Lánsfjárlög 1993 o.fl.

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 18:39:49 (4765)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til lánsfjárlaga. Þetta frv. hefur verið til umfjöllunar í nefndinni og það dróst að afgreiða það fyrir jólin.
    Um málið hefur verið mikið fjallað og ég þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir góða og málefnalega umfjöllun um þetta mál. Það varð ekki samstaða um málið, en meiri hlutinn flytur nokkrar brtt.
    Ég vil byrja á að rekja þær till. sem eru fluttar til breytinga á frv. sem eru á þskj.

533, 551 og 589. Á þskj. 533 er í fyrsta lið fjallað um breytingu á 1. gr. frv., en þar er kveðið á um heildarlántökur ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Í frv. var þetta 15 milljarðar og 800 millj., en á endanum verður það líklega 15 milljarðar 970 millj. þegar búið er að fara í gegnum allan þennan hrærigraut.
    Síðan er brtt. við 3. gr. frv. Þar eru t.d. breytingar á lántökuheimild Lánasjóðs ísl. námsmanna þar sem reiknað er með að hún hækki um 360 millj. Þessi tillaga stafar af mistökum við gerð fjárhagsáætlunar lánasjóðsins, en þar féllu niður 300 millj. vegna greiðslu afborgana og vaxta.
    Enn fremur er í 3. gr. lagt til að lántökuheimild Pósts og síma flytjist yfir í 5. gr. þannig að stofnunin geti leitað beint lána hjá erlendum lánastofnunum, en hjá stofnuninni er sú skoðun að hún gæti hugsanlega aflað sér hagstæðari lána með þeim hætti en fara í gegnum ríkissjóð.
    Þá er lagt til að Síldarverksmiðjur ríkisins fái heimild til að taka lán allt að 130 millj. kr. Það er vegna þess að rekstraráætlun hefur verið endurskoðuð og þetta yrði gert í tilefni af því.
    Í 4. gr. er lagt til að heimild Landsvirkjunar verði aukin upp í 7 milljarða 750 millj. Þetta stafar af gengisbreytingum. Auk þess er lántökuheimild Byggingarsjóðs verkamanna verði 6 milljarðar 870 millj. kr. og húsbréfadeildin lækki um 4 milljarða. Það er vegna tilflutnings sem átti sér stað fyrir jólin, en þá var einmitt flutt heimild frá 1993 yfir á 1992 til þess að það yrði ekki hlé á útgáfu húsbréfa.
    Síðan er að lokum lagt til að lántökuheimild Iðnlánasjóðs verði hækkuð um 300 millj. kr. til að mæta þörfum sjóðsins.
    Í 5. gr. er bætt við eins og áður er getið hækkun vegna Pósts og síma, en þar er um það að ræða að Póstur og sími er að taka þátt í lagningu ljósleiðara yfir Norður-Atlantshafið og þessi fjárhæð er nauðsynleg í því skyni.
    Þá er lagt til við 6. gr. að heimilt sé að nýta lántökur sem um er getið í viðauka innan lands í stað erlendrar lántöku. Þetta er gert m.a. fyrir ósk frá Stofnlánadeild landbúnaðarins sem hefur hug á að taka meiri innlend lán en erlend.
    Í sjötta lagi er brtt. við 11. gr. Hún felst fyrst og fremst í því að greinin er öðruvísi uppsett en var í frv. þannig að hún er miklu skýrari orðin en áður var. Í stað greinarinnar koma næu nýjar greinar er verða 11.--29. gr.
    Ég vek líka reyndar athygli á hinni nýju 27. gr. þar sem er nýtt ákvæði um framlag vegna veiða á refum og minkum.
