Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 14:09:05 (5622)


     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að upplýsa það svo að ekki valdi misskilningi að skýrsla Byggðastofnunar hefur ekki verið samþykkt í stjórn hennar. Þar hefur verið tekist á um innihald skýrslunnar milli stjórnarfulltrúa og stjórnarandstöðufulltrúa. Niðurstaðan varð sú að senda hana út til umsagnar og fá ábendingar og umsagnir áður en stjórnin tæki endanlega afstöðu.
    En það var hyggilegt hjá hv. 3. þm. Vestf. að sverja af sér Alþfl., Jafnaðarmannaflokk Íslands, litla flokkinn með langa nafnið. Það var mjög hyggilegt. En það er spurning hvort þingmaðurinn er tilbúinn að sverja af sér Davíð Oddsson, hæstv. forsrh. Því að skýrslan er unnin samkvæmt prógrammi. Það er sendur tölvukubbur á milli stofnana og sagt: Þið eigið að vinna úr þessum tölvukubb. Í honum er prógrammið og svo eigið þið bara að prjóna við og setja það í orð. Í bréfi hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstfl., sem ætlaði að reisa við landsbyggðina ef ég man rétt og sá þrumufyrirsögn í málgagni sjálfstæðismanna á Vestfjörðum um fyrirætlanir í þeim efnum, segir, með leyfi forseta:
    ,,Erindi bréfs þessa er að kynna Byggðastofnun þau almennu markmið sem ríkisstjórnin leggur áherslu á varðandi framtíðarþróun og uppbyggingu hinna dreifðari byggða landsins.`` Og svo: ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á eflingu svonefndra vaxtarsvæða á landsbyggðinni.``
    Svo er sýnt á bls. 61 í þessari skýrslu hver þessi vaxtarsvæði eru sem ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á, ríkisstjórnin sem hv. 3. þm. Vestf. styður enn, og þar eru kalblettir. Það er öll Strandasýsla og allt Djúpið. Það er eyðimörk. Eyðimörkin er stefna Sjálfstfl. Svo ég held að hv. 3. þm. Vestf. verði nú að fara að sverja af sér Davíð Oddsson líka.