundaréttarins, og því var í sambandi við greinda samningsgerð við ríkisvaldið um fjölföldun í skólum komið á fót höfundaréttarsamtökum undir nafninu FJÖLÍS sem er samband margra höfundaréttarfélaga sem hér eiga hagsmuna að gæta. Að fenginni reynslu þykir einsýnt að lögfesta þurfi ákvæði um starfsemi samtakanna og réttarframkvæmdina almennt, svo sem gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum.
     Auk ljósritunar og skyldrar eftirgerðar í skólum og víðar er nú mjög rætt um að nýir hættir við eintakagerð og miðlun verndaðra verka muni mjög ryðja sér til rúms á næstunni og er því jafnvel haldið fram að ljósritun og þvílík eftirgerð verka verði úrelt orðin áður en langt um líður, við taki innsetning og varðveisla verka í svokölluðum tölvubönkum og miðlun verka úr þeim til almennings. Til að mæta þeim möguleika þótti rétt að setja í grein þessa ákvæði sem heimila ráðherra að setja reglur um gerð véllæsilegra eintaka til afnota í tölvubönkum þannig að FJÖLÍS eða hliðstæðu félagi höfunda verði falið að annast gæslu réttinda fyrir höfunda í sambandi við gerð slíkra eintaka og afnot þeirra.

Um 6. gr.


    Grein þessi er að meginefni til í samræmi við 23. gr. núgildandi laga og reglugerð sem sett hefur verið á grundvelli hennar, svo og réttarframkvæmd. Hér er kveðið á um heimild til handa útvarpsstöðvum til flutnings á bókmenntaverkum og tónverkum án leyfis höfunda hverju sinni, en að fullnægðum sérstökum skilyrðum, m.a. um greiðslu fyrir flutninginn. Enn fremur er það nú sett sem skilyrði fyrir almennri heimild til útvarpsflutnings að fyrir liggi heimild til slíks frá höfundaréttarsamtökum sem annast samningsgerð fyrir meiri hluta íslenskra höfunda um flutningsrétt bókmenntaverka eða tónverka eða einstakra greina þeirra. Er hér horfið frá svokallaðri afnotakvöð en í þess stað tekin upp svonefnd samningskvöð. Í raun er um lítt breytt ástand að ræða þar sem útvarpsstöðvar hafa ævinlega gert sérstaka samninga við höfundaréttarsamtökin um útvarpsflutning og greiðslu fyrir hann. Hins vegar þykir sjálfsagt að lögfesta berum orðum ríkjandi ástand í þessum efnum, svo sem gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Enn fremur hefur þótt óhjákvæmilegt að skerpa og skilgreina betur ákvæði greinarinnar um hlutverk og heimild þeirra höfundaréttarsamtaka sem hér um ræðir.
    Auk greindra ákvæða varðandi flutningsrétt í útvarpi er lagt til að eldri reglugerðarákvæði um heimild til handa lögformlega viðurkenndum höfundaréttarsamtökum til að setja gjaldskrár um flutning utan útvarps verði lögfest, en slíkar gjaldskrár skulu eftir sem áður vera háðar samþykki menntamálaráðuneytisins.
     Loks er lögfest ákvæði um rétt útvarpsstöðva til bráðabirgðaupptöku verka í samræmi við 11. gr. a. Bernarsáttmálans.

Um 7. gr.


    Lagt er til, sbr. almenna umsögn um frumvarpið, að viðstöðulaus endurútsending um kapal (þráð) sé heimil að höfundarétti án samþykkis höfundarétthafa, en gegn gjaldi sé endurvarpað til fleiri samtengdra íbúða en 25. Er hér farið að fordæmi annarra Norðurlandaþjóða. Þóknunarnefnd, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að komið verði á fót, ákveður gjald til rétthafa, nema samkomulag verði um gjaldið eða annað fyrirkomulag við ákvörðun þess, svo sem frjáls gerðardómur. Í Danmörku gekk nýlega gerðardómur skipaður fimm hæstaréttardómurum um fjárhæð gjalds þessa og skiptingu þess milli rétthafa, þ.e. höfunda, flytjenda og útvarpsstöðva.

Um 8. gr.


    Vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 9. gr.


