Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 18:12:46 (7768)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þessar upplýsingar sem hafa komið hér fram. Þær staðfesta auðvitað það að forseti er í miklum vanda sem stafar fyrst og fremst af því að óljóst er hvað verður um þrjú stór mál sem hafa verið í undirbúningi á vegum ríkisstjórnarinnar og ganga undir samheitinu sjávarútvegsmál.
    Með hliðsjón af því hygg ég að það væri skynsamlegast fyrir alla aðila að hætta þingstörfum í dag núna vegna þess að segjum að þessi frumvörp komi nú ekki fram, þá er reynslan auðvitað sú að þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu eru vafalaust tilbúnir til þess að semja sig í gegnum lok þingsins með venjulegum hætti og það leysir engan vanda og flýtir ekkert fyrir að vera að tala hér í þessum málum núna fram í matartímann. Komi þessi mál hins vegar fram, þá þýðir það náttúrlega að þingið stendur mikið lengur og þá er heldur ekki ástæða til þess að vera að halda hér umræðum áfram fram í matartímann. Þess vegna vil ég eindregið skora á hæstv. forseta að slíta núna fljótlega þessum fundi þannig að menn komist til síns heima og til að undirbúa þau verk sem margir sem hér eru inni þurfa að sinna á morgun, þann 1. maí. Ég vil a.m.k. heita á hæstv. forseta að láta þennan fund ekki standa lengur en í eins og hálftíma í viðbót. Það er auðvitað algerlega útilokað á föstudagskvöldi, kvöldið fyrir 1. maí, að vera hér með fund fram í matartímann eins og oft hefur verið, jafnvel fram undir kl. 8 og jafnvel fram yfir kl. 8.
    En ég held að skynsamlegast væri eins og ég segi fyrir hæstv. forseta að slíta fundinum núna því að það flýtir ekki fyrir neinu máli að halda þessu áfram eins og staðan er. Og það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í þeim efnum heldur þá óvissu sem er uppi í kringum þessi svokölluðu sjávarútvegsmál.