Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 14:55:46 (3714)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Við tökum nú til 2. umr. fjáraukalög fyrir árið 1992, en svo sem ljóst er af frv. sjálfu eru fjármál ríkissjóðs í miklum ólestri og sótt er um verulegar upphæðir að auki vegna þess hvernig málum hefur þar skipast. 5,5 milljarðar kr. sýnist mér geta verið nærri lagi að séu þær upphæðir sem þarf að bæta við í ríkissjóð frá því sem fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir. Mér finnst því ekki óeðlilegt, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. heiðraði okkur með nærveru sinni meðan farið er yfir þetta frv. sem ekki skiptir minna máli en það að halli sem áætlaður var 4,1 milljarður verður nú a.m.k. 9,6 milljarðar og ég álít að hann eigi reyndar eftir að fara verulega fram úr því þegar öll kurl eru komin til grafar og öllu er til skila haldið og mun ég fara nokkuð yfir það í ræðu minni. Þess vegna spyr ég nú hvort hæstv. fjmrh. sé í húsinu. ( Forseti: Samkvæmt töflu í borði forseta mun hæstv. fjmrh. ekki vera kominn í húsið, en forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til þess að koma til hans skilaboðum.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir það en bendi einnig á að ég tel að fleiri óvissuþættir séu í þessu frv. sem varða einstök ráðuneyti og einstaka fagráðherra sem væri fróðlegt að heyra í hvernig þeir ætla að sjá sínum fyrirtækjum eða stofnunum farborða, hvernig þeir ætla að leysa þau mál sem hljóta að blasa við. Ég nefni t.d. fjárvöntun hjá Hafrannsóknastofnuninni vegna þess að ekki hefur tekist að selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs svo sem áætlað var. Ég sé ekki betur en Hafrannsóknastofnunina vanti á bilinu 200--300 millj. kr. til reksturs á yfirstandandi ári, líklega nær 300 millj. kr. og ekki er sýnt í meðferð þessa máls eftir 2. umr. hvernig eigi að fara með. Ný býst ég við og reyndar veit að þessari ágætu stofnun hefur verið haldið gangandi með greiðslum væntanlega úr ríkissjóði þrátt fyrir það að sértekjur sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir hafi ekki skilað sér inn, en það væri fróðlegt að vita það. Kannski getur hæstv. fjmrh. svarað því ef hæstv. sjútvrh. er ekki viðlátinn. Sama má reyndar segja með hæstv. heilbrrh. sem ætlar að færa yfir áramót á bilinu 200--300 millj. kr. vegna lyfjakostnaðar sem fer fram úr þeim áætlunum sem fjárlög gera ráð fyrir. Ég nefni þetta hér í upphafi, hæstv. forseti, vegna þess að ég mun koma nánar að því í ræðu minni síðar. Ég er ekki að krefjast þess að þessir hæstv. ráðherrar séu kallaðir um langan veg, en ef þeir væru í húsinu gæti verið að ég hefði áhuga á því að þeir hlýddu á mál mitt, a.m.k. um stund, og svöruðu þá e.t.v. einhverjum spurningum.
    Eins og ég gat um í upphafi er ljóst að verið er að fjalla um frv. sem gerir ráð fyrir að halli ríkissjóðs hækki úr 4,1 milljarði eins og fjárlög ársins 1992 gera ráð fyrir. Við sögðum reyndar stjórnarandstæðingar strax í umræðum um fjárlagafrv. fyrir um það bil ári síðan að við teldum að þetta frv. væri með öllu óraunhæft. Við töldum að sú stefna sem þar var boðuð um sparnað og niðurskurð mundi ekki standast, mundi ekki ná fram að ganga að öllu leyti, ekki skila því sem henni var ætlað og það er nú að sýna sig með því sem hér liggur fyrir og í öðru lagi mundi tekjuáætlunin vera byggð á mjög vafasömum forsendum.
