Umferðarlög

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 18:46:36 (7576)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú kannski ekki miklu við að bæta við það sem fram kom hjá mér í fyrri ræðu en mér þykir þó rétt að svara eilítið því sem fram kom hjá formanni allshn. Eins og fram kom hjá formanninum, þá sátu aðrir yfir þessu verki en ég meðan að því var unnið en ég hins vegar vakti athygli á því að það er eftir að málið var tekið út úr nefnd sem þessi erindi berast. Og auðvitað hlýtur maður, a.m.k. hugsa ég það þannig að þegar einstakir aðilar sem hagsmuna eiga að gæta gera athugasemdir við

afgreiðslu máls og óska eftir fundi með nefnd, þá sé sjálfsagt að verða við því. Og mér sýnist á þeim gögnum sem þeir hafa lagt fram og þeim sjónarmiðum sem þeir hafa kynnt, þá hafi þeir allnokkuð til síns máls.
    Það bendir nú ekki til neins ágreinings milli manna í sama flokki þó að menn vilji taka á málum af þeirri víðsýni að hlusta á sjónarmið annarra og í raun og veru staðfesti hv. formaður nefndarinnar orð mín með ræðu sinni hér áðan þar sem fram kom að þyrfti að fá skýringar á hinu og þessu.
    Þá vil ég einnig geta þess sem fram kom hjá henni varðandi það að ég hafi ekki setið fund síðasta mánudag, þá var það af tilteknum ástæðum sem formanni var kunnugt um og hér var um aukafund að ræða sem ég andmælti ekki að yrði haldinn þó að það væri vandséð hvernig ég gæti mætt til fundar sem reyndar fór svo að ekki var hægt. Mér þykir miður ef það er orðið aðfinnsluefni að maður andmælir ekki að fundir í nefnd séu haldnir á þeim tíma sem maður getur ekki mætt. Hitt verð ég að segja að það kom mér nokkuð á óvart að á þeim fundi skyldi vera eitt af stóru málunum sem nefndin er að glíma við tekið út úr nefnd, en ég var að fá hér í hendur nál. um frv. til skaðabótalaga. Mér var ókunnugt um að það stæði til að ljúka yfirferð þess máls á fundinum á síðasta mánudag.
    Hvað varðar þau orð formanns nefndarinnar að tími sé til stefnu og menn geti tekið þingmannamál fyrir, þá finnst mér það vera til bóta að heyra formann nefndarinnar gefa undir fótinn með það að þingmannamál komi til umræðu innan nefndarinnar. Ég er hér með fundarboð fyrir næsta fund sem verður í fyrramálið og þar sé reyndar ekki nema eitt þingmannamál á dagskrá auk stjfrv. og það er mál sem formaðurinn sjálfur að mér skilst er 1. flm. að.