Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:41:29 (1789)

     Svanhildur Árnadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég heyrði einhvern hvísla: Nú versnar í því. Eins og fram hefur komið er þetta mál margrætt og margþvætt og það brennur mér meira í muna en svo að ég geti hreinlega setið undir því að menn séu að þvætta með þetta og gera grín að því hverjir séu heybrækur og því um líkt. Málið snýst um öryggismál sjómanna og landsmanna allra.
    Ég er komin upp til að lýsa stuðningi mínum við frv. þetta og vil segja að það þarf ekki að hafa mörg orð um hversu nauðsynlegt öryggistæki hér er rætt um, ekki bara fyrir sjómenn heldur fyrir landsmenn alla. Ég tel því mjög brýnt að þjóðin eignist björgunarþyrlu sem sinnt gæti öryggismálum sjómanna og ég ítreka landsmanna allra.
    Mér finnst það líka sjálfsögð mannréttindi sjómanna að búið sé betur að öryggismálum þeirra en nú er gert og ég get fullyrt það að ég tala fyrir munn allra sjómannskvenna í landinu, sjómanna og barna þeirra.