Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:30:22 (1784)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson hafði orð á því áðan að það vekti athygli á að við þessa umræðu sætu engir hæstv. ráðherrar til þess að hlýða á mál manna og spurðist fyrir um hverju það sætti, hvort þeir væru ekki á næsta leiti.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson taldi einnig eðlilegt að umræðum um þetta mál yrði jafnvel frestað ef hæstv. ráðherrar gætu ekki verið við og skýrt þingheimi frá því hver afrek þeirra væru á þessu sviði sem hér er til umræðu.
    Virðulegur forseti upplýsti áðan að a.m.k. tveir virðulegir ráðherrar væru staddir í húsinu. Því spyr ég, virðulegi forseti: Hefur forseti gert ráðstafanir til þess að fá hæstv. ráðherra til að koma í þingsalinn eða þarf að gera aðrar ráðstafanir til þess að það verði gert?