    Skv. 1. mgr. 25. gr. gildandi höfundalaga er opinber kynning myndverka á listsýningum óheimil án samþykkis höfundar nema á listasöfnum sé sem opin eru almenningi samkvæmt staðfestri reglugerð. Getur höfundur því lagt bann við slíkri sýningu verka sinna eða áskilið sér hæfilega þóknun fyrir kynninguna. Er nú lagt til að greininni verði m.a. breytt þannig að á eftir orðunum „opinber kynning þess á listsýningum“ komi „eða með öðrum hliðstæðum hætti“. Á síðustu árum hefur mjög færst í vöxt hvers konar kynning listaverka án þess beinlínis sé hægt að flokka slíka kynningu undir listsýningar og má sem dæmi nefna að sýna myndverk í húsakynnum stofnana. Með greindri lagabreytingu er tryggt að höfundar geti í flestum tilvikum, þegar verk þeirra eru kynnt opinberlega, áskilið sér rétt til þóknunar (udstillingsvederlag), en viðurkenning þess réttar hefur verið eitt helsta baráttumál myndhöfunda og samtaka þeirra í nágrannalöndum okkar á undanförnum árum.
     Auk framangreindra breytinga á 1. mgr. 25. gr. er lagt til að aukið verði við 2. mgr. greinarinnar ákvæðum sem gætu haft veruleg áhrif til hagsbóta fyrir myndlistarmenn. Í lögum hefur fram að þessu ekki verið heimild til lögformlegra viðurkenninga á hagsmunasamtökum myndhöfunda til almennrar réttargæslu, svo sem verið hefur um samtök höfunda á sviði bókmennta og tónverka, svo sem STEFs, Rithöfundasambands Íslands og Hagþenkis. Er hér úr þessu bætt að tilmælum Sambands íslenskra myndlistarmanna. Að sjálfsögðu verður einstaklingsbundinn ráðstöfunarréttur myndhöfunda á verkum sínum eftir sem áður meginregla, en tiltekin heimild til réttargæslu fengin í hendur samtökum myndhöfunda. Þannig er hér gert ráð fyrir því að samið verði við samtökin um opinbera sýningu verka í sjónvarpi og að þau geti selt gjaldskrá um opinbera kynningu birtra verka að tilskildri staðfestingu menntamálaráðuneytisins.

Um 10. gr.


    Ákvæði þessarar greinar varðandi aðgangsrétt eru skýrð ítarlega í almennum athugasemdum við frumvarpið og vísast þangað um nauðsyn þessa úrræðis og lagarök. Þó þykir rétt að vekja athygli á því að í 13. gr. laga um Listasafn Íslands, nr. 58/1988, var lögfestur aðgangsréttur að því er varðar myndverk höfunda í eigu safnsins. Réttur höfunda samkvæmt þessu ákvæði er persónulegur og óframseljanlegur og erfist ekki.
     Samkvæmt 1. mgr. beinist krafa um aðgang að verki að þeim aðila sem fer með vörslu verksins sem jafnframt er þó oftast eigandi þess þótt svo þurfi ekki að vera. Sönnunarbyrði þess að aðgangur að verki sé höfundi mikilvægur hvílir á honum sjálfum.
     Svo sem fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið eru ákvæði um fylgirétt (droit de suite) ekki ný af nálinni. Þannig voru fylgiréttarákvæði sett í frönsk lög á árinu 1920 og náði þá aðeins til sölu myndverka á uppboðum, en á árinu 1957 var lögunum breytt þannig að fylgiréttur var látinn ná til allrar endursölu myndverka í atvinnuskyni. Í V-Þýskalandi var fylgiréttur lögfestur á árinu 1965 og ýmis önnur ríki hafa tekið upp í löggjöf sína fylgiréttarákvæði, þar á meðal Belgía og Lúxemburg og nú síðast Danir með lögum frá 1989 er tóku gildi hinn 1. júlí 1990.
     Í 14. gr. b. Bernarsáttmálans, Parísartextans frá 1971, er að finna ákvæði um fylgirétt. Hér er þó aðeins um heimildarákvæði að ræða. Sambandslöndunum er í sjálfsvald sett hvort þau lögfesti fylgirétt eða ekki og þá í hvaða mæli. Þá er í 2. mgr. 14. gr. b. sáttmálans sett gagnkvæmnisákvæði þess efnis að þegnar tiltekins sambandslands njóti því aðeins fylgiréttar í öðru sambandslandi að rétturinn sé viðurkenndur í heimalandi hans. Auk þeirra röksemda, sem fram eru færðar í almennum athugasemdum við frumvarpið fyrir lögfestingu fylgiréttargjalds, þess efnis að óeðlilegt sé að eigendur og listaverkakaupmenn hagnist einir á verðhækkunum listaverka sem oft seljast á tiltölulega lágu verði framan af listferli höfunda eru þau rök einnig þung á metunum að við sölu listaverka skipta þau um eiganda og umhverfi þannig að nýir aðilar fá notið þeirra. Þá er í 3. mgr. 14. gr. b. sáttmálans gert ráð fyrir að í lögum hvers sambandsríkis sé nánar greint á um innheimtureglur og hundraðshluta fylgiréttargjalds af söluverði verks.
     Í 1. mgr. er gerð tillaga um að fylgiréttargjald nemi 10% söluverðs listaverks og er það í samræmi við 3. gr. laga nr. 36/1987, um listmunauppboð. Hlutfall þetta mun m.a. hafa verið ákveðið með hliðsjón af því hve listaverkamarkaður er takmarkaður hér á landi. Ekki þykir rétt að hrófla við hlutfalli þessu, enda ekki vitað til að það hafi sætt andmælum. Í Danmörku er hundraðshlutinn 5% og í Frakklandi 3%. Með reglugerð nr. 97/1988 er Starfslaunasjóði myndlistarmanna (höfundaréttarsjóði myndlistarmanna) falið að innheimta og úthluta fylgiréttargjaldi því sem lagt var á með lögunum um listmunauppboð. Er gert ráð fyrir að sami sjóður annist innheimtu og úthlutun fylgiréttargjalds þess sem hér er kveðið á um. Að höfundi látnum fellur höfundaréttargjaldið til skylduerfingja, en sé þeim ekki til að dreifa rennur gjaldið til Höfundaréttarsjóðs og er ráðstafað til myndhöfunda í samræmi við ákvæði þar að lútandi í nefndri reglugerð um hann.
     Ákvæði þessarar greinar hrófla í engu við 3. gr. laga um listmunauppboð og standa ákvæði hennar varðandi töku fylgiréttargjalds af seldum listaverkum á uppboðum því óbreytt.

