Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 20:46:42 (4065)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Hæstv. forseti. Byggingarsaga Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði er orðin æðilöng og fer líklega á þriðja tuginn áður en lýkur. Tilboð í lokaáfanga sjúkrahússins voru opnuð 23. okt. sl. og höfðu fimm tilboð borist. Lægsta tilboð reyndist vera 57,9 millj. kr. en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 56 millj. kr. Næstlægsta tilboð var síðan 1 millj. kr. hærra en lægsta tilboð. Á fjárlögum 1992 voru fjárveitingar til verkefna við súkrahúsið 35 millj. kr. en af því áttu 9 millj. að fara til utanhússviðgerða. Það verk var boðið út á sl. sumri og bárust sextán tilboð. Þegar þau tilboð höfðu legið alllengi óafgreidd var ákveðið í ráðuneytinu að hafna öllum tilboðum og skoða hvort önnur viðgerð en áformuð var í útboðsskilmálum hentaði betur. Kostnaðaráætlun þar hljóðaði upp á 33 millj. en tilboðin sem bárust voru frá 29 millj. og upp úr. Ekkert hefur því enn verið unnið í viðgerðum utan húss við sjúkrahúsið. Nú eru rúmar sjö vikur síðan tilboðin í fimmta áfanga sjúkrahússins voru opnuð og enn hefur ráðherra ekki gengið til samninga við lægstbjóðanda um verkið. Allar athuganir á tilboðunum hafa verið gerðar hjá framkvæmdadeild Innkaupastofnunar og hefur hún metið það svo að taka beri lægsta tilboði.
    Nú er það svo að ekki eru til lög um útboð. En staðallinn ÍST30 lýsir almennum reglum sem myndast hafa í samskiptum verkkaupa og verktaka. Hann er saminn og samþykktur af fulltrúum helstu hagsmunaaðila í byggingariðnaði og er ætlað að tryggja gagnkvæman rétt þeirra og stuðla að skipulegum og heiðarlegum vinnubrögðum af hálfu beggja aðila. Því er mikilvægt að menn geti treyst því að farið sé eftir ákvæðum ÍST30. Í áttunda kafla íslensks staðals er fjallað um frest til að taka tilboði. Fresturinn er ákveðinn þrjár vikur samkvæmt staðlinum frá því að tilboð voru opnuð. Bjóðandi er bundinn af tilboði sínu þann tíma. Í dag eru rúmar fjórar vikur frá því að fresturinn rann út og fer raunar að nálgast fimmtu vikuna. Og rétt fyrir hádegi í dag hafði ráðherra enn ekki tekið ákvörðun um að ganga til samninga um verkið.
    Það er hverjum manni augljóst að þetta eru óeðlileg vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Þeim mönnum sem áttu lægstu tilboðin er haldið í óvissu um það hvor þeirra fái verkið. Á meðan svo er verða þeir að halda að sér höndum við útboð á öðrum verkum. Þeir verða að halda mönnum í vinnu í von um að þeir fái þetta verk þó ekkert sé fyrir þá að gera á þessari stundu.
    Allir vita hvernig átvinnuástandið í þjóðfélaginu er úm þessar mundir. Framboð á atvinnu er lítið og menn reyna að tryggja afkomu sína með öllum ráðum. Því er óskiljanlegt að ráðherra heilbrigðismála skuli koma fram með þessum hætti. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er hann búinn að ákveða hvaða tilboði verður tekið og hverjar eru ástæður þess að enn hefur ekki lægsta tilboði verið tekið í þetta verk?