Fjárskuldbindingar fyrir ríkissjóð og sveitarfélög

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 16:27:41 (7085)

     Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 803 um kynningu á efni reglugerða sem fela í sér fjárskuldbindingar fyrir ríkissjóð og sveitarfélög.
    Í frv. þessu er gert ráð fyrir að eftirlit þingsins með setningu reglugerða verði eflt og er það í samræmi við þá stefnu sem Alþingi markaði með setningu nýrra þingskapalaga vorið 1991. Þau lög miða m.a. að því að efla eftirlit þingsins með störfum framkvæmdarvaldsins og í samræmi við það hafa fastanefndir þingsins meira svigrúm en áður til að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til þeirra.
    Árlega heimilar þingið framkvæmdarvaldinu að setja fjölda reglugerða með stoð í lögum. Í mörgum tilvikum er þó ekki ljóst þegar heimild er veitt hvernig þessu valdi verði beitt eða hvaða fjárskuldbindingu það muni hafa í för með sér fyrir ríki eða sveitarfélög. Fyrir kemur að þessum heimildum sé beitt á mjög vafasaman hátt og áhöld um hvort viðkomandi reglugerð eigi sér stoð í lögum miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið í umræðum á hv. Alþingi um viðkomandi lagafrv. Mörg dæmi eru einnig fyrir því að reglugerðir séu settar seint eða ekki þrátt fyrir skýr ákvæði þar að lútandi í lögum. Verði af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið mun framkvæmdarvaldið í ríkara mæli en áður

að setja reglugerðir svo koma megi í framkvæmd gömlum og nýjum ákvæðum samningsins. Það er ekki ólíklegt að einhverjar af þessum reglugerðum verði settar með stoð í gömlum lagaheimildum og þeim þannig beitt á annan hátt en til stóð þegar lögin voru sett. Líklegt er að sumar reglugerðanna hafi í för með sér verulegan kostnað fyrir ríki og sveitarfélög sem Alþingi hefur ekki fengið tækifæri til að fjalla um eða taka afstöðu til.
    Við höfum nú þegar séð og fjallað um frv. vegna EES sem fela í sér heimildir til ráðherra að setja reglugerðir sem munu leggja verulegar byrðar á sveitarfélögin. Þar er ekki verið að tala um nokkrar milljónir eða tugi milljóna, þarna eru á ferðinni útgjöld sem nema hundruðum og þúsundum milljóna á fáum árum.
    Flm. þessa frv. þykir því tímabært að lögtaka ákvæði sem eiga að tryggja það að þingið fái greinargóðar upplýsingar um þær reglugerðir sem fyrirhugað er að setja og ekki síður um þær fjárskuldbindingar sem reglugerðir hafa í för með sér. Tilraun hefur verið gerð til þess að láta fjárlagadeild fjmrn. leggja fram kostnaðarmat með þeim frv. sem lögð eru fram. Þetta er ágæt viðleitni en oftar en ekki er þetta kostnaðarmat afar ónákvæmt eða ófullnægjandi. Reglugerðir varða almenning, fyrirtæki og sveitarfélög oft meira en sjálf lögin sem þær byggjast á. Þess vegna er gert ráð fyrir í þessu frv. að öllum frv. til laga sem lögð verða fram á Alþingi fylgi sérstök greinargerð um þær reglugerðir sem gert er ráð fyrir að verði settar. Í greinargerð skal tíunda efni reglugerðarinnar og skýra þann kostnað sérstaklega sem hún kann að hafa í för með sér fyrir ríki og sveitarfélög. Með því gefst þingnefndum betra tækifæri en áður til að meta reglugerðarákvæði frv. og fylgjast með því hvernig ráðherrar fara með það umboð sem þingið veitir þeim.
    Flm. þessa frv. telja einnig nauðsynlegt að fjárln. þingsins hafi tök á að fylgjast með þeim fjárskuldbindingum sem felast í reglugerðum sem settar verða. Þess vegna er sérstaklega kveðið á um það í frv. að fjmrh. sé skylt að láta meta fjárskuldbindingar og fjárútlát sem felast í sérhverri reglugerð sem sett er. Hann skal jafnframt gera fjárln. Alþingis grein fyrir þeim innan átta vikna frá því að viðkomandi reglugerð birtist í Stjórnartíðindum. Ákvæði þetta ætti að gera fjárln. kleift að fylgjast skipulega með þessum kostnaði og taka tillit til hans við fjárlagagerð. Ákvæðið veitir fjárln. einnig möguleika á að veita framkvæmdarvaldinu ákveðið aðhald og hafa eftirlit með því hvernig ráðherrar fara með það umboð sem þeim hefur verið veitt með heimild til að setja reglugerð.
    Verði af aðild Íslands að samningum um Evrópska efnahagssvæðið sem þó er með öllu óvíst eins og málum er nú komið er mikilvægara en áður að fjárln. þingsins geti fylgst með þessum skuldbindingum. Viðbúið er að reglugerðarvaldi verði beitt með öðrum hætti en áður hefur tíðkast verði af aðild okkar við EES og því mjög brýnt að frv. þetta verði að lögum sem allra fyrst.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjárln.