Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 22:48:45 (8110)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs við 1. umr. þessarar framkvæmdaáætlunar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna og ég gerði þá nokkrar almennar athugasemdir og líka einstakar athugasemdir við þessa þáltill. Hinar almennu athugasemdir sneru auðvitað fyrst og fremst að því að ég tel að stefna núv. ríkisstjórnar veiki stöðu kvenna í þjóðfélaginu með ýmsum hætti, t.d. með þeirri stefnu sem fylgt er í menntamálum þar sem um er að ræða niðurskurð á tímaframboði í grunnskólum og þar sem um það er að ræða að það hafa verið sett niður í skúffu lög um leikskóla sem auðvitað eru mikilvægur þáttur í þeim jafnréttismálum sem við erum hér að ræða um.
    Ég tel út af fyrir sig, virðulegi forseti, að hv. félmn. hafi unnið allvel á þessum eina kvöldfundi sem hún hélt sérstaklega um málið og þær breytingar sem hér eru séu flestar til bóta. Sumt er nú með þeim hætti að ég átta mig ekki alveg á því af hverju hlutirnir eru eins og fram kemur í brtt. Það er t.d. gert ráð fyrir því að fella niður kaflann um leikskólann og rökin sem hv. frsm. flutti voru ekki þannig að ég áttaði mig á þeim en ég sé svo við nánari athugun að í rauninni er betra að fella niður þetta leikskólaákvæði eins og það er í tillögudrögunum en hafa það vegna þess að þar er eingöngu um að ræða þann leikskólaþátt sem snýr að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem kemur raunar jafnréttismálum afskaplega lítið beinlínis við og gagnslítið að hafa þetta ákvæði inni öðruvísi en því fylgi einhver markmið í leikskólamálum.
    Ég tel að það séu mikilvæg ákvæði sem koma þarna fram varðandi grunnám og endurmenntun lögreglumanna. Ég tel að það skipti mjög miklu máli. Ég tel að það skipti miklu máli það sem fram kemur að lögð er áhersla á að tryggja bætur fyrir fjártjón og miska í tölul. 3.a í brtt. félmn. og ég tel að það sé mjög mikilvægt sem fram kemur að gert er ráð fyrir því að jafnréttisráðgjafi eigi að sinna jafnréttisstarfi á sviði menntamála, fjölskyldu-, félags- og heilbrigðismála í samvinnu við jafnréttisnefndir.
    Það sem ég átta mig ekki á í þessum brtt. er t.d. það að í stað orðanna ,,verkefnisstjórn norræna launaverkefnisins`` í síðari málsl. nr. 2.4 koma orðin: norræna jafnlaunaverkefnið og ég átta mig ekki alveg á því hvernig þeim málum er háttað. Ég veit að sá maður sem sinnti verkefnisstjórn norræna launaverkefnisins er kominn til annarra starfa, en ég skil ekki hvernig á því stendur að það starf hefur verið lagt niður, hvort það hefur verið talið óþarft og ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hver gengir því starfi núna að sinna sérstaklega tengslum við norræna launaverkefnið sem ég tel mjög mikilvægt að Íslendingar taki þátt í með mjög myndarlegum hætti.
    Ég tel að það sé enn fremur mikilvægt, virðulegi forseti, sem fram kemur að gert er ráð fyrir því að skipuleggja sérstök námskeið fyrir stjórnendur hjá hinu opinbera þar sem lögð verði áhersla á jafnrétti og samskipti kynjanna. Ég tel að það sé til bóta sem breytt er í þessum tillögum varðandi grunnskólann, það er til bóta frá því sem það var í tillögugreininni sjálfri þó að það sé út af fyrir sig ekki um neina bindingu að ræða heldur fyrst og fremst almennar, frómar óskir og má raunar segja það um tillöguna í heild að hér sé um að ræða afar almennar, frómar óskir á flestum sviðum sem eru, þó að þær virðist ekki róttækar á yfirborðinu, í hróplegri mótsögn við þá stefnu sem núv. ríkisstjórn fylgir.