    Nú er það auðvitað svo að það sýnir sig að tekjuáætlunin stenst ekki, m.a. vegna þess að verulegur samdráttur er í þjóðfélaginu. Það er mjög vaxandi atvinnuleysi. Það eru erfiðleikar í atvinnulífinu, fyrirtæki að stöðvast og dregið hefur úr allri veltu vegna þeirrar stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur rekið í efnahags- og atvinnumálum. Þetta hefur auðvitað áhrif á það að tekjuáætlunin stenst ekki heldur og vantar verulega upp á að endar nái saman þar. Þegar tekið er tillit til þeirra brtt., sem fluttar eru af meiri hluta hv. fjárln., sýnist mér að sá halli sem fjáraukalagafrv. gerði ráð fyrir vaxi um um það bil 1 / 2 milljarð kr. þannig að halli verði þá 9,6 milljarðar þegar búið er að ganga frá eða samþykkja þessar tillögur ef ekki á eftir að koma mikið meira í viðbót. Nú boðaði hv. formaður fjárln., hv. þm. Karl Steinar Guðnason, hv. 6. þm. Reykn., það að einhverjar tölur ættu eftir að koma milli umræðna en þær skipta nú ekki sköpum miðað við það sem fyrir liggur og verður að sjálfsögðu skoðað í nefndinni.
    Þegar ég segi að öll kurl séu ekki til grafar komin og það eigi eftir að koma í ljós að hallinn á fjárlögum þessa árs eigi eftir að verða hærri en hér er gert ráð fyrir þá vil ég fyrst nefna þau vandamál sem mér sýnast vera uppi í heilbrrn. og tek það þá fyrst til hér af því að ég sé að hæstv. heilbrrh. er í þingsalnum og tilbúinn að hlýða á mál okkar hv. þm. En eins og fram kemur í bréfi sem hv. fjárln. barst frá heilbr.- og trmrn. stefnir lyfjakostnaður Tryggingastofnunar ríkisins í að fara verulega umfram á þessu ári. Í þessu bréfi segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Allt bendir til þess nú að lyfjakostnaður fari um 400 millj. kr. umfram fjárlög 1992 og liggja til þess ýmsar ástæður. Aðallega þær að aðgerðir sem heilbrrh. hugðist grípa til töfðust vegna kjarasamninga og ákvörðunar ríkisstjórnar. Í fjáraukalögum er gert ráð fyrir að þessi umframkostnaður á árinu muni koma til frádráttar heimildum næsta árs. En ráðuneytið telur það með öllu óraunhæft.``
    Í fyrsta lagi vil ég segja að í greinargerð frv. er talað um 300 millj. kr. sem eigi að færa yfir áramótin yfir á næsta ár væntanlega með þeim hætti að það er þá um sinn halli á reikningum Tryggingastofnunarinnar. Í öðru lagi vil ég nefna að í þessu bréfi, sem skrifað er 23. okt. er gert ráð fyrir því að þessi halli verði um 400 millj. kr. og þar kemur fram að ráðuneytið telur með öllu óraunhæft að þessi upphæð verð flutt yfir á næsta ár, þessar 400 millj. sem voru 300 millj. samkvæmt frv. eins og það var lagt fram. Nú hef ég aflað mér upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um að þetta kunni að stefna í enn hærri tölur jafnvel nær 500 millj. kr. sem þarna fari umfram. Og í tillögum meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir að bæta við þessa upphæð sem nemur 200 millj. kr. Þá sýnist mér að Tryggingastofnun og/eða heilbrrn. standi aftur í þeim sporum að u.þ.b. 300 millj. kr. verði færðar yfir áramót. Ég vildi sérstaklega beina þessu til hæstv. heilbrrh. og kannski heyra álit hans á þessum málum hér á eftir og hvernig hann sér fram á að þetta verði leyst ef svo fer að ekki verði hækkuð fjárveiting þessa árs til Tryggingastofnunarinnar og til þessa málaflokks því að mér sýnist að hæstv. ráðherra hafi við nokkurn vanda að glíma á næsta ári þegar það liggur fyrir að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að spara verulegar fjárhæðir í lyfjakostnaði og hefði sjálfsagt verið nokkurt verkefni að glíma við það eitt og sér þó ekki bætist við 300 millj. frá þessu ári sem nú er að líða.
