Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:13:08 (6002)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mitt andsvar við ræðu ráðherrans er á svipuðum nótum og síðasta þingmanns sem hér talaði, hv. 2. þm. Vesturl. Ingibjargar Pálmadóttur, vegna þess að mér fannst gæta líka misskilnings hjá ráðherra varðandi verkaskiptingu lækna og hjúkrunarfræðinga. Mér fannst eins og ráðherra liti svo á að hjúkrunarfræðingar bæru einhvern veginn ekki sjálfstæða og faglega ábyrgð á sínum störfum heldur

heyrðu með einhverjum hætti undir læknana, væru hálfgildings læknar en þó ekki með réttindi. Hjúkrunarfræðingar hafa alveg sérstakt verksvið og margir hjúkrunarfræðingar hafa mjög mikla menntun að baki í sínu fagi og m.a. í smitsjúkdómum. Það er annars konar menntun en menntun læknanna og alveg jafngild menntun og þeir hjúkrunarfræðingar hafa alveg jafnmikla sérfræðiþekkingu þó að hún sé annars eðlis heldur en læknanna.
    Þetta vil ég að komi hér fram og ég vil benda á það að hjúkrunarfræðingar hafa einmitt haft samband við fulltrúa í heilbr.- og trn. og bent á það að það vanti mikið upp á það að hjúkrunarfræðingar séu yfirleitt skipaðir í nefndir á vegum heilbr.- og trmrn. heldur sé fyrst og fremst einblínt á lækna.