Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 19:42:24 (8248)

     Kristinn H. Gunnarsson :

    Virðulegi forseti. Þegar ég hlýddi á ræðu þingflokksformanns Alþfl., hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þá hvarflaði nú að mér sú hugsun að það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast. Ræða þingflokksformanns Alþfl. fjallaði að mestu leyti um Alþb. og fjallaði um þá umræðu sem Alþb. óskaði eftir í síðustu viku. Hins vegar fjallaði ræða þingflokksformanns Alþfl. ekkert um stefnu Alþfl. Hún fjallaði ekkert um það hvaða stefnu Alþfl. boðaði í sjávarútvegsmálum fyrir síðustu kosningar. Hún fjallaði ekkert um það að bera af sér þær fullyrðingar hæstv. sjútvrh. að það væri orðin full samstaða milli þessara tveggja flokka um grundvallaratriði kvótakerfisins. Öðruvísi mér áður brá ef hæstv. núv. heilbrrh. er búinn að skrifa upp á kvótakerfið. Þingmaðurinn sem fyrir alþingiskosningar árið 1987 gaf út í fjölmiðli hálfsíðuauglýsingu með eigin undirritun þá yfirlýsingu að hann mundi aldrei styðja kvótakerfið. Hann mundi aldrei styðja ríkisstjórn sem framlengdi kvótakerfið.
    Það er ástæða til þess að ganga eftir því við hv. þingflokksformann Alþfl. hvort hæstv. heilbrrh. hefur skrifað upp á grundvallaratriði kvótakerfisins. ( Gripið fram í: Hvar er formaðurinn?) Hvar er formaður þingflokks Alþfl.? Er hann nú týndur þegar talið berst að því hvaða stefnu Alþfl. hefur? Þingflokksformaður Alþfl., flokksins sem kennir sig við alþýðu, við fólk, vék ekki einu orði að því að umræða um vanda sjávarútvegsins sé umræða um vanda fólks vegna þess að sjávarútvegsmál eru í eðli sínu málefni fólksins og þegar sjávarútvegur er í vanda, þá eru tugþúsundir manna um allt land í stórum vanda um tilvist sína og eignir. Þingflokksformaður Alþfl. minntist ekkert á þetta fólk. Honum kom það ekkert við. Hann hins vegar gagnrýndi Alþb. fyrir þá umræðu sem var í síðustu viku þar sem við bentum á afleiðingarnar í þeirri stefnu sem við erum að framkvæma núna, bæði hvað varðar fiskveiðistjórnun og efnahagsstefnu gagnvart sjávarútvegi sem er að bitna á fólki í byggðarlögum um allt land. Alþfl. vék ekkert að þessu fólki í þeirri umræðu og ekkert að þessu fólki í þessari umræðu. Alþfl. á Íslandi kemur fólkið ekkert við. Hann segir: Það á bara að hagræða. Og hvaða stefna er það? Við höfum fengið það upp hvaða stefna það er sem þingflokksformaður Alþfl. hefur skrifað upp á fyrir hönd síns flokks. Við fengum að heyra þá stefnu í útvarpinu 29. apríl sl. þegar hv. 5. þm. Norður. v., annar hausinn á tvíhöfða skrímslinu, mætti í þjóðarsálina og svaraði spurningum viðmælanda síns um rétt fólks til auðlinda og lífsbjargar. Og ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér orðrétt svar hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálms Egilssonar, sem hér getur tekið til máls á eftir mér og borið hönd fyrir höfuð sér ef hann kýs svo. Það er hagræðingarstefnan í hnotskurn sem hæstv. sjútvrh. fylgir. Tilvitnun þessi er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Þessi hugsun sem þú ert að lýsa á mikið við ríkar þjóðir sem líta á sjávarþorp og sjávarútvegsbyggðir eins og eins konar lifandi byggðasafn þar sem bara er hægt að hlaða í þetta peningum og halda lífinu í þessu með því að styrkja þeirra sjávarútveg og styrkja þessar byggðir. Ég meina, ef við ætlum að fara að styrkja okkar sjávarútveg, búa til einhvern svona rétt, þá verðum við að finna eitthvað annað heldur en sjávarútveginn til þess að lifa af.``
    Þetta sagði hv. 5. þm. Norðurl. v. Þetta er hagræðingarstefnan. Það er nefnilega þannig að hæstv. núv. ríkisstjórn er þeirrar skoðunar að landið sé of stórt, að byggðirnar séu of margar, að við sitjum uppi með lifandi byggðasöfn. Og það sem þessi ríkisstjórn ætlar að gera er að grisja, að loka þessum lifandi byggðasöfnun. Þar sem vont er að loka því sem er lifandi, þá á fyrst að flytja fólkið. Og það er gert með því að selja atvinnuna frá Vestfjörðum til Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Svo þegar fólkið er farið, þá lokum við þessum byggðasöfnum. Það er vonandi að eldvarnakerfið verði í lagi.
    Í framhaldi af þessu vil ég beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. Hann skipaði á sínum tíma svonefnda bjargráðanefnd til þess að kanna og koma með tillögur um vandamál atvinnulífsins á norðanverðum Vestfjörðum. Mér hafa borist þær fréttir að þessi bjargráðanefnd hafi lokið störfum og því spyr ég hæstv. forsrh.: Hverjar voru tillögur þessarar bjargráðanefndar fyrir norðanverða Vestfirði? Voru þær tillögur þannig að það ætti að loka þessum lifandi byggðasöfnum?