Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:26:02 (4985)

     Gunnlaugur Stefánsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa verið til umræðu tvær tillögur um hvort vísa eigi till. til þál. um atvinnuþróun í Mývatnssveit til hv. umhvn. eða hv. allshn. Í mínum huga er það stærsta málið að þessi tillaga fái þinglega meðferð og rækilega skoðun og í það verði lögð vinna eins og frekast má verða. Ég hef fullt traust á allshn. til þess að fjalla um þessa tillögu og treysti formanni hennar og varaformanni og öllum hv. þm. sem þar sitja mjög vel til að fjalla um þetta brýna mál. Ég treysti einnig öllum hv. þm. í umhvn. til að fjalla um þetta mál. Og ég veit að undir forustu minni fengi þetta mál mjög rækilega skoðun þar á grundvelli þeirrar samstöðu og vinnubragða sem þar hafa tíðkast allt frá því að nefndin tók til starfa. Ég trúi því og treysti í ljósi þeirra orða sem hér hafa fallið um störf nefndarinnar að svo verði áfram. En hér eru deilur um það hvorum megin hryggjar þetta mál eigi setu í nefnd, umhvn. eða allshn. Hv. flm. hefur mælt með að málið komi til umhvn. en hæstv. umhvrh. hefur lagt til að málið verði til skoðunar í allshn.
    Hér er í senn um byggða- og atvinnumál að ræða fyrst og fremst. Eins og öll byggða- og atvinnumál tengjast þau umhverfinu með einum eða öðrum hætti. Ef um það næðist samstaða í þinginu og forsætisnefnd að öll byggða- og atvinnumál færu til umhvn. þá mundi ég styðja það. En um það þyrfti að nást breið og góð samstaða í þinginu svo slíkt mætti verða. Á meðan stjórnarandstaðan hefur hvorki lagt það til né vakið máls á því og þaðan af síður ríkisstjórnin verður að styðja það fremur að allshn. fjalli um þetta mál eins og allar hefðir þingsins hafa bent til fram til þessa.