Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 520 . mál.


878. Tillaga til þingsályktunar



um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Sigbjörn Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd er undirbúi samningu laga um greiðsluaðlögun til aðstoðar fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Nefndin skal meðal annars kanna svipuð lög annars staðar á Norðurlöndum og afla upplýsinga um reynsluna af þeim.

Greinargerð.

    Skuldir heimilanna hafa aukist mjög síðasta áratug. Samkvæmt upplýsingum Neytendasamtakanna stappar nærri að þær hafi fjórfaldast frá árinu 1981 til loka ársins 1992, en á þeim tíma jukust þær úr rúmum 60 milljörðum kr. í 226 milljarða kr. Aukningin nemur 377%. Sem hlutfall af landsframleiðslu fóru þær á þessum tíma úr 14% í tæp 54%. Upplýsingar um skuldaþróun heimilanna síðan 1981 koma fram í eftirfarandi töflu sem unnin var af Sólrúnu Halldórsdóttur, hagfræðingi Neytendasamtakanna:

Heildarskuldir

Aukning frá

Ár

heimilanna (m.kr.)

fyrra ári (%)


1981          
60
,5
1982           75
,4
24 ,6
1983           78
,0
3 ,5
1984           90
,2
15 ,5
1985           105
,1
16 ,5
1986           120
,8
14 ,9
1987           134
,0
10 ,9
1988           149
,3
11 ,4
1989           155
,9
4 ,4
1990           183
,1
17 ,5
1991           214
,9
17 ,4
1992           226
,7
5 ,5

    Þessi þróun er svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Orsaka hennar er ekki síst að leita í mikilli hækkun raunvaxta á bankalánum, en lægstir voru þeir á síðasta áratug ársins 1983, er raunvextir voru neikvæðir um 14,2% en hæst fóru þeir 1989 í 15,9%. Góðu heilli hafa þeir síðan lækkað talsvert og voru í lok síðasta árs 9,9% og hafa farið lækkandi síðan. Hækkun raunvaxta hefur þyngt greiðslubyrði heimilanna verulega og hafa þau neyðst til að mæta henni með enn frekari lántökum, og þannig skapast í mörgum tilvikum illrjúfanlegur vítahringur sem um síðir knýr fjölskyldur í hörmungar gjaldþrots.
    Versnandi atvinnustig í landinu hefur enn aukið á vandann. Margar fjölskyldur réðust í húsnæðiskaup á árum þegar næg atvinna og eftirspurn eftir vinnuafli gerði þeim kleift að brjótast gegnum erfiðustu greiðsluárin með mikilli aukavinnu. Versnandi atvinnustig hefur takmarkað þessa möguleika til aukatekna. Það ásamt háum raunvöxtum hefur leitt til mikils greiðsluvanda margra heimila. Sömuleiðis er líklegt að atvinnuleysi muni á næstunni valda æ fleiri fjölskyldum, sem ráðist hafa í húsnæðiskaup á síðustu árum, verulegum greiðsluerfiðleikum.
