Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:55:56 (6344)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna því að fá tækifæri til þess að ræða þetta mál við heilbrrh. og um þjónustu kvennadeildarinnar almennt og vil þakka það og jafnframt þakka gott samstarf og von um áframhaldandi samstarf sömuleiðis. Ég ætla ekki að deila við ráðherra um hvar öryggismörk liggja. Það má alltaf deila um slíkt. Þetta er faglegt mat og þeir sem gera ýtrustu kröfur hafa sitt sérstaka mat á því hvar öryggismörkin liggja.
    Ég tel afar brýnt að það verði ákveðin framtíðarstefna um þjónustu við fæðandi konur og fjölskyldur þeirra. Sú stefna þarf að vera þannig að sveigja megi hana að kröfum hvers tíma. Ég tel alveg ljóst sem dæmi að engin þjónustugerð muni hæfa öllum einstaklingum. Það er því nauðsynlegt að við getum í framtíðinni boðið fjölþætta þjónustu í þessum málaflokki og við getum boðið fólki val. Það sem brýnast er nú er að bregðast strax við því vandræðaástandi í fæðingarþjónustu sem búast má við á komandi mánuðum og tryggja þannig heilsu og aðra velferð nýrra borgara og fjölskyldna þeirra. Ég fagna því að ráðherra vill stuðla að enduropnun Fæðingarheimilisins og hvet hann til þess að finna lausn á áframhaldandi rekstri ef þess yrði einhver kostur.
    Við höfum einnig hingað til getað státað af einum lægsta burðarmálsdauða í heiminum og við hreykjum okkur af nánum fjölskyldutengslum í heimi þar sem slíkt fer minnkandi. Við erum stolt af íslenskum börnum sem eru hraust og vel af guði gerð. Ég tel að við eigum að sýna og sanna fyrir okkur sjálfum að við munum áfram hafa efni á að hreykja okkur af heilbrigðiskerfi sem er eitt hið besta í heimi.