    Síðan eru breytingar þarna sem felast í því að á eftir 11. gr. frv., þ.e. 29. gr. samkvæmt tillögu nefndarinnar, komi ný grein er verði 30. gr., svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt að yfirtaka skuldbreytingarlán til loðdýrabænda, að fjárhæð allt að 300 millj. kr., sem stofnað verði til á grundvelli 1. gr. laga nr. 112/1989, um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar, og að aflétta þeim veðtryggingum sem teknar hafa verið í sambandi við ábyrgð ríkissjóðs, enda taki Stofnlánadeild landbúnaðarins þátt í hliðstæðum aðgerðum.``
    Þarna er sem sé verið að koma þessu máli á hreint og að sjálfsögðu reiknað með því að fjmrn. hafi gott samstarf við Stofnlánadeildina um þessar aðgerðir og að þetta komist í framkvæmd og menn gangi í þessi verk með eðlilegum hætti.
    Í athugasemdum við lánsfjárlagafrv. eins og það var lagt fram kom fram á bls. 14 og 15 það álit að erlendir lánardrottnar telji að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum Fiskveiðasjóðs. Meiri hluti nefndarinnar telur í þessu sambandi rétt að árétta að samkvæmt lánsfjárlögum fyrir árið 1992, þ.e. lögum nr. 2 1992, ber ríkissjóður ekki ábyrgð á nýjum skuldbindingum sem Fiskveiðasjóður stofnar til eftir 1. mars 1992. Í samræmi við þetta er lagt til að fella niður ákvæði um Fiskveiðasjóð úr viðauka frv. Meiri hluti nefndarinnar telur að skoðanir erlendra lánardrottna um ríkisábyrgðir á lánum hafi ekki lagagildi á Íslandi og telur að ásetningur löggjafans um að afnema ríkisábyrgð á skuldbindingum Fiskveiðasjóðs hafi komið skýrt fram við setningu lánsfjárlaga fyrir árið 1992.

    Ég vil taka þetta sérstaklega fram vegna þess að það liggur alveg ljóst fyrir að Fiskveiðasjóður hefur ekki lengur ríkisábyrgð, hafði til skamms tíma ekki ríkisábyrgð á erlendum skuldbindingum, síðan var því bætt við við afgreiðslu síðustu lánsfjárlaga að það væru ekki til staðar ábyrgðir á innlendum skuldbindingum, en samt sem áður var þessi ályktun dregin í athugasemdum við frv. þegar það var lagt fram. Meiri hluti nefndarinnar vill að þetta sé algerlega afdráttarlaust þannig að erlendir lánardrottnar þurfi ekki að velkjast í vafa um hver sé vilji Alþingis í þessum efnum og hingað til sem hér eftir verður löggjafarvald á Íslandi í höndum Alþingis.
    Síðan vil ég geta brtt. sem eru á þskj. 551, en þar er í fyrsta lagi brtt. við 1. gr. lánsfjárlaganna sem leiðréttist í ljósi annarra tillagna eins og ég hef getið um áður. Talan verður 15 milljarðar 970 millj., en ekki 15 milljarðar 420 millj. eins og þarna stendur.
    Síðan er eitt mikilvægt mál, að á eftir 5. gr. komi ný grein er orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt að lána Byggðastofnun sérstaklega víkjandi lán að fjárhæð allt að 20 millj. til að mæta framlögum í afskriftarsjóð útlána í tengslum við ákvæði í viðauka II við búvörusamning frá 11. mars 1991.``
    Í honum fólst að ríkisstjórnin mundi þá væntanlega beita sér fyrir því að Byggðastofnun gæti lánað 100 millj. kr. til sérstakra verkefna í sveitum í tengslum við búvörusamninginn. Byggðastofnun hefur í sjálfu sér úr nægum fjármunum að spila til að lána út þetta fjármagn, en hins vegar er eiginfjárstaða stofnunarinnar slík og fjárhagsleg staða að öðru leyti slík og samkvæmt þeirri reglugerð sem um stofnunina gildir er henni skylt að leggja í afskriftarsjóð til að mæta þessum útlánum að hér er verið að gera ráð fyrir að fjmrh. láni víkjandi lán, sem þá telst með eigin fé stofnunarinnar í þessu efni, til að hægt sé að lána út þessa fjármuni. Það á þá að vera alveg tryggt að það sé hægt að gera það.
