Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:07:01 (498)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Áðan hafði einn þingmaður það á orði við mig að greinilegt væri að utanrrh. hefði haldið vinnumönnum sínum að verki á undanförnum dögum því að hann kom hér greinilega með tilbúinn pakka í höndunum til þess að lesa upp úr fyrir okkur þingmenn nú á þessum degi, kl. 10 mínútur yfir 3 þegar þessi umræða, bæði um EES-samninginn og stjórnarskrármálið, hefur staðið dögum saman eftir því sem hann lýsti. Hér hefur verið talað samfellt í níu klukkustundir um stjórnarskrármálið, um tillögu okkar og hefði utanrrh. kannski getað komið fyrr með innlegg sitt í þetta mál. Auðvitað hefði það sparað okkur bæði tíma, vinnu og kannski getað veitt okkur ofurlítinn svefn ef hann hefði séð sér fært að vera viðstaddur umræðuna þegar hún fór fram á sínum tíma því að þar var ýmsum þeim spurningum svarað sem ráðherra bar fram áðan. En hann virðist ekki einu sinni hafa kynnt sér þá umræðu, sem hér fer fram, en honum ætti þó að vera í lófa lagið að fá útskriftir úr tölvum og sjá þar hvað menn hafa sagt í þessar níu klukkustundir sem umræðan hefur staðið yfir. Ég ætla því ekki að fara ofan í alla þá þætti sem hann gerði hér að umtalsefni enda var það fjölmargt og væri nú að æra óstöðuga að fara að gera því öllu skil hér.
    Ég féll frá andsvari við umræðuna áðan um frv. um Evrópskt efnahagssvæði vegna þess að ég sá að tíminn sem þar var veittur til andsvars, sem var ein mínúta, mundi ekki duga mér til þeirra hluta sem ég ætlaði mér að nýta þennan rétt minn til. En þar var líka utanrrh. með tilbúin blöð frá aðalsamningamanni Íslendinga í EES-viðræðunum, Hannesi Hafstein, þar sem hann sagði að sannleikurinn væri saman kominn og hann væri í stuttu máli sá að allt samningaferlið hefðu samningamenn Íslands haft það til viðmiðunar og gengið út frá því og séð til þess að samningurinn bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Það hefði verið meginatriði í samningsgerðinni og það hefði verið meginatriðið hjá öllum EFTA-ríkjunum.
    Út af fyrir sig er þessi fullyrðing ekkert ný af nálinni. Hún hefur komið fram áður og gott ef hún kemur ekki fram í greinargerð með frv. og í einhverjum skýrslum sem áður hafa birst frá utanrrh., þ.e. að þetta hafi verið haft til viðmiðunar allt frá upphafi að ekki þyrfti að breyta stjórnarskrám EFTA-ríkjanna, ekki yrði um fullveldisframsal að ræða. Eitt er nú að leggja upp í flókna samningsgerð með þetta að markmiði, annað er að ná síðan þeirri niðurstöðu út úr samningunum. Skoðun mín er sú að það hafi ekki náðst. Við skulum líka gæta að því að þegar EFTA-ríkin sjö leggja upp í þetta ferðalag með það markmið að ekki þurfi að breyta stjórnarskrám þessara ríkja og ekki sé um fullveldisframsal að ræða þá verðum við að hafa í huga að samningurinn er einn og gildir fyrir öll þessi ríki. En þessi ríki hafa mjög mismunandi stjórnarskrár, mjög mismunandi svo ekki sé meira sagt, þannig að það er engan veginn hægt að tryggja það að þó að samningurinn brjóti ekki í bága við stjórnarskrá eins ríkis þá brjóti hann ekki þar með í bága við stjórnarskrá annars.