    Að sönnu hefur ekki verið gerð tæmandi könnun á vanskilum heimilanna á lánamarkaði hér á landi og löngu tímabært að gera úttekt á ástæðum og umfangi þeirra. Til dæmis um stöðuna má þó nefna að upplýsingar sem Neytendasamtökin öfluðu frá Húsnæðisstofnun benda til að allt að 2.800 fjölskyldur eigi við verulega greiðsluerfiðleika að etja í dag. Eins og fyrr greinir er líklegt að slæmt atvinnuástand í landinu muni hraða þessari þróun.
    Annars staðar á Norðurlöndum hafa menn gripið til þess ráðs að setja sérstök lög um greiðsluaðlögun til að aðstoða fólk sem lendir í alvarlegum vanskilum vegna utanaðkomandi aðstæðna. Slík lög hafa verið samþykkt í Danmörku, Noregi og Finnlandi, og fyrir sænska þinginu liggur frumvarp svipaðs eðlis.
    Markmið laga um greiðsluaðlögun er að létta greiðslubyrði skuldara með því að breyta lánskjörum, þ.e. vöxtum og lánstíma, eða afskrifa höfuðstól skuldanna að hluta eða öllu leyti. Greiðsluaðlögunin hefur marga kosti í för með sér fyrir bæði skuldarann og lánardrottna en ekki síst fyrir samfélagið í heild:
    Skuldaranum er gert mögulegt að standa í skilum og hjálpað til að komast um síðir út úr erfiðleikunum, oftast án þess að til gjaldþrots komi. Fyrir hann og fjölskyldu hans skiptir þó mestu að greiðsluaðlögun gerir kleift að sneiða hjá upplausn heimilanna og þeirri mannlegu óhamingju sem gjaldþrotum fylgir. Fyrir lánardrottna aukast líkur á að þeir fái a.m.k. hluta skuldanna greiddan.
    Samfélagið hagnast sömuleiðis verulega á því að opna fólki í verulegum vanskilum leið úr ógöngum sínum. Miklir fjárhagserfiðleikar leiða mjög oft til skipbrots fjölskyldunnar; í mörgum tilvikum tapar hún samastað sínum og samfélagið þarf að koma til hjálpar með beinum fjárhagslegum hætti. Löggilding greiðsluaðlögunar getur því sparað mikil útgjöld fyrir hið opinbera.
    Eins og háttar annars staðar á Norðurlöndum eru ströng skilyrði sett fyrir greiðsluaðlögun:
—    Einungis þeir sem lent hafa í erfiðleikum af óviðráðanlegum ástæðum hljóta greiðsluaðlögun. Hafi vanskilin orðið til vegna óhóflegrar neyslu er henni ávallt hafnað.
—    Skuldarinn þarf að færa sönnur á að hann sé ekki fær um að greiða skuldir sínar og muni ekki geta staðið við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Tímabundnir greiðsluerfiðleikar mundu því alls ekki falla undir lög um greiðsluaðlögun.
    Frekari grein fyrir þeim lögum, sem gilda annars staðar á Norðurlöndum um greiðsluaðlögun, er að finna í greinargerð eftir Sólrúnu Halldórsdóttur, hagfræðing Neytendasamtakanna, sem birt er sem fylgiskjal með frumvarpinu.

