Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:46:13 (6340)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili sem málefni Fæðingarheimilisins koma til sérstakrar meðferðar á Alþingi. Það hefur verið rætt aftur og aftur. En þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem stjórnarflokkarnir taka upp á því að fara að spyrja hver annan um ástandið á Fæðingarheimili Reykjavíkur og kvennadeild Landspítalans. Það verður auðvitað að segjast að það er afar sérkennilegt þegar hv. varaformaður heilbr.- og trn. telur ástæðu til þess að veitast sérstaklega að hæstv. heilbrrh. út af þessu máli. Staðreyndin er auðvitað sú að Sjálfstfl. ber þarna meiri ábyrgð en ýmsir aðrir allt fram til þess tíma að hæstv. núv. heilbrrh. tók við störfum. Það var Sjálfstfl. sem lofaði því aftur og aftur á undanförnum árum að það yrði áfram starfsemi hjá Fæðingarheimilinu. Ég á í fórum mínum nokkrar úrklippur af viðtölum við Davíð Oddsson, hæstv. forsrh. þar sem hann lýsir því yfir að það verði ævinlega tryggt að það verði starfsemi á Fæðingarheimilinu. Það fyrsta sem gerist í þessum málum eftir að hann tekur við störfum sem forsrh. er þó það að Fæðingarheimilinu er lokað. Tvískinnungur og hræsni Sjálfstfl. í þessu máli er auðvitað svo dæmalaus og má segja að kórónan á sköpunarverkinu hafi svo verið sú þegar hv. 13. þm. Reykv. fór að spyrja hæstv. heilbrrh. um þessi mál hér áðan.
    Nei, staðreyndin er auðvitað sú, virðulegi forseti, að það er búið að skera niður þjónustu hjá heilbrigðisstofnunum í landinu. Hversu oft hafa þingmenn ekki heyrt hæstv. heilbrrh. halda því fram að þjónusta hafi ekki verið skorin niður? Ef menn koma á kvennadeild Landspítalans, þá sjá menn dæmi um það að þjónusta hefur verið skorin stórkostlega niður og eina svarið við þessu vandamáli er auðvitað það að Sjálfstfl. tjái sinnaskipti sín í verki og styðji stjórnarandstöðuna í því að afhenda Landspítalanum Fæðingarheimilið þannig að þar geti farið fram starfsemi með myndarlegum hætti. Það er í raun og veru auðvelt verk og einfalt og það sem liggur beinast við í stöðunni í dag.