Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 21:54:42 (7852)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú orðið nokkuð sérkennilegt, satt að segja, sem kom fram hér áðan hjá hæstv. félmrh. Ég hugsa að það séu fá dæmi um það að í umræðum um mikilvægt mál eins og það sem við erum hér að ræða, beri hæstv. ráðherra jafnalvarlegar sakir á trúnaðarmenn sína og fram komu hér í ræðu hennar áðan. Í fyrsta lagi skýrði hún frá því að það fengjust ekki upplýsingar frá stofnuninni um það hvað það kostaði að taka upp tiltekinn nýjan lánaflokk. Í öðru lagi skýrði hún frá því að stofnunin svaraði ekki bréfum og taldi auk þess upp ein tvö eða þrjú önnur atriði sem verður að flokkast undir mjög alvarlegar ávirðingar á þessa stofnun þannig að ég held að það séu full rök fyrir því sem fram kom hér áðan hjá hv. 5. þm. Vestf. að beina því til forseta þingsins og félmrh. og formanns félmn. að félmn. komi saman hið fyrsta til þess að gefa þessum starfsmönnum kost á að svara fyrir sig frekar en láta þá sitja undir ásökunum af þessu tagi án þess að koma svörum á framfæri á réttum vettvangi. Það er auðvitað bersýnilegt að það er mjög alvarlegur trúnaðarbrestur, virðulegi forseti, á milli félmrh. og forráðamanna þessarar stofnunar og það er kannski skýringin á þessu frv. sem hér hefur verið rætt nokkuð ítarlega að hæstv. félmrh. leggur svona mikið kapp á að fá það afgreitt að þessi trúnaðarbrestur er orðinn. Ég tel hins vegar ekki að það eigi að leysa vanda sem upp kemur vegna trúnaðarbrests milli ráðherra og yfirmanna stofnana með því að breyta lögum um viðkomandi stofnanir heldur eigi auðvitað að gera það fyrst og fremst með því að viðkomandi ráðherra reyni að bæta vinnubrögð stofnunarinnar og ef ráðherrann telur með rökum að forráðamenn stofnunarinnar séu jafnóhæfir og hún rakti hér áðan þá á hún auðvitað að biðjast lausnar fyrir þá. Hún var í raun og veru að lýsa því yfir með yfirlýsingum sínum hér áðan að hún hefði öll rök á hendi til að reka forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins og ég tel að ráðherrann væri maður að meiri ef hún fylgdi þeim orðum sínum eftir með beinum hætti frekar en vera með yfirlýsingar af þessu tagi hér í ræðustóli á Alþingi. Og lágmark tel ég það að félmn. Alþingis verði þegar í stað kvödd saman og hún kalli fyrir bæði formann húsnæðismálastjórnar og forstjóra Húsnæðisstofnunar þannig að þeir geti borið hönd fyrir höfuð sér varðandi þessar heiftarlegu ásakanir sem hér voru fluttar af hæstv. félmrh. sem jafngilda auðvitað því að hæstv. ráðherra hafi sagt hér úr ræðustól á Alþingi: Ég ætla á morgun að reka forstjóra Húsnæðisstofnunar.