Hvalveiðar

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:14:31 (2146)

     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég tel það sjálfgefið að við hefjum hvalveiðar að nýju, því fyrr, því betra. Að því hníga öll rök. Offriðun hvala leiðir til ójafnvægis í hafinu í kringum Ísland sem aftur bitnar á fiskstofnum okkar. Hvalveiðar eru mjög verðmætaskapandi eins og hv. fyrirspyrjandi benti á áðan. Hvalveiðar skapa mikla atvinnu. Síðasta árið sem hvalveiðar voru stundaðar í atvinnuskyni, árið 1985, unnu um 250 manns hjá Hval hf. í Hvalfirði og auk þess fjöldi manna við hrefnuveiðar og talið var að það ár hefðu verið um 150 ársverk við veiðar og vinnslu hvals við Íslandsstrendur. Við megum að sjálfsögðu eiga von á hótunum og viðskiptaþvingunum þegar við hefjum þessar hvalveiðar að nýju. Þann slag verðum við einfaldlega að taka. Ef við hefðum hopað fyrir slíkum hótunum, þá hefðum við aldrei fært út landhelgina á sínum tíma og sætum enn með 12 mílna fiskveiðilögsögu. Við getum ekki hopað fyrir slíkum hótunum. Við verðum sjálf að ákveða hvernig við nýtum auðlindir hafsins í kringum Ísland, við getum ekki látið erlenda öfgahópa taka þær ákvarðanir fyrir okkur. Ef við látum undan þessu liði, þá getum við eins búist við því að þeir hefji baráttu gegn fiskveiðum okkar því að með þeim séum við að taka fæðuna frá þeim eðalskepnum, selum og hvölum. Ég hvet því hæstv. sjútvrh. til að fylgja þessu máli fast eftir þannig að hvalveiðar geti hafist að nýju sem fyrst og þá á ég ekki eingöngu við hrefnuveiðar heldur hvalveiðar almennt.