    Í öðru lagi talandi um heilbrrn. og málefni þess vil ég lýsa ánægju minni með það að hér er gerð brtt. á fjárlögum til Ríkisspítala sem nemur tæpum 100 millj. kr. vegna sértekna sem Ríkisspítölunum var gert að innheimta á þessu ári sem nú er að líða. Hins vegar er gert ráð fyrir því og viðurkennt í greinargerð fjárlagafrv. fyrir næsta ár að þessar tekjur muni ekki skila sér og ekki sé raunhæft að ætla spítalanum að innheimta þær. Það blasti við um tíma að gerð væri hörð eða stíf krafa af hálfu fjmrn. um að Ríkisspítalarnir yrðu þá bara að spara á móti þessari upphæð eða sem henni næmi og fengju ekki fram þessa leiðréttingu sem þó var búið að viðurkenna í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. En sem betur fer hafa menn séð að sér og hér er gerð leiðrétting á þessu máli sem okkur sumum fannst nú reyndar liggja í augum uppi og hefði verið mjög harkaleg aðgerð að þurfa að knýja á um frekari sparnað á Landspítalanum á síðustu vikum þessa líðandi árs ef fram hefði verið farið með þeim hætti sem fjáraukalagafrv. gerði ráð fyrir. Þetta eru þau atriði sem mig langar til að nefna sérstaklega í sambandi við heilbrrn. og varðandi það sem liggur hér fyrir í frv. og þeim brtt. sem hér eru gerðar. Síðan eru leiðréttingar eru reyndar gerðar á öðrum sértekjum eða innheimtu sértekna sem er millifærsla frá Tryggingastofnun ríkisins til Ríkisspítala og Borgarspítala og telst til sjálfsagðra leiðréttinga. Auk þess er nokkur leiðrétting á fjárvöntun til St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en þó ekki að fullu það sem þeir töldu sig þurfa á að halda og gert er ráð fyrir því að þar verði flutt milli ára, einnig yfir á næsta ár handa þeim að glíma við til að ná niður kostnaði upp á 8--9 millj. kr. ef ég man þá tölu rétt. (Gripið fram í.) Eða 7 millj. kr., ef ég heyri rétt það sem hv. formaður fjárln. nefnir hér.
    Þá er næst til að taka að í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun starfi nær einvörðungu fyrir sértekjur sem hún átti að hafa af sölu aflaheimilda Hagræðingarsjóðs upp á 525 millj. kr. Nú hefði mig langað til þess, hæstv. forseti, að annaðhvort hæstv. fjmrh. eða hæstv. sjútvrh. hlýddu á mál mitt. Ég vil gjarnan heyra hugmyndir um það hvernig þessi fjárvöntun, sem hlýtur að vera á þessari stofnun, verður leyst yfir áramót. Kannski má líka spyrja hvernig hún er leyst í dag þegar það er ljóst að söluheimildir sjóðsins hafa ekki skilað sér til ríkissjóðs eða ekki hefur verið hægt að selja þennan afla eins og áætlað var. Að vísu er gerð örlítil leiðrétting í frv. ( Forseti: Forseti mun gera hv. þm. viðvart um leið og forseti veit um ferðir hæstv. fjmrh. En hæstv. sjútvrh. er ekki í húsinu enn sem komið er.) Ég þakka upplýsingarnar og eins og ég nefndi áðan þá geri ég svo sem ekki kröfu til að þeir hæstv. ráðherrar séu kallaðir um langan veg. En mér finnst bæði sjálfsögð og eðlileg krafa að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur þegar verið er að fjalla um fjáraukalög fyrir árið 1992 og verið er að veita honum heimildir til að auka hallann um meira en helming, í nær 10 milljarða kr.