    Hér var það nefnt vegna þess að viðskrh. gerði norska frv. sérstaklega að umtalsefni og sagði að Norðmenn hefðu í rauninni getað samþykkt samninginn út frá 26. gr. norsku stjórnarskrárinnar ef ekki

kæmu til samkeppnisreglur og eftirlitið á Evrópska efnahagssvæðinu og það eitt, sagði hann, gerir það að verkum að þeir þurfa að láta samþykkja samninginn út frá 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar. Og það eitt er bara ekki svo lítið. Samkeppnisreglurnar eru ekki svo lítill þáttur í þessu og það er einmitt það sem alltaf er verið að tala um þegar verið er að ræða um fullveldisframsalið og þegar verið er að ræða um að hugsanlega stangist þetta á við stjórnarskrána. Hér er hin svokallaða minni háttar regla sem alltaf er notuð til skýringar á því að þetta stangist ekki á við íslensku stjórnarskrána að það muni engin íslensk fyrirtæki lenda undir þessum samkeppnisreglum. En í greinargerðinni með norska frv. kemur það mjög skýrt fram að þessi minni háttar regla dugar ekki og þar segir svo, svo að ég lesi þetta nú öðru sinni í þessari umræðu um stjórnarskrármálið og ég les það núna fyrir hæstv. utanrrh. vegna þess að ég held að hann hafi ekki verið viðstaddur þegar ég las þetta síðast, þá segir í grg. með norska frv. einmitt um samkeppnisreglurnar. Ég les, með leyfi forseta, og þetta er í minni eigin þýðingu:
    ,,Í þessu sambandi er mikilvægt að gera sér grein fyrir að krafan um veltu``, þ.e. 15 milljarða kr. veltu, ,,er reiknuð út frá sameiginlegri veltu allra fyrirtækjanna sem taka þátt í samvinnu. Minni háttar reglan undanskilur þess vegna ekki norsk fyrirtæki sem eru í samvinnu við fyrirtæki með mikla veltu.``
    Þannig getur tiltölulega lítið norskt fyrirtæki sem er í samvinnu við eitthvert stórt evrópskt fyrirtæki sem nær 15 milljarða kr. veltu, sem nær 5% markaðshlutdeild, lent undir þessum samkeppnisreglum þannig að þetta er ekki bara teoría. Þetta er raunhæfur möguleiki og þetta kemur skýrt fram í textanum með norska frv. en þetta er hvergi orðað í textanum með íslenska frv.
    Þetta eitt dugir til þess að vekja efasemdir um að málið standist stjórnarskrána en ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma því að það hefur svo ítarlega verið rætt hér áður.
    Hér komu fram ýmsar spurningar til flm. þessa frv. og þar sem ég er einn þeirra skal ég reyna að svara þeim að einhverju leyti eins og mér finnst vera tími til og aðstæður þó að þeim hafi reyndar sumum hverjum verið svarað áður. Utanrrh. spurði hvort flm. þessa frv. vildu greiða fyrir því að unnt væri að framselja vald í meira mæli en gert hefur verið, hvort þeir væru að reyna að liðka fyrir því að hægt væri að framselja vald. Þessari spurningu hefur verið svarað hér en það liggur auðvitað fyrir að bara á undanförnum við getum sagt 10 árum hafa skapast algerlega ný viðhorf í alþjóðamálum og það er sífellt meiri umræða um það alls staðar í heiminum að þjóðir þurfi að hafa með sér aukið samstarf á ýmsum sviðum og þetta aukna samstarf geti kallað á það að það þurfi að framselja ákveðið vald. Ég get nefnt umhverfismálin í því sambandi, ég get nefnt mannréttindamálin, ég get nefnt hugmyndir sem menn hafa t.d. sett fram um það að koma upp alþjóðlegum dómstól sem ekki væri háður þjóðríkjunum og þar sem hægt væri að sækja menn til saka og dæma þá fyrir glæpi gegn mannkyninu. Við erum með fullt af slíkum mönnum út um allan heim sem hafa brotið verulega af sér gagnvart mannkyninu. Þeir eru hvergi dregnir fyrir lög og rétt, þessir menn eru hvergi dæmdir og það er oft og tíðum þjóðríkið sem kemur í veg fyrir að slíkt sé gert þannig að auðvitað getur sú staða komið upp.
    Við horfumst í augu við veruleikann og veruleikinn kemur okkur náttúrlega svo napurlega fyrir sjónir núna í frv. um hið Evrópska efnahagssvæði. Þetta eru staðreyndirnar sem fyrir liggja að í auknum mæli er verið að gera alþjóðasamninga sem kalla á valdaframsal. Sumir segja að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði geri það ekki. Við getum þá öll verið sátt um það, bara af umræðunni sem hér er, að hann er verulegt markatilvik og þess vegna þarf að koma upp ákveðnum reglum um hvernig með skuli fara í slíkum tilvikum. Við viljum koma því þannig fyrir að hér sé ekki hægt að gera þetta með einföldum meiri hluta á Alþingi eins og nú á að gerast með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, að einn þingmaður gæti ráðið úrslitum um þetta mikla mál sem auðvitað skiptir þessa þjóð verulegu og ræður að ýmsu leyti örlögum hennar. Þetta væri hægt að ákveða með eins atkvæðis mun. Og þetta viljum við ekki að gerist. Við viljum tryggja að þrír fjórðu hlutar þingmanna séu samþykkir slíku valdaframsali.
