Mál Sophiu Hansen og áhrif EES-samnings á byggðaþróun

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:53:45 (1271)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram tvær fyrirspurnir til hæstv. forsrh. Sú fyrri varðar mál Sophiu Hansen. Ég vil spyrja ráðherrann hvort það kæmi til álita af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að styrkja hana til að sækja rétt sinn til dómstóla í Tyrklandi. Það er afar raunalegt að horfa upp á þetta mál. Ég verð að segja að það er þannig vaxið að jafnvel þótt menn litu til slíkrar aðstoðar er erfitt að líta á það sem fordæmi fyrir ókomin tilvik.
    Síðari spurningin lýtur að byggðamálum og hvernig þau muni þróast verði samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið að veruleika. Ég spyr hæstv. forsrh. að því hvort ráðuneytið hafi látið gera úttekt á þróun byggðar verði þetta samkomulag staðfest hér á landi. Ég vek athygli á því að eftir því sem ég best veit er ekki til nema ein skýrsla eða ein úttekt um þetta málefni og hún er frá Byggðastofnun og var gefin út 14. mars á síðasta ári. Niðurstöður þeirrar skýrslu draga fram afar dökka mynd af búsetuþróun innan lands verði þróunin á þeim nótum sem þar er gert ráð fyrir og eins og samningsdrögin litu út á þeim tíma. Ég sé ekki að neitt hafi breyst hvað sjávarútveginn varðar og því hljóta niðurstöður skýrslunnar að vera enn í fullu gildi. Þar segir einmitt að óhjákvæmilega muni byggð leggjast af eða forsendur fyrir búsetu bregðast á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Ég vil því, virðulegur forseti, leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi einhver önnur úttekt um áhrif samningsins á byggðaþróun hér á landi.