Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 44 . mál.


45. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 36 27. maí 1992, um Fiskistofu.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Aftan við 1. málsl. 2. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Þá skal Fiskistofa hafa með hendi eftirlit með meðferð fisks og framleiðslu sjávarafurða.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á síðasta þingi var lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um Fiskistofu. Í því frumvarpi var lagt til að eftirlit með meðferð fisks og framleiðslu sjávarafurða yrði flutt frá Ríkismati sjávarafurða til Fiskistofu. Jafnhliða frumvarpi um Fiskistofu var lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Þar sem ekki náðist að afgreiða síðarnefnda frumvarpið á vorþingi var fellt úr frumvarpi um Fiskistofu ákvæði sem laut að flutningi þessara verkefna frá Ríkismati sjávarafurða til Fiskistofu.
     Nú hefur hins vegar verið lagt fyrir Alþingi að nýju frumvarp til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra og er þar lagt til að Fiskistofa annist það hlutverk. Er því þetta frumvarp um breytingu á lögum um Fiskistofu lagt fram samhliða.