Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:38:48 (6338)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að sú ákvörðun var tekin við fjárlagaafgreiðslu hér á Alþingi að loka Fæðingarheimili Reykjavíkur. Það var ákvörðun sem tilkynnt var við fjárlagaafgreiðsluna og samþykkt af öllum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar sem bera ábyrgð á þeirri ákvörðun. Ástæðan var m.a. sú að kostnaður á legurúm á Fæðingarheimilinu eins og það var orðið, því að aðeins var um að ræða 10 legurúm í notkun, var um það bil tvisvar sinnum meiri en kostnaður við sambærilega starfsemi á Landspítalanum svo að niðurstaðan varð að tekin var sú ákvörðun á hinu háa Alþingi, sem vissulega var umdeild en studd af þingmönnum stjórnarflokkanna og ráðherrum að sjálfsögðu, að loka Fæðingarheimilinu. Hugmyndin var hins vegar sú að reyna að byggja upp samsvarandi aðstöðu á Ríkisspítölunum sem ekki hefur verið gert og eru ýmsar ástæður fyrir því.
    Ég vil byrja á því að mótmæla því sem kom fram í máli hv. þm. hér áðan að þjónusta sú sem kvennadeild Landspítalans veitir fæðandi konum sé fyrir neðan öryggismörk. Það er ekki rétt og ég vara mjög við því að fólk sé með slíkar fullyrðingar því að það hlýtur að grafa undan öryggiskennd þeirra sem þar njóta þjónustu. Ég þori að fullyrða að starfsfólk Landspítalans, á fæðingardeildinni eins og öðrum deildum, og stjórnendur hans mundu ekki bjóða upp á þjónustu sem væri fyrir neðan öryggismörk. Svo er ekki þó að þarna sé erfitt um vik og mikið vinnuálag á starfsfólki.
    Það var spurt hvað til stæði að gera til þess að reyna að koma til móts við þau vandamál að fæðingar verða mjög margar nú í apríl og í maí og raunar í júlí líka af því sem séð verður, en hins vegar eru fæðingar ekki eins margar í júnímánuði. Lengur heldur en til júlíloka þykjast menn á Landspítalanum ekki sjá fyrir um hver þörfin verður á vistun fólks á kvennadeildinni en það er sem samt í apríl, maí og júlí sem verða mjög þungir og erfiðir mánuðir. Það eru tvenns lags aðgerðir sem koma til greina í því sambandi. Annars vegar er að flytja göngudeild krabbameinssjúklinga úr núverandi húsnæði í annað og fá þá það húsnæði sem göngudeildin er í undir fæðingardeild til þess að stækka við sig. Það tekur að sjálfsögðu einhvern tíma og er ekki lausn sem getur gengið mjög hratt í gegn. Hinn möguleikinn er sá að opna Fæðingarheimilið að nýju og þá um takmarkaðan tíma og þá sem sængurkvennadeild þannig að fæðingar eigi sér ekki stað þar, heldur verði það opnað sem sængurkvennadeild. Ég hef rætt þetta við stjórnendur Landspítala, þ.e. formann stjórnar og framkvæmdastjóra. Þær viðræður standa enn yfir og ég hef lýst því yfir að ég væri reiðubúinn til þess að standa að því að hægt væri að opna Fæðingarheimilið að nýju í nokkra mánuði til þess að taka við þeim sjúklingum sem þar gætu legið á sængurkvennadeild. Hins vegar geri ég mér að sjálfsögðu ljóst að það er ekki frambúðarlausn. Menn þurfa að hugleiða hver á að verða frambúðarlausnin með Fæðingarheimili Reykjavíkur. Það er alveg ljóst að eins og það var orðið, þ.e. 10 rúma deild, er það afskaplega óhentugt og óhagkvæmt í rekstri. Ef það á að vera eitthvert vit í því að reka þá starfsemi sem þar er, þá þyrfti þar að vera um að ræða helmingi stærri stofnun eða 20 rúma fæðingarstofnun eins og upphaflega var í rekstri Fæðingarheimilisins. Við munum ræða það á þessu ári við stjórnendur Ríkisspítala hvort slík lausn sé sjáanleg fyrir næsta ár og finnanleg, en ég ítreka að það gerist því aðeins að Fæðingarheimili Reykjavíkur verði hægt að reka með fyllstu hagkvæmni og þá miðað við a.m.k. 20 rúma fæðingarstofnun í stað 10 eins og hún var orðin undir lokin.