    Þá vil ég geta tillagna, sem eru á þskj. 589, sem meiri hluti nefndarinnar hefur ákveðið að flytja.
    Það er í fyrsta lagi till. um að í 1. gr. verði 15 milljarðar 970 millj. eins og áður er getið. Síðan þarf líklega að laga líka tölur í viðauka sem koma þá væntanlega í annarri brtt. sem er ekki frágengin endanlega.
    En við 5. gr. er brtt. um hækkun á lántökuheimild vegna Hitaveitu Vestmannaeyja úr 12 millj. í 16,2 millj.
    Síðan eru tvær nýjar greinar sem koma í lok II. kafla, en það er að fjmrh. sé heimilt að veita Íslenska járnblendifélaginu hf. bráðabirgðalán að fjárhæð allt að 150 millj. kr. og er heimilt að breyta því láni í víkjandi lán eða hlutafé í félaginu í tengslum við samninga milli eigenda um fjárhagslega endurskipulagningu þess. Þá er enn fremur heimilt að semja um frekari aukingu hlutafjár eða meiri víkjandi lán, enda hljóti slíkar ráðstafanir staðfestingu Alþingis.
    Hér er um það að ræða að leysa úr fjárhagsvandræðum járnblendifélagsins til eins eða tveggja ára. Það hefur árað illa í þessum rekstri, en menn telja að þetta séu tímabundnir erfiðleikar og að markaðurinn muni taka við sér aftur eftir kannski tvö til þrjú ár og að það sé þess vegna ástæða til þess og í rauninni hagkvæmt fyrir ríkissjóð, sem er meirihlutaeigandi í þessu fyrirtæki, og aðra eigendur fyrirtækisins að rétta það af og að með því bjargist þau verðmæti sem þarna eru í húfi og fyrirtækið geti í framtíðinni staðið undir því fjármagni sem í því er.
    Enn fremur er lagt til að í II. kafla komi grein þar sem fjmrh. verði heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að fengnu samþykki fjárln. Alþingis að semja við Suðureyrarhrepp um yfirtöku á hluta af skuldum Hitaveitu Suðureyrarhrepps í tengslum við sölu hreppsins á hitaveitunni til Orkubús Vestfjarða. Hitaveitan hefur átt í miklu samstarfi við orkubúið og þarna liggur fyrir að selja veituna til orkubúsins.
    Síðast en ekki síst er lagt til að í lánsfjárlögunum verði gerð breyting á nýsamþykktum lögum um breytingar í skattamálum, þ.e. lögum nr. 111/1992, um að 59. gr. laganna falli brott. Í 59. gr. er kveðið á um að einungis skuli endurgreidd 60% af virðisaukaskatti vegna vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað.
    Þegar menn settust niður eftir jólatörnina og fóru að velta fyrir sér áhrifum þessarar aðgerðar á byggingarvísitölu og verðbólgu gerðu menn sér grein fyrir því að byggingarvísitalan er bæði svo óhönduglega saman sett og hefur eins svo mikla yfirvigt í öllu okkar vísitölukerfi og vigtar óeðlilega mikið í lánsfjárlögum að skattahækkun sem kemur inn í byggingarvísitöluna upp á 400 millj. verkar sem meira en 1% hækkun á lánskjaravísitölu á meðan samsvarandi hækkun á framfærsluvísitölu væri ekki nema kannski einn tíundi af þeirri hækkun. M.a. í ljósi þessara áhrifa og ýmislegs fleira sem þarna kemur inn hefur ríkisstjórnin viljað falla frá þessari hækkun og meiri hluti efh.- og viðskn. flytur brtt. í samræmi við það.
    Síðan er fyrir nákvæmni sakir lagt til að fyrirsögn laganna verði: Frv. til lánsfjárlaga o.fl. vegna þess að þarna er búið að taka inn svo marga ólíka þætti.