    En það sem ég vildi segja um Hafrannsóknastofnunina er að þegar veiðiheimildir voru boðnar til sölu sl. haust þá kom í ljós að þær skiluðu ekki nema sáralitlum upphæðum. Það voru ekki nema u.þ.b. 30 millj. og líklega ekki einu sinni það, á bilinu 25--30 millj. sem skiluðu sér inn til ríkissjóðs eða inn til Hafrannsóknastofnunar af andvirði þessara aflaheimilda. Síðan fór fram útboð á þeim aflaheimildum, sem sjóðurinn á, og voru tilboð opnuð 1. des. sl. og fólu þau tilboð í sér rétt um það bil 100 millj. kr. Var þá þegar leitað eftir því við þá sem tilboðin gerðu hvort og hverjir væru tilbúnir til að standa við tilboð sín og þeim gefinn ákveðinn frestur til svara sem ég hygg að hafi verið fram um miðjan þennan mánuð sem nú er að líða. Því ætti líka að liggja fyrir hvaða tölur hafa skilað sér af þessum 100 millj. --- nú er ekki einu sinni víst að það hafi allt saman komið inn en kann þó að vera, ég skal ekki um segja, ég hef engar upplýsingar fengið um það, en ég hefði viljað heyra það frá hæstv. ráðherrum. En þó þetta hvort tveggja komi inn þá er ljóst að mikið vantar á enn þá. Í fjáraukalagafrv. sjálfu er gert ráð fyrr því að lækka þessar sértekjur um 83 millj. kr., sem átti að vera aðlögun að markaðsverði, og gert ráð fyrir fjárveitingu til stofnunarinnar sem þessu nemur af því að ljóst var talið að sértekjurnar mundu ekki skila sér. Enda þótt allt þetta sé talið saman og 102 millj. sem tilboðin frá 1. des. báru með sér skili sér þá er fjárhagsvandi þessarar stofnunar og það sem vantar upp á sértekjur hennar samt um 300 millj. kr. Þetta er mál sem við hljótum að þurfa að fá upplýst hvernig hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar, sem um þessa málaflokka og þessa stofnun fjalla, ætla sér að leysa.
    Þá ætla ég hér næst að nefna fjárveitingar til flóabáta og vöruflutninga sem fá í fjáraukalagafrv. 28 millj. kr. fjárveitingu í viðbót við það sem áður var til að leysa þann vanda sem skapast hefur við rekstur Eyjafjarðarferjanna sem gerðar eru út undir umsjón Hríseyjarhrepps. Þessi rekstrarvandi, sem þar hefur safnast upp að undanförnu, hefur mætt verulega á hreppnum en gert er ráð fyrir að leysa hann með þeirri fjárveitingu sem lögð er til í frv. Staða þessara skipa og þessara flutningatækja kemur í ljós þegar skoðað er yfirlit frá Vegagerð ríkisins sem borist hefur til fjárln. og dagsett er 13. nóv. sl. þannig að málið er ekki að koma upp á borðið í gær eða fyrradag. Þessar upplýsingar eru dagsettar 13. nóv. og bera það með sér að óleystur uppsafnaður vandi í lok þessa árs sé 94,5 millj. kr. Frá því má síðan draga þessar 28 millj. sem Eyjafjarðarferjurnar eða Hríseyjarferjurnar eiga að fá samkvæmt frv. Óleystur vandi er því enn þá 66,5 millj. kr. sem Vegagerð ríkisins hefur varað við og sagt að stofnunin sé ekki tilbúin til að taka yfir um áramót um leið og þessi rekstur verður færður undir þá stofnun. Eins og menn vita er nýbreytni að hugsa sér það eða gera ráð fyrir því að Vegagerð ríkisins sjái um þennan rekstur. Ég hef út af fyrir sig ekki neina athugasemd að gera við það skipulag ef menn telja að það sé skynsamlegt og vafalaust er gott að ein stofnun haldi utan um málin öll og fylgist með því og fjárveitingar séu þá auðvitað til þerrar stofnunar til að standa undir þeim fjármunum sem ríkið ætlar sér að leggja til þessa reksturs. En það sem út af stendur í málinu er því 66,5 millj. kr. samkvæmt þessum upplýsingum.
