Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 01:00:39 (3314)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er það mikil ánægja að afhenda hæstv. heilbrrh. á eftir rekstraráætlanir fyrir hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi sem hafa verið lagðar fram í hv. fjárln. og hafa legið þar fyrir um þó nokkurt skeið þar sem farið er rækilega yfir það hvaða aðilar það eru sem þarna yrðu vistaðir. Þar er fjallað t.d. ítarlega um greiningu á þeim hópum sem þarna er um að ræða og það er hægt að gera það vegna þess að vistunarhópur aldraðra á Reykjavíkursvæðinu hefur þegar fjallað um þessa einstaklinga þannig að rekstraráætlun í smáatriðum liggur fyrir. Það er engin ástæða til þess að draga það stundinni lengur að taka ákvörðun í þessu efni og þess vegna hlýt ég að halda þessari tillögu til streitu, og segi svo að lokum, virðulegi forseti. Það er fróðlegt að frétta af því að hæstv. heilbrrh. skuli hafa samþykkt þann ramma sem heilbr.- og trmrn. á að þola á árinu 1993. Mér þykir athyglisvert að hann skuli hafa tekið þátt í því að móta þann ramma með þeim hætti sem hann hér liggur fyrir.