Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:19:26 (7350)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Allítarlegar umræður hafa farið fram um atvinnuleysi og Atvinnuleysistryggingasjóð sem er auðvitað eðlilegt vegna þess að hér er um að ræða alvarlegasta þjóðfélagsmein á Íslandi um þessar mundir. Mér heyrist að í síðari hluta umræðunnar hafi ráðherrann kannski aðeins náð að hafa stjórn á skapi sínu sem bendir til þess að það gæti orðið til þess að menn gætu afgreitt þessi mál skikkanlega í heilbr.- og trn. þar sem menn hafa fyrir framan sig tvö frv. sem hljóta auðvitað að fá þinglega meðferð samtímis. Auðvitað er útilokað að láta stjórnarfrv. hafa forgang í því.
    Ég vildi aðeins víkja að nokkrum atriðum sem fram komu í máli hæstv. ráðherra um leið og ég þakka honum fyrir þau svör sem ég hann veitti við spurningum mínum. Þá er í fyrsta lagi þau ummæli hans sem lutu að því að í öðrum löndum eru menn ekki á atvinnuleysisbótum árum saman. Menn fara þar inn í svokölluð félagsleg stuðningskerfi af margvíslegu tagi. Þau kerfi eru hins vegar ekki til hér. Þess vegna erum við að nokkru leyti að láta Atvinnuleysistryggingasjóð gegna verkefni sem þessi félagslegu kerfi gera annars staðar. Það er ekki aðeins gert í frv. okkar alþýðubandalagsmanna heldur er það líka gert í því frv. sem hér liggur fyrir. Að nokkru leyti er líka farið inn á þá braut í þessu frv. Þetta leiðir auðvitað hugann að því hvað hin félagslega aðstoð á Íslandi er veik, sú félagslega aðstoð sem tekur við þegar almennum réttindakerfum eða sértækum réttindakerfum sleppir. Þegar Atvinnuleysistryggingasjóður er búinn að gera skyldu sína, þegar réttindi fólks í veikindum eru tæmd, þegar örorka og örorkulífeyrir kemur ekki til þá er alveg ljóst að samkvæmt gildandi lögum eiga sveitarfélögin að koma til skjalanna, það stendur í lögunum um félagslega þjónustu sveitarfélaga. Þau hafa framfærsluskyldu eins og hæstv. ráðherra benti á. Þá stöndum við frammi fyrir nýjum vanda sveitarfélaganna í landinu út af atvinnuleysinu, miklu alvarlegri og þyngri en þau hafa nokkurn tímann áður staðið frammi fyrir. Fjöldi sveitarfélaga um land allt hefur greitt mjög lítið í félagslegan framfærslustuðning. Önnur hafa greitt allháar upphæðir en þó tiltölulega mjög lítinn hluta af heildarútgjöldum sínum.
    Nú er það þannig að yfir þessi sveitarfélög, sem eru oft vanmegna, eru að hellast framfærslukröfur sem þau ráða afskaplega lítið við. Spurningin sem við stöndum þá frammi fyrir er sú: Er ekki óhjákvæmilegt um leið og við endurskoðum reglur um atvinnuleysistryggingar að menn skoði jafnframt þá hluti sem snúa að hinni almennu félagslegu aðstoð sem sveitarfélögin eiga að veita? Ég er auðvitað fyllilega sammála hæstv. heilbrrh. um það að Atvinnuleysistryggingasjóður og það kerfi, sem hann byggir upp, á ekki að verða til þess að létta því af sveitarfélögunum sem þau hafa þó borið þannig að þau minnki útgjöld sín til félagsmála vegna þess að Atvinnuleysistryggingasjóður styrki þjónustu sína. Ég held að með nokkrum rétti megi t.d. halda því fram að með vaxandi atvinnuleysi og þeirri staðreynd að fleiri sækja til Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa færri sótti til félagsmálastofnana sumra sveitarfélaga eins og t.d. í Reykjavík og Kópavogi. Staðan er t.d. þannig í Reykjavík að árið 1992 voru skjólstæðingar Félagsmálastofnunar færri, mun færri en árið 1991. Talan á fyrstu þremur til fjórum mánuðum þessa árs er að verða svipuð og hún var á fyrstu þremur til fjórum mánuðum ársins 1991 þegar atvinnuleysið var miklu minna. Bersýnilegt er að þessi fjárhagslega byrði á sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er núna að vaxa mjög mikið frá því sem var á sl. ári.

    Einmitt af þessum ástæðum leggjum við alþýðubandalagsmenn það til í frv. okkar að Atvinnuleysistryggingasjóður verði fluttur til félmrn. þannig að þetta verði eitt heildarkerfi þar sem hver þáttur er skýrt afmarkaður í ákveðnum lögum en þetta verði eitt heildarkerfi þar sem menn vinni saman að lausnum á tilteknum félagslegum verkefnum. Þetta vildi ég segja í fyrsta lagi, virðulegur forseti.