    Nú er þess að geta, og sjálfsagt að það komi einnig fram í þessari umræðu, að stofnuninni eru ætlaðar 330 millj. kr. á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. til að standa undir rekstri ferjanna en það blasir einnig við samkvæmt þessum sömu upplýsingum frá Vegagerðinni að reksturinn mun verða kostnaðarsamari á næsta ári. Það virðist vera að bera í bakkafullan lækinn ef það er meiningin að láta þann halla, sem við blasir á líðandi ári, koma einnig yfir á Vegagerðina. Það getur ekki endað með öðrum hætti en þeim að framkvæmdir þar hljóta að skerast niður eða lækka, að þessi reksturskostnaður við ferjurnar upp á nær 70 millj. kr. verður þá dreginn frá vegaframkvæmdum. Ég veit ekki hvort maður má ímynda sér að það verði í þeim kjördæmum eða á þeim svæðum þar sem þessar ferjur veita þjónustu. Þar kæmi þá dálítið við útgjöld til vegamála í Vesturlands- og Vestfjarðakjördæmi og svo auðvitað í Norðurlandskjördæmi eystra sem þyrfti að standa undir rekstri þessara Hríseyjarferja. Að maður nú ekki tali um þann kostnað sem við blasir við rekstur Vestmannaeyjaferjunnar ef þeir Sunnlendingar ættu að taka það á sig. En ég er ekki að gera því skóna, hæstv. forseti, heldur bara að benda á að hér vantar verulega fjármuni til að Vegagerðin þurfi

ekki að taka --- ef henni er ætlað, ég segi ef henni er ætlað því að ég veit ekki um það --- við þeim halla sem þarna blasir við. Ég hefði auðvitað viljað að hæstv. ráðherra svaraði okkur á eftir um það hvernig hann hefur hugsað sér að leysa þetta mál.
    Í nál. okkar fulltrúa minni hlutans í fjárln. er næst getið um jarðræktarframlög eða ógreidda styrki vegna jarðræktarframlaga en síðan nál. var gefið út hefur verið tekin sú ákvörðun að taka þetta inn í brtt. meiri hlutans þannig að ekki þarf að fara fleiri orðum um það. Gert var ráð fyrir því að þessi skuld, sem búið var að gera nefndinni grein fyrir, væri ógreidd. Styrkir frá fyrra ári verða nú greiddir með fjárveitingu sem hér kemur fram í brtt. meiri hluta nefndarinnar. En um tíma leit út fyrir að ekki yrði orðið við þeirri ósk og því var bent á það hér í okkar nál. af því að fjárveitingar í fjárlagafrv. fyrir árið 1993 gerðu ekki heldur ráð fyrir að hægt væri að gera upp þessa skuld.
    Við viljum þá líka árétta það eins og fram hefur komið síðustu daga að öllum landslýð og hv. þm. er ljóst að atvinnuleysið fer því miður mjög vaxandi. Það fer hraðvaxandi þessa dagana og þessar vikurnar. Það hlýtur að leiða til þess að vandi Atvinnuleysistryggingasjóðs vaxi einnig. Gert er ráð fyrir verulegum fjárhæðum til sjóðsins í fjáraukalagafrv. eins og það liggur fyrir. Ég hef ekki upplýsingar um það hvernig staða sjóðsins muni líta út núna þessa seinustu daga ef þessar tvær, þrjár, fjórar seinustu vikur þessa árs verða með þeim hætti sem nú blasir við. Auðvitað er hægt að grípa til þess ráðs að sjóðurinn gangi þá á eigið fé. Honum er ætlað á næsta ári að selja skuldabréf eða verðbréf sem hann hefur eignast á undanförnum árum. Ég spyr þá hæstv. fjmrh. að því hvort það liggi nú fyrir hver viðbótarfjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs kunni að vera vegna þess ástands sem nú blasir við og hvernig það mál verði leyst.
    Mig langar ef ég má, hæstv. forseti, aðeins að hverfa aftur að málefnum Hafrannsóknastofnunar og skal ekki gera það í mörgum orðum. Ég fór nokkuð ítarlega yfir það áðan en þá var hæstv. fjmrh. ekki kominn í salinn. Ég spurði eftir því hvort það lægi fyrir hvernig eigi að mæta þeim sértekjum sem hafa ekki enn skilað sér inn til Hafrannsóknastofnunar af því að ekki hefur tekist að selja allar aflaheimildir Hagræðingarsjóðs. Mér telst til að með þeim breytingum, sem frv. gerir ráð fyrir og þeim sölum sem við vitum nú þegar um á aflaheimildum, 25--30 millj. í haust og e.t.v. allt að 100 millj. samkvæmt útboðum frá 1. des., ekki vitað hvað af þeim raunverulega skilar sér en gæti verið allt að 100 millj., tilboðin hljóðuðu upp á það, að þá vanti samt um 300 millj. kr. sem ekki er gerð grein fyrir hvernig verði leyst. Reyndar má skjóta því inn í líka að menn gera sér nú ljóst að það mun ekki takast að innheimta þessar sértekjur allar á næsta ári eins og þær voru áætlaðar í fjárlagafrv. fyrir næsta ár og ráðgerðar eru breytingar á því. Þess vegna hefði ekki verið óeðlilegt að breyta þessu einnig eða a.m.k. gera grein fyrir hvernig eigi að standa að málunum.
