Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:05:56 (1779)

     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki orða bundist þegar ég horfi yfir þennan sal og hv. 1. flm. reifar þetta mál. Ekki einn einasti ráðherra er í sæti sínu. Þess vegna vil ég spyrja hv. 1. flm.: Var ráðherrum ríkisstjórnarinnar ekki gert viðvart um að þetta mál yrði tekið til umræðu í dag? ( Gripið fram í: Heldurðu að þeir lesi ekki dagskrána?) Ég tel það alvarlegan hlut. Einn ráðherrann hefur liðið hér í gegnum salinn eins og vofa undir umræðunni og allir bekkir eru hér auðir. ( Forseti: Ég bið þingmanninn að gæta orða sinna.) Ég mun gæta orða minna en það er erfitt undir þessum kringumstæðum vegna þeirra fyrirheita sem ráðherrarnir gáfu í þessu máli fyrir einu ári. Það er upplýst af hv. flm., sem styður þessa ríkisstjórn, að búið sé að ákveða að svíkja þau fyrirheit. Það er erfitt að gæta hófs í orðum sínum, hæstv. forseti, undir slíkum kringumstæðum. Ég vil segja við hæstv. forseta hvort hann vilji ekki gera ráðherrum ríkisstjórnar sinnar viðvart um að þessi umræða sé í gangi, að það sé verið að ræða þyrlumálið sjálft, sem sjómannafjölskyldunum og sjómönnunum á Íslandi var heitið í fyrra að yrði leyst fyrir þennan tíma. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að ráðherrar, alla vega fjmrh., forsrh., trmrh. og sá sem gegnir nú störfum dómsmrh., verði kallaðir í þennan sal undir þessum umræðum.