    Í öðru lagi vildi ég aðeins koma að útgjaldaþætti þessara mála. Mig minnir að í umsögn fjmrn., sem ég er reyndar ekki með fyrir framan mig, sé gert ráð fyrir að það vanti 1.600 millj. í Atvinnuleysistryggingasjóð á þessu ári miðað við það atvinnuleysisstig sem var þegar umsögnin var gefin út. Nú bendir margt til þess að atvinnuleysið verði meira og þarna dugi ekki til 1.600 millj. heldur þurfi þar að koma til nokkru hærri tala. ( Gripið fram í: Hvert stig er 600 millj. kr.) Hvert stig er talið 600 millj. segir hv. þm. Til viðbótar þessum vanda sem er á bilinu 1,5--2 milljarðar kr. kemur svo auðvitað sú hækkun á bótarétti sem við erum að tala um í frv. sem verður vonandi bætt í meðförum heilbr.- og trn. Við erum með öðrum orðum að tala um tölu sem er a.m.k. í kringum tvo milljarða kr. Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja fram fyrir þinglokin frv. til fjáraukalaga sem gerir það kleift að Atvinnuleysistryggingasjóður geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt gildandi lögum? Það er alveg óhjákvæmilegt að fá upplýsingar um það hvort það er ætlunin og/eða a.m.k. yfirlýsingu um að jafnvel þótt aukafjárlög verði ekki samþykkt þá verði staðið að fullu við lagaákvæðin um Atvinnuleysistryggingasjóð. Nú ber svo vel í veiði að í salnum eru a.m.k. þrír fjárlaganefndarmenn og auk þess tveir fyrrv., annar að baki mér og hinn ekki langt undan mér á vinstri hönd. Auðvitað kann vel að vera að þessi mál hafi verið rædd án þess að ég viti neitt um það en ég held að nauðsynlegt sé að fá upplýsingar um það hvort það er ætlunin að flytja fjáraukalagafrv. sem bæti 2--2,5 milljörðum kr. við Atvinnuleysistryggingasjóð. Hæstv. núv. heilbrrh. hélt margar innblásnar ræður um það á síðasta kjörtímabili að ríkisstjórnin ætti ekki að borga meira út úr ríkissjóði en stæði í fjárlögum eða fjáraukalögum. Hann hlýtur því að vera sammála okkur um að það sé eðlilegt að flytja fjáraukalagafrv. í þessu skyni. Af þeim ástæðum legg ég þessa spurningu fyrir hann.
    Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra um eitt atriði sem ég vænti að hann heyri --- hann er að spjalla við Framsfl., það er ágætt --- ( Gripið fram í: Hluta af honum.) svona part af honum. Það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um lýtur að þeim málum sem hann ræddi hér áðan við hv. 2. þm. Suðurl. í sambandi við atvinnuleysistryggingaréttindi bænda. Ég held að ég hafi alveg skilið uppsetningu eða svar ráðherrans. Ég skildi það þannig að að bændur ættu rétt á þessum bótum vegna þess að tryggingagjaldið innheimtist af bændum jafnharðan á tiltekinn hátt og þeir eiga sennilega erfiðara með það en nokkrir aðrir atvinnurekendur eða nokkrir aðrir einyrkjar í landinu, liggur mér við að segja, að komast undan því að borga það ef þeir á annað borð leggja inn afurðir sínar. Spurning mín er þá þessi: Hvað um aðra sem eru starfandi á lögbýlum en eru ekki bændur? Eiga kannski minni háttar bústofn sem er hluti af launakjörum þessa fólks en teljast ekki bændur í skilningi laganna og eru þess vegna ekki með reiknuð laun eins og bændur eru yfirleitt. Spurning mín er um þetta fólk. Ég held að staða þess í sveitum sé jafnvel valtari en bændanna sjálfra. Ef á annað borð er þröngt fyrir dyrum í landbúnaði um þessar mundir, sem ég hygg að sé, þá geri ég ráð fyrir því að vinnuöryggi þessa fólks sé tæpt löngu áður en kemur að bændunum sjálfum. Það er svo skrýtið þó mönnum finnist það kannski sérkennilegt að ótrúlega mikill fjöldi fólks á Íslandi vinnur takmarkaðan tíma á bændabýlum, tekur út launin sín í einhverri minni háttar bústofnseign, og fær kannski þá að greiða tryggingagjald af því innleggi sem menn hafa af bústofnseigninni, segjum að það séu 50 rollur eða eitthvað því um líkt. En það er þá eina greiðslan og þá spyr ég: Hvernig eru atvinnuleysisbætur þessa fólks ákveðnar? Fær þetta fólk aðeins hluta atvinnuleysisbóta af því að það greiðir bara hluta gjalds og er ekki með fullt grundvallarbú eins og það var kallað áður fyrr? Þessar spurningar vildi ég leggja fyrir hæstv. ráðherra, annars vegar varðandi almennt starfsfólk á lögbýlum og hins vegar varðandi aukafjárlög.