Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:43:46 (7355)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Tillagan í frv. alþýðubandalagsmanna gengur út á það að fjármögnun þeirra viðbótarverkefna sem frv. gerir ráð fyrir sé sérstaklega úr ríkissjóði og sé umfram hið almenna tekjukerfi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er því bersýnilegt að ráðherrann er að þessu leytinu til að snúa út úr og reyna að hindra það eins og hann getur að frv. sem alþýðubandalagsmenn hafa lagt fram fái þinglega meðferð. Hann er greinilega á móti því. Við munum auðvitað freista þess ef hann fæst ekki til þess að tryggja það að málið verði samþykkt eins og kostur er, þá munum við auðvitað freista þess og hljótum að gera brtt. við afgreiðslu þessa máls og sjá hverju fram vindur. En ég segi alveg eins og er, að þær stellingar sem hæstv. ráðherra setur sig í gagnvart frv. okkar alþýðubandalagsmanna benda í fyrsta lagi til þess að hann hafi vonda samvisku, en í öðru lagi til þess að hann leyfir sér meiri hroka gagnvart stjórnarandstæðingum en góðu hófi gegnir. Það kann vel að vera að hann hafi meiri áhrif hér í þinginu en ég, það kann vel að vera. En það að lýsa því yfir við þingheim er ekki skynsamlegt, hæstv. ráðherra. Það lýsir ekki mikilli auðmýkt gagnvart Alþingi Íslendinga. Það verð ég að segja.
    Loks þetta: Hæstv. ráðherra hefur því miður engu svarað um það hvort hann vill beita sér fyrir því að hér verði flutt fjáraukalög eða ekki í þessu máli. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að stjórnarandstaðan taki það þá til athugunar að hún flytji frv. til fjáraukalaga til þess að hlutur Atvinnuleysistryggingasjóðs sé tryggður og þeirra sem þurfa fé úr honum.