Vörugjald af ökutækjum

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 18:14:07 (6887)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að kynna hér álit efh.- og viðskn. á frv. til laga um vörugjald á ökutækjum, eldsneyti o.fl.
    Nefndin stendur öll að þessu áliti. Þó skrifa Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Halldór Ásgrímsson undir með fyrirvara.
    Þetta frv. fór til umsagnar allmargra aðila sem komu jafnframt á fund nefndarinnar. Ég ætla að kynna þær breytingar sem nefndin leggur til á frv.
    1. Lögð er til orðalagsbreyting á 1. gr. sem felur ekki í sér efnislega breytingu.
    2. Lagt er til að einfalda gjaldskrána og vörugjald miðist við sprengirými bifreiða en ekki við þyngd.
    3. Lagt er til að 4. gr. verði breytt. Þar er flutt á milli og lækkað vörugjald af hópferðabifreiðum þannig að bifreiðar sem taka 18 til 30 farþega falli í 15% gjaldflokk. Þá er lagt til að ökutæki, sem knúin eru rafhreyfli, beri 30% vörugjald, fjórhjól beri 70% vörugjald og að þau vélknúnu ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í II. kafla frv. verði í 70% gjaldflokki.
    4. Lagt er til að við 5. gr. bætist fjórir flokkar ökutækja sem ráðherra er heimilt að lækka eða fella niður vörugjald af: Í fyrsta lagi bifreiðar sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, búnar eru hjólastólalyftu og samþykktar eru af Tryggingastofnun ríkisins. Rétt þykir að koma til móts við þá aðila sem þarna eiga í hlut. Í öðru lagi líkbílar. Í þriðja lagi dráttarvélar til nota við landbúnaðarstörf. Í fjórða lagi verði heimilt að lækka vörugjald af leigubifreiðum í 30%. Að baki tillögunni liggja þau sjónarmið að leigubifreiðar eru atvinnubifreiðar en þær eru yfirleitt með 30% vörugjaldi. Enn fremur er lagt til að ráðherra sé heimilt að setja skilyrði fyrir lækkun eða niðurfellingu vörugjalda af flokkum sem taldir eru upp í 2. mgr. 5. gr.
    5. Lögð er til viðbót við 6. gr. Þar er spurning um forskráningu hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf.
    6. Lögð er til breyting á greinarfyrirsögn 8. gr.
    7. Lagðar eru til breytingar á 8. og 9. gr. sem fela ekki í sér efnisbreytingar.
    8. Lögð er til breyting á 10. gr. í samræmi við breytingartillögu við 3. gr., sbr. 2. tölul. nál.
    9. Lagðar eru til tvær orðalagsbreytingar á 11. gr. sem fela ekki í sér efnisbreytingu.
  10. Lagt er til að ný grein komi á eftir 12. gr. þar sem ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða endurgreiðslu vörugjalds af ökutækjum sem eru seld eða leigð úr landi.
  11. Lagt er til að 13. gr. verði breytt þannig að vörugjald af bensíni verði 90%.
  12. Lagt er til að við 17. gr. bætist ákvæði um að gjaldskyldir aðilar skili vörugjaldsskýrslu til innheimtumanns ríkissjóðs.
  13. Lagt er til að í 18. gr. verði notað orðið: gjöld í stað ,,tolla`` til þess að valda ekki misskilningi.
  14. Lögð er til orðalagsbreyting á 20. gr.
  15. Lagt er til að 22. gr. verði breytt þannig að öllum þeim sem flytja inn ökutæki í atvinnuskyni verði settur sami gjalddagi á vörugjaldi.
  16. Lögð er til breyting á 23. gr. til að taka af öll tvímæli um að heimildin í ákvæðinu taki til vörugjalds af eldsneyti.
  17. Lagt er til að 24. gr. verði breytt svo að skýrt sé hverjir annist innheimtu, álagningu og eftirlit með vörugjaldi.
  18. Lagt er til að 28. gr. verði breytt þannig að gildistaka laganna verði 1. júlí 1993.
  19. Loks er lagt til að við bætist ákvæði til bráðabirgða um að ákvæði laganna skuli ná til allra vara sem ekki hafa verið teknar til tollafgreiðslu við gildistöku þeirra.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. en þó ber þess að geta að Ingi Björn Albertsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins og hv. þm. sem ég gat um hér áðan skrifa undir með fyrirvara.