    Ráðherra spurði líka hvort flm. vildu virkilega gefa minni hluta vald til að leggja alla slíka milliríkjasamninga sem gerðir yrðu samkvæmt þessu ákvæði í þjóðaratkvæði. Ég svara því játandi vegna þess að við erum að tala um að það þurfi þrjá fjórðu hluta til að samþykkja samninginn síðan getur þriðjungur þingmanna fengið samningnum vísað til þjóðaratkvæðis ef hann er samþykktur. Bara í því tilviki að hann sé samþykktur hér á Alþingi þá gæti þriðjungur þingmanna vísað honum til þjóðaratkvæðis og þá þarf væntanlega einhverja stuðningsmenn við það að vísa samningnum til þjóðaratkvæðis úr hópi þeirra sem hafa samþykkt samninginn þannig að þarna er strax skörun. Það dugir ekki bara fyrir andstæðinga slíkrar samningsgerðar að vísa honum til þjóðaratkvæðis. Þeir ná því ekki.
    Það kann að vera að einhverjum finnist það sérkennilegt að minni hluta á Alþingi skuli gefið þetta vald en ég vil benda á það að þetta er víða annars staðar í stjórnarskrám. Víða þarf aðeins þriðjung þingmanna til þess að koma málum til þjóðaratkvæðis og það á auðvitað við um mörg fleiri mál en bara milliríkjasamninga og það er reyndar gert ráð fyrir því í okkar tillögu að það geti verið ráðgefandi þjóðaratkvæði um mörg önnur mál og það þurfi aðeins þriðjung þingmanna til þess að vísa þeim í slíka atkvæðagreiðslu.
    Flutt hefur verið annað frv. sem reyndar er ekki til umræðu hér en hefur blandast mjög mikið inn í þessa umræðu, enda mjög skylt. Ástæðan fyrir því að þar er gert ráð fyrir að um bindandi þjóðaratkvæði sé að ræða er, eins og hér hefur verið bent á áður, að valdið er komið frá þjóðinni. Þjóðin hefur framselt vald sitt til þingmanna. Og ef þingmenn ætla að afsala þessu valdi með einhverjum hætti til erlendra

aðila þá er eðlilegt að þeir leiti til þjóðarinnar --- til þess aðila sem fer með valdið. Hér hefur verið minnt á, ég minnti á það síðast þegar ég talaði í þessu máli, að það hefði komið fram m.a. í frönsku mannréttindayfirlýsingunni að allt þjóðfélagsvald væri komið frá þjóðinni og ég held að það væri nú heppilegt fyrir krataforingjann að minnast þess á þessum augnablikum, sem við erum að ræða þessa samninga um Evrópska efnahagssvæðið og þjóðaratkvæðagreiðslu og breytingar á stjórnarskránni, hvaðan valdið er komið. Valdið varð ekki til hér í þingsölunum, valdið er komið frá þjóðinni og það er eðlilegt að leita til hennar ef það á að framselja það með einhverjum hætti til erlendra aðila.
    Ég hef líka lýst því yfir hér áður að ég hefði gjarnan viljað hafa slíkt bindandi ákvæði inni í 21. gr. Um það varð ekki samkomulag hjá stjórnarandstöðunni þannig að þetta var sú leið sem við fórum, en okkar skoðun, þ.e. Kvennalistans, og við sögðum það við aðra sem við ræddum við frá stjórnarandstöðunni, var að koma slíku ákvæði inn í 21. gr. Við sögðum að við mundum tilkynna það hér að sú hefði verið okkar skoðun en það náðist ekki fram. En ég tel að þetta sé ágæt millilending sem varð þarna með nýrri 46. gr.
    Ég veit ekki hvort það á að ræða þetta mál hér mikið lengur. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich spurði hvort það vekti fyrir þeim sem sömdu þetta frv. að búa til sjálfstæða heimild til að breyta stjórnarskránni með 21. gr. Ég get alveg svarað því fyrir mína parta að það vakti alls ekki fyrir mér og ég tel að það kæmi þá vel til álita að bæta inn einni setningu ef þetta vefst fyrir mönnum sem væri á þá leið að ekki væri hægt að breyta stjórnarskránni eftir þessari grein. Og ef ég man rétt að þá er eitthvert slíkt ákvæði t.d. inni í norsku stjórnarskránni þannig að ég tel að það komi vel til álita. Þá væri bara einni setningu bætt þarna við. Auðvitað er orðalag þessa frv. ekki heilagt frekar en annarra. Við höfum fjallað um ótal frv. á þingum og þau hafa fengið skoðun inni í nefndum og á þeim frv. hefur oft á tíðum verið breytt orðalagi og það má auðvitað alveg skoðast inni í nefnd. Ef menn telja að það væri hægt að orða þetta með einhverjum hætti betur en vilja hafa slíkt ákvæði inni í stjórnarskránni eigi að síður þá kemur það auðvitað til álita.