    Þá langar mig aðeins að víkja að því, hæstv. forseti, að í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir að afla ríkissjóði tekna upp á rúmlega 1 milljarð kr. með sölu ríkiseigna og ríkisfyrirtækja. Strax í haust þegar frv. var lagt fram var ljóst að þetta mundi ekki skila sér og var upphæðin lækkuð um 500 millj. kr. en enn er gert ráð fyrir að 500 millj. kr. skili sér á þessu ári til ríkissjóðs sem söluandvirði ríkisfyrirtækja.
    Á lista, sem fjárln. barst frá fjmrn. 20 okt., kemur fram að aðeins 242 millj. kr. hafa þá skilað sér í ríkissjóð og, með leyfi forseta, langar mig að lesa þennan lista upp, hann er ekki langur. Þar er fyrst talað um sölu fasteigna sem eru einhverjar óskilgreindar húseignir og skiptir svo sem ekki öllu máli hvað er, ég geri engar kröfur um að fá það sundurliðað. En það hefur gefið 101 millj. kr. á þessum tíma. Framleiðsludeild ÁTVR hefur skilað 19 millj. kr., prentsmiðjan Gutenberg hf. hefur skilað 86 millj., Jarðboranir ríkisins hafa skilað 17 millj. og Ferðaskrifstofa Íslands 19 millj. kr. Samtals eru þetta 242 millj. kr. Síðar segir í texta með þessum lista, hæstv. forseti, með leyfi. ,,Þá er stefnt að því að selja hlutabréf ríkissjóðs í Þróunarfélagi Íslands og Íslenskri endurtryggingu síðar á þessu ári. Auk þess er reiknað með að hlutur ríkissjóðs í sölu Jarðborana hf. verði samtals um 130 millj. kr.`` En eins og áður var komið fram höfðu þá skilað sér á þessum tíma 17 millj. ,,Af sölu Jarðboranna hf. verði samtals 130 millj. kr. og er búist við að þær tekjur skili sér fyrir árslok. Samkvæmt fjárlagafrv. eru tekjur ríkissjóðs vegna sölu eigna áætlaðar 1.500 millj. kr. á næsta ári. Ekki hefur verið ákveðið hvaða eignir eigi að selja en ljóst er að eigi þessi áform að nást þarf að hefja sölu á hlut ríkisins í lánastofnunum á komandi ári, Búnaðarbanka, fjárfestingarlánasjóðum o.fl.`` Seinni hluti greinarinnar sem ég las upp á reyndar við um fjárlög næsta árs og það gefst tími til að spyrja hæstv. fjmrh. síðar að því hvaða fyrirtæki hann sé með í huga fyrir utan Búnaðarbankann sem hér er nefndur og er það eina sem nefnt er í svari við fyrirspurn frá nefndinni. En hvernig og hvort hæstv. fjmrh. er búinn að ná þessum 500 millj. sem fjárlög þessa árs munu gera ráð fyrir þegar búið er að samþykkja fjáraukalagafrv. eins og það liggur fyrir með brtt. hefði ég gaman af að heyra frá hæstv. ráðherra og þá hvaða fyrirtæki það eru, t.d. hvað sala á Þróunarfélagi Íslands gaf og annað sem talið er upp og gert ráð fyrir í þessum áætlunum.