Skipan nefndarinnar.

    Í nefndinni, sem lagt er til að félagsmálaráðherra skipi til að undirbúa lagasetninguna um greiðsluaðlögun, er nauðsynlegt að fulltrúar hagsmunaaðila eigi sæti, t.d. banka og fjármálastofnana og verkalýðshreyfingarinnar, auk fulltrúa Neytendasamtakanna. En Neytendasamtökin hafa haft frumkvæði að því að kynna málið hér á landi og hafa auk þess drjúga reynslu af því gegnum fjárhagsráðgjöf sem samtökin hófu á síðasta ári.



Fylgiskjal.


Sólrún Halldórsdóttir hagfræðingur:

Lög um greiðsluaðlögun — greinargerð og skýringar.

(Neytendasamtökin, mars 1993.)

     Hvers vegna lög um greiðsluaðlögun?
    Lög um greiðsluaðlögun í Noregi (Gjeldsordningsloven) tóku gildi 1. janúar 1993. Þau gefa einstaklingum í alvarlegum greiðsluerfiðleikum möguleika á því að fá stjórn á fjármálum sínum.
    Með löggjöf um greiðsluaðlögun geta þeir sem ekki hafa getað borgað vexti og afborganir af lánum samkvæmt upprunalegum lánasamningi fengið lækkun á greiðslubyrði. T.d. getur lækkun vaxta, lenging lánstíma eða breyting skammtímalána í lán til lengri tíma verið nægjanleg til að lántakandi geti staðið í skilum með skuldbindingar. Ef nauðsyn krefur getur einstaklingur einnig fengið greiðsluaðlögun með lækkuðum höfuðstól eða niðurfellingu skuldar sem ekki er nægjanlega tryggð með veði.
     Hverjum hjálpa lögin?
    Markmið laganna er að hjálpa einstaklingum sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Fjárhagsvandinn verður að vera það mikill að einstaklingurinn sé ekki fær um að greiða vexti og afborganir. Jafnframt verða greiðsluerfiðleikarnir að vera viðvarandi. Tímabundnir greiðsluerfiðleikar falla því ekki undir lögin. Í lögunum eru ekki nefnd nein neðri mörk af stærð skuldar. Sú greiðslubyrði, sem einstaklingur ræður við, fer eftir tekjum og útgjöldum hans.
    Ekki er möguleiki á að sækja um greiðsluaðlögun ef nýlega hefur verið tekið stórt lán. Litið er á slíkt sem misnotkun á löggjöfinni. Ekki er heldur hægt að skrifa maka fyrir eignum og sækja síðan um greiðsluaðlögun. Áður en veitt er leyfi fyrir greiðsluaðlögun verður einstaklingurinn sjálfur að hafa reynt að ná samkomulagi við lánardrottna um greiðsluaðlögun.
     Umsókn um greiðsluaðlögun.
    Ef ekki hefur náðst samkomulag við lánardrottna er hægt að sækja um að fjármálin verði tekin til athugunar hjá sýslumanni (namsmannen). Umsóknareyðublöð liggja frammi hjá félagsmálastofnun, á skrifstofu Neytendastofnunarinnar og hjá sýslumönnum.
    Í umsókninni þurfa að koma fram eftirfarandi atriði:
—    Upphæð skulda.
—    Nöfn lánardrottna.
—    Upplýsingar um fjölskylduhagi og útgjöld.
—    Tekjur.
    Nauðsynlegt er að gefa sem nákvæmastar upplýsingar um atriði sem hafa áhrif á fjármálin. Ef viljandi er leynt upplýsingum sem skipta máli eða rangar upplýsingar gefnar getur sýslumaður neitað að umsóknin verði tekin til meðhöndlunar. Sýslumaður yfirfer gefnar upplýsingar og nálgast viðbótarupplýsingar ef þurfa þykir. Sýslumaður úrskurðar hvort greiðsluerfiðleikarnir eru það alvarlegir að réttlæti greiðsluaðlögun.
     Leiðbeiningarskylda sýslumanns.
    Sýslumanni ber skylda til að upplýsa skuldara um hvaða réttindi og skyldur greiðsluaðlögunin hefur fyrir umsækjanda. Skuldari á rétt á að fá hjálp við að koma með tillögur að greiðsluaðlögun. Til að sjá um málefni skuldara er oft ráðinn aðstoðarmaður á greiðsluaðlögunartímabilinu (forskrift om oppnevnelse af og godtgørelse til medhjelper undir gjeldsforhandling).
    Eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt hjá sýslumanni fær skuldari þriggja mánaða greiðslufrest á öllum skuldum. Skuldin ber vexti á tímabilinu en gjaldfellur ekki fyrr en síðar.
     Samningar við lánardrottna.