    Það sem auðvitað er aðalatriðið í þessum málum er að átta sig á því hvernig verður staðið að framkvæmdinni. Hver er framkvæmdastjóri þessa verkefnis? Hver heldur utan um það að þessari áætlun sé sinnt? Jafnréttisráð er nefnt hér í þessum textum en auðvitað hlýtur það að vera félmrh. sem hefur fyrst og fremst yfirumsjón með þessu og ég tel í sjálfu sér að það sé veruleg framför að því er slegið föstu hér og það kemur fram að félmrh. hefur óskað eftir því að starfsmenn skrifstofu Jafnréttisráðs geri úttekt á því hvort áætlun þessi skili árangri og munu niðurstöður slíkrar úttektar vera væntanlegar með haustinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessi úttekt liggi fyrir og ég geri ráð fyrir því að hugmyndin sé eða ég vænti þess að kynna hana e.t.v. á jafnréttisþingi sem ætlunin er að halda í september eða október í haust og ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort tímasetningin á skilum þessarar niðurstöðu sé að einhverju leyti miðuð við jafnréttisþingið sem ætlunin er að halda.
    Ég tel hins vegar nauðsynlegt, og vil láta það koma fram sem mína skoðun, að það sé sérstakur starfsmaður í því að fylgjast með framkvæmd þessarar áætlunar, í því að hafa reglulega samband við ráðuneytið og stofnanirnar og að gefa Jafnréttisráði mánaðarlega eða á tveggja mánaða fresti skýrslu um það hvernig þessari jafnréttisáætlun vindur fram í verki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þétt utan um hina praktísku hlið á þessu máli þannig að þetta verði ekki bara pappír sem liggi hér eftir okkur í þinginu og hæstv. félmrh. hefur svo auðvitað áhyggjur af frá degi til dags, en ekki eru gerðar neinar sérstakar ráðstafanir til þess að málinu sé fylgt eftir í einstökum atriðum. Og þess vegna skora ég á hæstv. félmrh. að tjá sig um það hvort það er ekki æskilegt í þessu máli að standa þannig að því að sérstökum starfsmanni í Jafnréttisráði eða framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs eða einhverjum starfsmanni í félmrn. jafnvel verði falið það sérstaka verkefni að passa upp á þessa áætlun frá degi til dags svo að segja. Og ég verð að segja það að þó að ég telji það mikilvægt sem fram kemur hér á síðu 3 í nál. að eftir töluliðunum varðandi vilja félmrn. þá tel ég að það hefði mátt kveða þar enn þá skarpar að orði varðandi eftirfylgju í þessum málum þannig að þetta verði ekki almennar frómar óskir heldur verði tekið á þessum málum lið fyrir lið og þeim sinnt nákvæmlega frá degi til dags í ráðuneytinu þannig að þetta séu ekki loftkennd fyrirheit sem engum koma við að lokum.

    Síðan er annað atriði sem ég vil nefna hér sem ég hygg að ég hafi nefnt við 1. umr. málsins en ég sé ekki að hafi verið til haga haldið og það er sjálfsagt vegna þess að ég hafi ekki gert það nógu skýrt eða þá vegna þess að ég hef ekki sinnt því að fylgja því eftir. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að gera verulega úttekt á stöðu jafnréttismála á Íslandi á árinu 1993 og reynslu liðins áratugar eða svo. Ég tel að það kæmi til greina að byrja þessa úttekt með setningu laga um jafnréttisnefnd og jafnréttisdóma á sínum tíma. Ég er þá að tala hér um svona 15 ára tímabil eða svo. Hvað hefur miðað? Það hefur auðvitað miðað ýmislegt á ýmsum sviðum. Það hefur auðvitað mjög margt gerst t.d. í skólamálum á þessum tíma svo að ég nefni dæmi og það hefur eitt og annað gerst að því er varðar hlut kvenna í opinberum stöðum og opinberum nefndum o.s.frv. En þegar heildarstaða kvenna er skoðuð, t.d. vinnuálag kvenna á þessum tíma og hvernig það hefur breyst þar sem þær eru bæði að gegna meiri störfum á almennum vinnumarkaði, þær sem hafa vinnu, en áður og eru auk þess yfirleitt hlaðnar af heimilisstörfunum líka, þá hygg ég að niðurstaðan verði sú að vinnuálag þessa helmings íslensku þjóðarinnar hafi vaxi verulega á þessum tíma, m.a. vegna þess að menntunarúrræði eins og leikskólar hafi ekki verið skipulögð með þeim hætti sem á að gera í eðlilegu jafnréttis- og velferðarþjóðfélagi. Og ég hefði viljað láta gera úttekt á því hvaða áhrifum og árangri