Endurskoðun grunnskólalaga

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 13:46:54 (4226)


[13:46]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Menntastefnunefnd, 18 manna nefnd, er að ljúka störfum. Í gær var haldinn fundur í nefndinni þar sem lokið var umfjöllun um framhaldsskólafrumvarpið og ég fékk það afhent. Það fer núna til kynningar hjá ýmsum aðilum sem við höfum sérstaklega óskað eftir að fari yfir það áður en það verður gengið endanlega frá því til framlagningar á hv. Alþingi. Lokaskýrsla nefndarinnar og grunnskólafrumvarpið mun verða tilbúið síðar í þessum mánuði, fyrir mánaðamót alla vega. Þá verður það á sama hátt og framhaldsskólafrumvarpið kynnt fyrir hinum ýmsu aðilum sem ráðuneytið hefur sérstaklega óskað eftir að tjái sig um málið áður en það verður lagt fram í endanlegu formi fyrir hv. Alþingi.

    Síðari fyrirspurn hv. þm. var um það hvort ég teldi enn tæknilega hægt og skynsamlegt að halda við fyrri áætlanir um yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna í ágústmánuði 1995. Svarið við því er já. Ég tel að það sé enn hægt og rétt að stefna að þeirri dagsetningu með yfirfærsluna. Ég bendi í því sambandi á að tvær nefndir hafa sérstaklega verið skipaðar til þess að kanna annars vegar kostnaðinn við flutning grunnskólans og hins vegar er önnur nefnd sem vinnur að því að athuga um réttindamál kennaranna eftir að þeir verða starfsmenn sveitarfélaganna.