    Greiðslustöðvunartímabilið er notað til samningaumleitana við lánardrottna um það hvernig skuldari getur losnað úr þeim alvarlegu greiðsluerfiðleikum sem hann er í. Í samningaviðræðum er gengið út frá að skuldari borgi skuldir sínar, en með öðrum skilmálum en hingað til. Til að létta greiðslubyrði er samið um eftirfarandi atriði í þessari röð: a. lækkun vaxta, b. lengri lánstíma. Ef þetta nægir ekki til að losa skuldara úr greiðsluerfiðleikum er samið um: c. afskrifun skuldar að hluta, d. skuld afskrifuð að öllu leyti.
     Auglýsing til lánardrottna.
    Greiðslustöðvun einstaklinga skal auglýst í Lögbirtingablaðinu. Lánardrottnar þurfa að gefa sig fram við sýslumann innan ákveðins frests (oftast fjórar vikur). Einnig getur sýslumaður ákveðið að auglýsa greiðslustöðvun í bæjarblaði í heimabæ umsækjanda.
    Aðgerðir sýslumanns.
    Á greiðslustöðvunartímabilinu tekur sýslumaður eignir skuldara í sína vörslu og er því ekki hægt að selja eignir á nauðungaruppboði á tímabilinu. Bíll, sumarbústaður og aðrar eignir, sem ekki eru taldar nauðsynlegar, getur skuldari þurft að selja til þess að til greiðsluaðlögunar geti komið. Með þessu er unnt að greiða niður skuldir og lánardrottnar fá meira í sinn hlut en ella.
    Skuldara er ætlaður lágur framfærslukostnaður fyrir fjölskylduna, bæði á greiðslustöðvunar- og greiðsluaðlögunartímabilinu. Ef t.d. húsnæðið er stærra eða dýrara en nauðsynlegt er er sölu krafist á húsnæðinu.
    Á greiðslustöðvunartímabilinu dregur sýslumaður (eða umsjónarmaður ef hann hefur verið ráðinn) af launum skuldara þá upphæð sem ekki er nauðsynleg til framfærslu og ráðstafar upp í þær skuldir sem frestur hefur verið fenginn á.
     Skyldur skuldara með greiðslustöðvun.
    Skuldara ber skylda til að leggja það fjármagn til hliðar sem er umfram áætlaðan framfærslukostnað. Skuldara er þannig ekki leyfilegt að kaupa vöru og/eða þjónustu sem ekki er talin nauðsynleg fyrir heimilið. Skuldari má heldur ekki taka ný lán á greiðslustöðvunartímabilinu án samþykkis allra lánardrottna. Skuldari má heldur ekki selja eða veðsetja eignir sínar án samþykkis sýslumanns.
    Greiðsluaðlögun — hvað þá?
    Á greiðslustöðvunartímabilinu hefur náðst samkomulag (annaðhvort frjálst eða þvingað) milli skuldara og lánardrottna um greiðsluáætlun. Í samningnum, sem gerður er, kemur fram eftirfarandi,
—    hversu stóran hluta höfuðstóls skuldari skal greiða,
—    lánstími,
—    vaxtaprósenta og upphæð í krónum,
—    gjalddagar.
    Greiðslubyrði verður í flestum tilfellum áfram þung þrátt fyrir greiðsluaðlögun, en þó ekki þyngri en svo að skuldari geti framfleytt sér og fjölskyldu sinni.
    Hversu lengi gildir greiðsluaðlögunin?
    Greiðsluaðlögunin gildir í fimm ár. Ef fjárhagsstaða skuldara versnar á þessu tímabili, t.d. vegna atvinnuleysis er hægt að sækja um að samningurinn við lánardrottna verði endurskoðaður með tilliti til breyttra aðstæðna. Ef skuldari hefur aftur á móti bætt fjárhagsstöðu sína á tímabilinu geta lánardrottnar krafist þess að hann borgi meira en upphaflega var um samið.
     Skyldur skuldara á greiðsluaðlögunartímabilinu.
    Ein höfuðskylda skuldara er að standa í skilum með lán sín samkvæmt samningi við lánardrottna. Ef misbrestur verður á þessu getur lánardrottinn krafist þess að samningi um greiðsluaðlögun verði rift. Þetta þýðir að skuldari er í sömu fjárhagsstöðu og fyrir greiðslustöðvun.
    Eftir greiðsluaðlögunartímabilið.
    Þegar greiðsluaðlögunartímabilinu lýkur, venjulegast eftir fimm ár, getur skuldari haft hærri ráðstöfunartekjur en sem samsvarar framfærslukostnaði án þess að þurfa að greiða hærri upphæð til lánardrottna.
    Einungis er hægt að sækja um greiðsluaðlögun einu sinni. Varkárni í fjármálum er því enn mikilvægari fyrir skuldara eftir að greiðsluaðlögunartímabilinu lýkur en áður.