jafnréttislögin hafa skilað. Hvaða áhrifum og árangri hefur barátta kvennahreyfinganna skilað? Ég veit að það er mjög erfitt að greina þar í sundur hvað er þessa og hvað er hins. Ég tel að það sé t.d. nauðsynlegt í þessu sambandi að menn velti því mjög alvarlega fyrir sér hver hafa orðið áhrifin fyrir jafnréttisstöðu kvenna í þjóðfélaginu af starfi Kvennalistans. Kvennalistinn skiptir auðvitað mjög miklu máli í þessari umræðu á undanförnum árum þó svo við höfum mjög misjafnar skoðanir á því hvort það er einhver ástæða til þess að halda áfram einhverju sem heitir Samtök um kvennalista, það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Það sem ég er að ræða er það að þessi heild verði skoðuð. Ég er að tala hér um stjórnmálaþátttöku kvenna, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum og í þessu sambandi mega menn auðvitað ekki gleyma því að skoða fyrirtækin í landinu? Hverjir eiga að stjórna fyrirtækjunum? Hverjir voru á aðalfundi SH í dag? Það var ekki mikið af kvenfólki þar. Það voru nokkrir 500 þús. kr. karlar á stórum jeppum þar. Það var mjög lítið af kvenfólki þar. Og ég held að það sé dálítið til umhugsunar að konur séu ekki svo mikið þrátt fyrir alla þessa baráttu sem ég er ekki að meta lítils, þá eru þær ekki svo mikið að stjórna hinum almenna atvinnurekstri í landinu. Það er slæmt. Þær þurfa auðvitað að komast inn í stjórn og forustu í hinum almenna atvinnurekstri í landinu. Staðreyndin er sú að einkamarkaðurinn hefur að þessu leytinu til að því er varðar æðstu forustustöður verið látinn allt of mikið í friði, t.d. hefur eftirfylgja og eftirlit Jafnréttisráðs aðallega snúist um opinbera aðila. Það er allt í lagi með það, það er sjálfsagt að gera það en það þarf líka að horfa á hitt að í hinu svokallaða atvinnulífi, í stórfyrirtækjunum, hjá fjármagnsaðilunum í landinu þá þarf líka að athuga hver er hlutur kvenna þar í hinum æðstu forustustöðum.
    Ég vil þess vegna hreyfa þeirri hugmynd hér, virðulegi forseti, að það verði íhugað að gera heildarúttekt á þessu starfi öllu, á þessu gífurlega dýrmæta starfi sem hefur verið unnið í jafnréttismálum af konum hér á undanförnum 10--15 árum. Ég er þá ekki að biðja um lengri tíma vegna þess að þá eru menn komnir með verkefni sem við náum ekkert utan um þó það væri fróðlegt að skoða þetta yfir mikið lengri tíma. Virða það fyrir sér hvernig kvennahreyfingarnar hafa starfað náð verulegum árangri og verulegum áhrifum um tiltekið skeið. Síðan hefur það hnigið niður aftur í langan tíma en risið á ný og þannig koll af kolli. Það er auðvitað mikil spurning hvort við erum ekki stödd á þeim tímapunkti að það sé þörf á slíkri úttekt til þess m.a. að endurmeta þessa jafnréttisbaráttu og þá er ég ekki að tala um að það eigi að fara að gera karlmenn að einhverju sérstöku viðfangsefni í þessari jafnréttisumræðu. Auðvitað þurfa þeir að vera með í þessu eins og kostur er en mér finnst að þeir séu ekki og eigi ekki að vera sérstakt viðfangsefni þessarar umræðu eins og mér hefur stundum fundist af nefnd sem hæstv. félmrh. skipaði og á aðallega að vera að fjalla um stöðu karla. Karlmenn eru tiltölulega vel settir að þessu leytinu til þannig að það er ekki veruleg ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þeim, alla vega ekki fyrr en eftir eins og tíu ár eða svo þegar hlutirnir væru komnir á betra plan eða tuttugu að því er konurnar varðar.
    Ég tel að það sé út af fyrir sig allt í lagi að samþykkja þessa tillögu hér um jafnréttisáætlun. Hún skaðar engan. Ég er alveg tilbúinn til að standa að tillögu nefndarinnar í þeim efnum, ég er alveg tilbúinn til að gera það, virðulegur forseti, og beita atkvæði mínu í þeim efnum. En það sem skiptir máli er auðvitað eftirfylgjan. Hvernig er þessu fylgt eftir? Hvernig verður unnið að þessum málum úti í þjóðfélaginu á eftir? Verður þetta pappírsins virði eða verður þetta bara ein loftbólan til, enn ein tilraunin til að búa til fallega framhlið án þess að það sé á bak við hana neinn efnislegur veruleiki sem í raun breytir stöðu kvenna hér í þessu landi í átt til jafnari stöðu.