Um 11. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að eigendur eintaka af tölvuforritum megi breyta þeim þannig að þau nýtist með eðlilegum hætti, þó þannig að gætt sé sæmdarréttar höfundar skv. 4. gr. Þá þykir og eðlilegt í þessum tilvikum að því sé slegið föstu að atvinnurekendur eignist höfundarétt að forritum höfunda sem þeir ráða sérstaklega til gerðar þeirra, nema áskilnaður sé gerður um annað. Þykir rétt að taka af öll tvímæli í þessu efni svo rík þörf sem á því er að framleiðendur og reyndar einnig viðsemjendur þeirra megi treysta því að þeir hafi fulla heimild til dreifingar og nýtingar þeirra svo ríkir viðskiptahagsmunir sem hér geta verið í húfi.

Um 12. gr.


    Í framkvæmd hefur oft komið upp slík staða að sótt hefur verið á um að gefa út eða birta verk sem hópur flytjenda stendur að og æskilegt þykir að koma á framfæri við almenning. Þykir óeðlilegt að einn eða lítill hluti flytjendahóps geti komið í veg fyrir slíkt. Að fengnum meðmælum samtaka listflytjenda er hér lagt til að samþykki viðkomandi stéttarfélags nægi til slíkrar birtingar þar sem fleiri en tólf listflytjendur standa að einum og sama flutningi.

Um 13. gr.


    Vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 14. gr.


    Vísast til almennra athugasemda við frumvarpið. Þó skal á það bent að aðilum er eftir sem áður heimilt að vísa ágreiningsefnum til almennra dómstóla.

Um 15. gr.


    Vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 16. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að það ákvæði 59. gr. höfundalaganna, eins og þeirri grein var breytt með lögum nr. 78/1984 að brot sæti því aðeins opinberri ákæru að „mikilvægir almannahagsmunir krefjist“, verði fellt niður og ákæruvaldinu falið að meta hverju sinni hvort tilefni sé til ákæru, svo sem almennt tíðkast. Greint skilyrði hefur þótt valda erfiðleikum í framkvæmd og ákæruvaldinu því gefnar frjálsar hendur í þessu efni.

Um 17. gr.


    Svo sem vikið er að í skýringum við 10. gr. gerir Bernarsáttmálinn ráð fyrir að erlendir höfundar geti því aðeins krafist fylgiréttargjalds að slíkur réttur sé fyrir hendi í heimalandi höfundar. Þykir rétt að lögfesta hér umrædda takmörkun að þessu leyti.

Um 18. gr.


    Vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 19. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972,


sbr. lög nr. 78/1984.


    Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð sem neinu nemur. Þó skal bent á 18. gr. þar sem kveðið er á um að ríkisstjórninni sé heimilt að staðfesta milliríkjasáttmála um gagnkvæma vernd án eða með fyrirvörum sem þykja við eiga og heimilt er að gera. Heimildin er til að greiða fyrir og auðvelda að Ísland geti gerst aðili að slíkum alþjóðlegum höfundaréttarsáttmálum enda sé fullnægt skilyrði um gagnkvæmni, þ.e. að rétthafar aðildarlands njóti sama réttar í öðrum aðildarlöndum. Það er háð ákvörðun um fullgildingu í hverju tilviki fyrir sig hvort eða hver kostnaður gæti orðið vegna þessa.
     Ríkissjóður greiðir nú þegar fyrir afnot af höfundaverkum þannig að önnur atriði frumvarpsins hafa ekki áhrif til hækkunar á kostnaði. Þar er t.d. átt við ákvæði um vernd tölvuforrita og notkun þeirra, ákvæði varðandi ljósritun og skylda fjölföldun í skólum og annarri starfsemi og ákvæði er skerpa og skilgreina nánar heimildir útvarpsstöðva til útsendinga á bókmenntaverkum og tónverkum.
     Að lokum skal bent á að gert er ráð fyrir skipan sérstakrar þóknunarnefndar í stað núgildandi ákvæða um gerðardóm og skipan fámennrar ráðgefandi höfundaréttarnefndar í stað núverandi höfundaréttarnefndar. Þetta á ekki að leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þar sem kostnaður við núverandi fyrirkomulag mundi falla niður á móti.