    Mér sýnist á þessu, hæstv. forseti, sem ég hef hér upp talið og spurt um að allnokkuð vanti enn á að fjáraukalagafrv. og þær brtt., sem hér eru lagðar fram af hv. þm. sem skipa meiri hluta nefndarinnar, dugi til að leysa þau vandamál sem enn eru óleyst í ríkissjóði á þessu ári. Hæstv. fjmrh. mun eiga eftir að glíma við það, trúlega þó ekki héðan af á þessu ári, að fá samþykkt nýtt fjáraukalagafrv. með viðbótargreiðsluheimildum, viðbótarútgjaldatölum til að ná endum saman, en ég óttast að svo sé og það eigi eftir að koma í ljós.
    Ég ætla ekki að gera að umræðuefni einu sinni enn þann skoðanaágreining sem uppi er um það

hvernig eigi að ganga frá fjárlögum annars vegar og ríkisreikningi hins vegar og því samræmi sem þar þarf að gæta að sé á milli þannig að tölur séu aðgengilegar og skiljanlegar fyrir þá einstaklinga sem áhuga hafa á að kynna sér málin og fylgjast með. En í nýlega útkominni skýrslu frá Ríkisendurskoðun um framkvæmd fjárlaga til septemberloka árið 1992 sem kom út í nóvember sl. er enn þá minnt á þetta og þar gert ráð fyrir að ákveðnar fjárskuldbindingar séu teknar inn í uppgjör fjárlaga fyrir þetta ár til að sýna þær skuldbindingar sem ríkissjóður hefur tekið á sig. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að lesa eina málsgrein upp úr skýrslunni sem varðar þetta mál, en að öðru leyti ekki að gera mikið úr því að þessu sinni, það á vafalaust eftir að koma upp við önnur tækifæri, en þessi málsgrein hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Afkomuhorfur A-hluta ríkissjóðs í árslok.
    Í ágúst sl. lagði Ríkisendurskoðun mat á afkomuhorfur A-hluta ríkissjóðs í árslok 1992. Þar kom fram að ríkishalli að meðtöldum fjárskuldbindingum vegna Framleiðnisjóðs Íslands og lántökur ríkissjóðs vegna búvörusamnings frá árinu 1991, samtals að fjárhæð 2,6 milljarðar kr., stefndi í 11,6--12,1 milljarð kr. Stofnunin telur ekki ástæðu til að breyta þessu mati sínu á afkomu ríkissjóðs í árslok.``
    Þessi umræða var uppi í haust þegar Ríkisendurskoðun sendi frá sér skýrslu um afkomu ríkissjóðs fyrir hálft þetta ár og benti á þessar fjárskuldbindingar en ekki hafa enn verið teknar neinar skýrar ákvarðanir um það hvernig að skuli standa eða með skuli fara. En það var annar kafli í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar sem mig langar aðeins að gera að umtalsefni í lok ræðu minnar. Og það vil ég taka inn í þessa umræðu eða umfjöllun --- ( Forseti: Má forseti aðeins vekja athygli hv. þm. á því að það hefur verið ákveðin utandagskrárumræða kl. hálffjögur og vill því spyrja hv. þm. hvort hann eigi eftir langt mál þannig að það taki því fyrir hann að fresta ræðunni eða hvort hann geti lokið henni innan skamms tíma.) Ég held, hæstv. forseti, að ég muni geta það á fimm mínútum ef það er skynsamlegra, annars er ég tilbúinn að fresta henni líka. ( Fjmrh.: Klára ræðuna. Þetta er góð ræða.) Ég veit það. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., þetta er góð ræða enda hef ég farið ítarlega yfir þessi vandamál sem hann hefur við að glíma og ég hef beðið um það að þeir hæstv. ráðherrar tveir sem hér heiðra okkur með nærveru sinni --- þrír reyndar núna. ( Gripið fram í: Fjórir.) Nú það er bara allt fullt af hæstv. ráðherrum. Það þyrmir yfir mann þegar þeir þyrpast hér allir inn. ( Forseti: Þar sem það liggur fyrir að einn hæstv. ráðherra hefur óskað eftir að veita andsvar við ræðu hv. þm. þá væri betra að hann frestaði ræðunni nú því það getur annars dregist nokkurn tíma að henni ljúki og forseti vill standa við það sem áður hefur verið sagt að hér hefjist utandagskrárumræða.) Ég verð að sjálfsögðu við þeirri ósk, forseti.