Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 11:33:04 (5588)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef nokkur sveitarfélög vilja sameinast þá getur ekki eitthvert eitt fámennt sveitarfélag hindrað það. Sveitarfélögin munu einfaldlega sameinast og skilja þetta fámenna sveitarfélag eftir. Þannig að þessi röksemdafærsla er alveg út í hött. Ég vil enn fremur minna hæstv. ráðherra á það sem kom fram í fyrra andsvari að sameining gæti verið felld með minni hluta atkvæða. Það sjáum við hér í þinginu iðulega að lagafrv., stórir og miklir lagabálkar eru samþykktir með minni hluta atkvæða. Það eru innan við 32 þingmenn sem styðja stór og mikil frv. þannig að þessi rök ganga ekki heldur. Ég vil benda hæstv. félmrh. á að fyrir liggur og verður tekin til umræðu á morgun tillaga sem hlýtur að vera lögð fram með samþykki félmrh. um að falla frá lögþvingun, falla frá því að sameiginleg atkvæðagreiðsla fari fram yfir nokkur sveitarfélög, heldur að atkvæðagreiðslan verði í hverju einstöku sveitarfélagi. Enn fremur er í þessu skjali gerð sú tillaga og væntanlega með samþykki félmrh. um að breyta 109. gr. sveitarstjórnarlaganna eins og ég hef lagt til. Ég held að það væri meiri mannsbragur á því hjá hæstv. félmrh. að segja það hreint út að hún sé sammála því frv. sem ég hef lagt til. Ég var bara einfaldlega nokkrum mánuðum á undan henni að komast að þessari niðurstöðu.