Samningar við EB um fiskveiðimál

95. fundur
Fimmtudaginn 07. janúar 1993, kl. 13:12:29 (4434)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér fannst ræða hv. 17. þm. Reykv. vera alveg með endemum og það er augljóst mál að þingmaðurinn er í miklum erfiðleikum að verja þann gjörning sem hér liggur fyrir og grípur m.a. til rangra fullyrðinga. Þingmaðurinn hélt því fram að fjórir flokkar á Alþingi væru ekki í grundvallaratriðum andsnúnir gagnkvæmum veiðiheimildum. Af því að það liggur fyrir að þingmaðurinn var einu sinni í Alþb. og nokkuð lengi vil ég minna hann á að það liggur ekki fyrir nein samþykkt innan Alþb. í þessa veru. Þetta er rangt. Þetta eru hrein ósannindi og hv. þm. ætti ekki að fara að taka formann síns flokks til fyrirmyndar í frásögnum af staðreyndum. Það er ekki til afbötunar.
    Ég vil segja þingmanninum að ég er gjörsamlega andvígur því að veita útlendingum heimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og ég tel að það sama eigi við um aðra þingmenn Alþb. Ég tel að hv. 17. þm. Reykv. eigi ekki að vera að fara með fleipur af þessu tagi. Fyrir utan þá dæmalausu vörn að fara að grípa til samningsins við Belga sem Sjálfstfl. ber ábyrgð á og gerður var 1975. Það er ekki vörn í málinu að minna á vonda samninga til að verja þennan. Þessi samningur verður ekki betri þó menn geti bent á að Sjálfstfl. hafi þá eins og oft áður verið aumingi í samskiptum við útlendinga. Miklu fremur er ástæða til að óttast að í framtíðinni, á grundvelli þessa samkomulags, rammasamnings, muni menn semja áfram af sér og til verri vegar en verið hefur.