Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 20:59:12 (4069)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ekki veit ég hvort hæstv. ráðherra telur að ekki sé á það hættandi að halda áfram með framkvæmdir inni í húsinu fyrr en hann veit hvort hann treystir sér til að láta gera við húsið að utan. En merkilegt er það hvað hann hefur tekið mikinn tíma í það að hugleiða þetta mál. Nú hef ég þá reynslu af hæstv. ráðherra að það skaðar yfirleitt ekki að leyfa honum að hugsa og ég get ekki lagst gegn því að hann noti jólin til þeirra hluta. En ég vona að hann villist ekki af réttum vegi í þessu máli.
    Varðandi skemmdirnar, sem lýst er á sjúkrahúsinu, þá er ég sammála hæstv. ráðherra að ég tel að það eigi að stefna undir svona kringumstæðum. Ég tel að það eigi að vera alveg á hreinu að sá sem ber ábyrgð á slíkum mistökum sem þarna eru eigi ávallt að búa við það aðhald að hann viti að upp koma svik um síðir og þá á að taka á því máli. Ég held líka að ekki fari á milli mála að Innkaupastofnunin sjálf sé þar ábyrg því hún er eftirlitsaðilinn með verkinu og kannski ekki óeðlilegt að henni sé stefnt í leiðinni.
    En burt séð frá því hafa verið miklar annir hjá ráðherranum og e.t.v. er það þess vegna sem hann hefur ekki komist yfir það að hugsa nóg um þetta mál. En eins og frummælandi gat um áðan þá liggur fyrir ákveðið álit og náttúrlega þurfa að vera mjög sterk rök ef að menn taka ákvarðanir um að taka ekki lægsta tilboði.