Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 14:36:55 (6532)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er nokkuð jafnnær eftir þetta svar ráðherra. Mér sýndist í fljótu bragði að þetta frv. héti kannski ekki alveg réttu nafni. Þetta frv. heitir Frumvarp til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla. Mér sýndist kannski skynsamlegra að kalla þetta Frumvarp til laga um Ingvar Ásmundsson vegna þess að það hefði gengið illa af ráðuneytinu að ná samstöðu við skólastjórn Iðnskólans um þessi mál. Svar ráðherra breytti engu um þessa skoðun mína. Mér sýnist að þarna sé um ágreining að ræða og það hefur ekki komið neitt svar um hvað á að kenna á þessum brautum öðrum sem á að fara að stofna til. Það skulum við ræða nánar vegna þess að það er bersýnilegt að hér er um að ræða frv. sem snertir verkmenntakerfið í landinu í heild afar mikið þó það láti kannski lítið yfir sér í fyrstu.